Leita
Bætt eftirfylgni vegna símhringinga í 112
Tillaga í öryggisátt
RNSA beinir því til Neyðarlínunnar að bæta eftirfylgni vegna símhringinga án skýrrar tjáningar þess sem hringir.
Afgreiðsla
Neyðarlínan hefur ekki mótað verklag um bætta eftirfylgni símhringinga sem berast án skýrrar tjáningar þess sem hringir, sbr. tillögu RNSA Neyðarlínan hefur hins vegar ítrekað það verklag sem viðhaft hefur verið í gegnum árin að neyðarverðir hringi til baka, ef símtal slitnar, ef minnsti grunur leiki á því að innhringjandi sé í vanda. Eftirfylgni neyðarsímtala almennt er til skoðunar samhliða rýni og endurskoðunar gæðahandbókar Neyðarlínunnar sem nú er í gangi.
Innleiðing á ADS-B
Tillaga í öryggisátt
RNSA beinir því til Samgöngustofu að innleiða ADS-B senda í öll mönnuð loftför sem fljúga í íslensku loftrými.
Afgreiðsla
Svar Samgöngustofu:
Vísað er til lokaskýrslu RNSA um flugslys TF-ABB við Þingvallavatn dags. 2. maí 2024 þar sem RNSA ”beinir því til Samgöngustofu að innleiða ADS-B senda í öll mönnuð loftför sem fljúga í íslensku loftrými”. Samgöngustofa telur að slík krafa væri íþyngjandi gangvart umráðendum loftfara í einkaflugi þar sem töluverður kostnaður felst í ísetningu og kaupum á slíkum búnaði. Slíkar kröfur eru ekki gerðar á meginlandi Evrópu né í Bandaríkjunum. Samgöngustofa veit til þess að nokkur loftför í einkaflugi eru búin slíkum búnaði en oft og tíðum er búnaðurinn óvottaður og sendir frá sér merki með ófullnægjandi gæðum og því ekki nothæfur fyrir Isavia ANS. Rétt er að taka fram að mikil þróun er á þessu sviði og Samgöngustofa mun fylgjast með framgangi þessara mála og hafa í huga komi til þess að farið verði að innleiða ADS-B sem lágmarksbúnað í Evrópu. Samgöngustofa mun því ekki gera kröfu um ísetningu ADS-B búnaðar í mönnuð loftför sem fljúga í íslensku loftrými að svo stöddu.
Niðurstaða RNSA:
Í samræmi við 35. grein laga 18/2013, þá hefur RNSA yfirfarið viðbrögð Samgöngustofu við tillögu 22-010F002-T1. RNSA telur viðbrögð SGS ekki fullnægjandi og hvetur nefndin til þess að leiðir verði skoðaðar til þess að draga úr íþyngjandi áhrifum innleiðingar og setji markmið um innleiðingu á ADS-B sendum í öll mönnuð loftför sem fljúga í íslensku loftrými. Mun tillagan því áfram standa opin hjá RNSA.
Samræming á gögnum og úrvinnslu þeirra
Tillaga í öryggisátt
RNSA beinir því til Landhelgisgæslu Íslands að Samhæfingarstöðin og aðrir viðbragðsaðilar gæti þess að samræma töluleg gögn og aðrar upplýsingar og úrvinnslu þeirra í tengslum við leit og björgun.
Afgreiðsla
Viðbragðsáætlun fyrir leit og björgun
Tillaga í öryggisátt
RNSA beinir því til Landhelgisgæslu Íslands að koma á viðbragðsáætlun fyrir Samhæfingarstöðina, í samvinnu við viðkomandi hagaðila, um hvernig skipulagi, framkvæmd og ábyrgð leitar að týndu loftfari skuli háttað.