Verklagsreglur um notkun miðla

Verklagsreglur um notkun miðla

Flug
Nr. máls: 24-015F007
Staða máls: Lokuð
Farðu í skýrslu 30.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Isavia ohf, Isavia  Innanlandsflugvalla ehf og Isavia ANS ehf, sem veita flugumferðarþjónustu, að fullmóta og setja verklagsreglur um notkun miðla í vinnurýmum flugumferðarþjónustu.

Afgreiðsla

Isavia ANS ehf:

 

Þann 14.01.2025 gaf Isavia ANS, út verklag VR400 35 Ábyrg notkun miðla. Í því kemur fram að notkun miðla er óheimil í vinnustöðu flugumferðarstjóra, en verklagið er eftirfarandi:

Tilgangur og umfang

Setja reglur um ábyrga notkun miðla í rýmum flugleiðsögu.

Skilgreining

Miðill: Samheiti yfir raftæki sem notuð eru til afþreyingar, s.s. farsímar, spjaldtölvur, tölvur, og sjónvörp (útvörp) þar sem efni er miðlað og ætlað til afþreyingar þar með talið leikir, íþróttaviðburðir o.s.frv.

Hafa ber í huga að önnur afþreying getur haft sömu áhrif á athygli notenda og raftæki, til dæmis lestur bóka, flókin handavinna og úrvinnsla erfiðra þrauta. 

Framkvæmd

Fyrirkomulag á notkun miðils í vinnurýmum flugleiðsögu:

Notkun miðla, samkvæmt skilgreiningu að ofan, er óheimil í vinnustöðu flugumferðarstjóra. Vaktstjórnandi getur veitt undanþágu frá meginreglunni, til dæmis þegar engin umferð er í flugstjórnarsviði eða lítil umferð á næturvakt. Hafa ber í huga að notkun miðla í eða nálægt vinnustöð flugumferðarstjóra má undir engum kringumstæðum hafa truflandi áhrif.

Þátttaka í fundum úr vinnustöðu er ekki leyfileg.

 

Isavia Innanlandsflugvellir ehf:

 

Isavia Innanlandsflugvelllir kaupa ATC þjónustu af Isavia ANS.  Við lítum svo á að þetta sér mál sem starfsleyfishafi á að leysa en við sem þjónustukaupi munum fylgja því eftir að úrbótatillögur sem tengjast þessu máli verði framfylgt.

 

Isavia ohf:

 

Þann 5.02.2025 gaf Isavia ohf, út verklag VR720 15 Ábyrg notkun miðla í flugturni á Keflavíkurflugvelli, en verklagið er eftirfarandi:

Tilgangur og umfang

Tryggja sameiginlegan skilning og verklag hvað varðar ábyrga notkun miðla í vinnurými flugturns, 7. hæð, þar sem veitt er flugumferðarþjónusta (ATS).

Skilgreiningar

Miðill: Samheiti yfir raftæki sem notuð eru til afþreyingar, s.s. farsímar, spjaldtölvur, tölvur, sjónvörp og annað þar sem efni er miðlað og ætlað til afþreyingar.
Hafa ber í huga að önnur afþreying getur haft sömu áhrif á athygli notenda og miðlar.
Stýring á virkri umferð: Þegar starfsfólk veitir flugumferðarþjónustu eða mun veita hana innan stundar. Á við um loftför, ökutæki og annað sem kann að falla undir flugumferðarþjónustu

Fyrirkomulag á notkun miðla í vinnurými flugturns á 7. hæð:

Notkun miðla, samkvæmt skilgreiningu að ofan, er óheimil í vinnustöðu þegar starfsfólk stýrir virkri umferð í svæði BIKF eða á tíðni flugturns.
Þegar engin virk umferð er í svæði BIKF eða á tíðnum flugturns er starfsfólk hvatt til að sýna fagmennsku í vinnustöðu og nota ekki miðla nema í undantekningartilvikum eða þegar brýna nauðsyn krefur og ekki er unnt að leysa starfsfólk af.
Hafa ber í huga að notkun miðla í eða nálægt vinnustöðu má undir engum kringumstæðum hafa truflandi áhrif.