Tillögur í öryggisátt

Lög um RNSA, 35. gr.

Þjálfun neyðarviðbragða

Flug
Nr. máls: M-02012/AIG-16
Staða máls: Lokuð
17.09.2014

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir því til fisfélagsins Sléttunnar að verkleg kennsla við þjálfun á neyðarviðbrögðum verði bætt.

Afgreiðsla

Fisfélagið Sléttan í samvinnu við fisfélag Reykjavíkur og Samgöngustofu hefur hafið vinnu við endurskoðun verklagshandbóka fisfélaga. Vonast er til að þetta klárist vorið 2016.

Þétta net sölustaða Avgas 100LL á flugvöllum landsins

Flug
Nr. máls: 19-085F023
Staða máls: Opin
29.10.2020

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir því til Samgönguráðuneytisins að beita sér fyrir þéttingu nets sölustaða Avgas 100LL eldsneytis á flugvöllum landsins.

Afgreiðsla

Óafgreitt af Samgönguráðuneytinu.

Vöktun fylgni flugvéla við heimilaða flugleið

Flug
Nr. máls: 16-131F022
Staða máls: Lokuð
30.06.2020

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir eftirfarandi tillögum í öryggisátt til Isavia og dótturfyrirtækis þess Isavia ANS:

Að hugað verði að innleiðingu á búnað (Approach Path Monitoring) í flugumferðarstjórnunarkerfi Isavia fyrir aðflug til Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar (FAXI TMA), sem og fyrir Keflavíkurflugvöll (BIKF TWR) og Reykjavíkurflugvöll (BIRK TWR) sem vakti fylgni flugvéla í stjórnuðu loftrými við heimilaða flugleið.

Afgreiðsla

Kerfi sem vaktar að ferill flugvélar sé í samræmi við útgefna flugheimild er á þróunaráætlun Isavia ANS. Innleiðingardagsetning hefur ekki verið ákveðin.

Viðbragðsáætlun fyrir leit og björgun

Flug
Nr. máls: 22-010F002
Staða máls: Opin
02.05.2024

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir því til Landhelgisgæslu Íslands að koma á viðbragðsáætlun fyrir Samhæfingarstöðina, í samvinnu við viðkomandi hagaðila, um hvernig skipulagi, framkvæmd og ábyrgð leitar að týndu loftfari skuli háttað.

Afgreiðsla

Verklagsreglur um notkun miðla

Flug
Nr. máls: 24-015F007
Staða máls: Lokuð
30.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Isavia ohf, Isavia  Innanlandsflugvalla ehf og Isavia ANS ehf, sem veita flugumferðarþjónustu, að fullmóta og setja verklagsreglur um notkun miðla í vinnurýmum flugumferðarþjónustu.

Afgreiðsla

Isavia ANS ehf:

 

Þann 14.01.2025 gaf Isavia ANS, út verklag VR400 35 Ábyrg notkun miðla. Í því kemur fram að notkun miðla er óheimil í vinnustöðu flugumferðarstjóra, en verklagið er eftirfarandi:

Tilgangur og umfang

Setja reglur um ábyrga notkun miðla í rýmum flugleiðsögu.

Skilgreining

Miðill: Samheiti yfir raftæki sem notuð eru til afþreyingar, s.s. farsímar, spjaldtölvur, tölvur, og sjónvörp (útvörp) þar sem efni er miðlað og ætlað til afþreyingar þar með talið leikir, íþróttaviðburðir o.s.frv.

Hafa ber í huga að önnur afþreying getur haft sömu áhrif á athygli notenda og raftæki, til dæmis lestur bóka, flókin handavinna og úrvinnsla erfiðra þrauta. 

Framkvæmd

Fyrirkomulag á notkun miðils í vinnurýmum flugleiðsögu:

Notkun miðla, samkvæmt skilgreiningu að ofan, er óheimil í vinnustöðu flugumferðarstjóra. Vaktstjórnandi getur veitt undanþágu frá meginreglunni, til dæmis þegar engin umferð er í flugstjórnarsviði eða lítil umferð á næturvakt. Hafa ber í huga að notkun miðla í eða nálægt vinnustöð flugumferðarstjóra má undir engum kringumstæðum hafa truflandi áhrif.

Þátttaka í fundum úr vinnustöðu er ekki leyfileg.

 

Isavia Innanlandsflugvellir ehf:

 

Isavia Innanlandsflugvelllir kaupa ATC þjónustu af Isavia ANS.  Við lítum svo á að þetta sér mál sem starfsleyfishafi á að leysa en við sem þjónustukaupi munum fylgja því eftir að úrbótatillögur sem tengjast þessu máli verði framfylgt.

 

Isavia ohf:

 

Þann 5.02.2025 gaf Isavia ohf, út verklag VR720 15 Ábyrg notkun miðla í flugturni á Keflavíkurflugvelli, en verklagið er eftirfarandi:

Tilgangur og umfang

Tryggja sameiginlegan skilning og verklag hvað varðar ábyrga notkun miðla í vinnurými flugturns, 7. hæð, þar sem veitt er flugumferðarþjónusta (ATS).

Skilgreiningar

Miðill: Samheiti yfir raftæki sem notuð eru til afþreyingar, s.s. farsímar, spjaldtölvur, tölvur, sjónvörp og annað þar sem efni er miðlað og ætlað til afþreyingar.
Hafa ber í huga að önnur afþreying getur haft sömu áhrif á athygli notenda og miðlar.
Stýring á virkri umferð: Þegar starfsfólk veitir flugumferðarþjónustu eða mun veita hana innan stundar. Á við um loftför, ökutæki og annað sem kann að falla undir flugumferðarþjónustu

Fyrirkomulag á notkun miðla í vinnurými flugturns á 7. hæð:

Notkun miðla, samkvæmt skilgreiningu að ofan, er óheimil í vinnustöðu þegar starfsfólk stýrir virkri umferð í svæði BIKF eða á tíðni flugturns.
Þegar engin virk umferð er í svæði BIKF eða á tíðnum flugturns er starfsfólk hvatt til að sýna fagmennsku í vinnustöðu og nota ekki miðla nema í undantekningartilvikum eða þegar brýna nauðsyn krefur og ekki er unnt að leysa starfsfólk af.
Hafa ber í huga að notkun miðla í eða nálægt vinnustöðu má undir engum kringumstæðum hafa truflandi áhrif.

Verklag við lendingar á jöklum og í snjó

Flug
Nr. máls: M-00414/AIG-02
Staða máls: Lokuð
10.08.2017

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir því til Norðurflugs að setja í handbækur sínar verklagsreglur varðandi lendingar á jöklum og á snjó, þegar hætta er á að flugmenn geti misst viðmið á jörðu.

Afgreiðsla

Norðurflug hefur innleitt tillöguna á eftirfarandi hátt:

  • Hluti í handbók 8.1.2.2
  • Hluti af OPC formi
  • Hluti af þjálfun fyrir þyrlu skíðun þar sem einkum reynir á þetta og í kennsluefni er ítarlega farið yfir „whiteout“
  • Hluti af áhættumati sem gert er vegna nýrrar reglugerðar Ferðamálastofu

Verklag um samsetningu

Flug
Nr. máls: M-01511/AIG-12
Staða máls: Lokuð
24.10.2013

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að Svifflugfélag Akureyrar setji upp skriflega verkferla fyrir samsetningu svifflugvéla í sinni umsjá og tryggi að þeim sé fylgt.

Afgreiðsla

Svifflugfélagi Akureyrar hefur sett upp eftirfarandi verklag:

Samsetning á svifflugum skal framkvæmd af vönum aðila og eftir handbók viðkomandi vélar. Ef kostur er þá skal vanur maður velja annan aðila til þjálfunar við samsetningu til að tryggja að sem flestir kunni rétt til verka. Einungis einn aðili ber ábyrgð á samsetningunni. Ef ekki er kostur á vönum manni við samsetningu til dæmis ef um nýja vél er að ræða þá skal vélin sett saman eftir handbók vélarinnar en ætíð skal leitast eftir því að fá leiðbeiningar og sýnikennslu um samsetningu áður en tekið er á móti nýrri vél.

Það sem hafa ber sérstaklega í huga:

  • Alls ekki má trufla aðila sem er að stjórna samsetningunni, ef utanaðkomandi aðilar koma að og eru með spurningar eða annað þá skal þeim bent á að stíga til hliðar þar til samsetningu er lokið. Aðilar í samsetningu skulu ekki láta síma ónáða sig.
  • Eftir samsetningu skal prófa sérstaklega vel að allir stýrifletir virki sem skildi (positive control check)

 

Verklag um kúplun tíðna

Flug
Nr. máls: 23-028F007
Staða máls: Opin
30.12.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Isavia Innanlandsflugvalla ehf að flugvallarþjónusta og flugumferðarstjórar á BIRK komi sér saman um ákveðið verklag eða aðstæður þar sem tenging (kúplun) tíðna bætir öryggi á flugvellinum og það verklag verði fest í sessi.

Afgreiðsla

Verklag um flugvél tekin úr skipulögðu viðhaldi

Flug
Nr. máls: 18-150F030
Staða máls: Lokuð
12.12.2019

Tillaga í öryggisátt

Að Air Iceland Connect setji upp formlegt verklag til þess að tryggja að flugumsjón geti ekki einhliða tekið flugvél úr skipulögðu og/eða bókuðu viðhaldi, án samráðs og samþykkis viðhaldsdeildar.

Afgreiðsla

The following text is currently in Air Iceland Connect OM-A 1.3.3.6 (9); „Co-ordinate airplane assignment to scheduled flight operations and charter flights with Marketing Division and Technical Operations“. After discussion with relevant personnel it clear that changes to scheduled maintenance are not done without consultation with the Technical department.

To prevent any misunderstanding and to document current practice the following text has been added to OM-A 1.3.3.6 (9) in revision 31.

Changes to planned scheduled maintenance slot in RM / Movement Control shall only be done after consultation and acceptance by the Technical Department.

Verklag um fjarskipti

Flug
Nr. máls: M-00713/AIG-06
Staða máls: Lokuð
20.04.2015

Tillaga í öryggisátt

RNSA leggur til að Samgöngustofa setji verklag fyrir fjarskipti við flugvelli sem ekki njóta flugumferðarþjónustu og kynni það.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur í samráði við Isavia lagfært orðalagið í AIP GEN 3.4.4.11 þar sem upplýsingar um leiðbeinandi verklag um Fjarskipti í sjónflugi innanlands eru birtar. Breytingarnar á AIP tóku gildi 28. apríl 2016.