Rannsóknarnefnd samgönguslysa stofnuð 1. júní 2013
Þann 21. febrúar 2013 voru samþykkt lög nr. 18/2013 á Alþingi, um rannsókn samgönguslysa. Með lögunum er starfsemi Rannsóknarnefndar flugslysa, Rannsóknarnefndar sjóslysa og Rannsóknarnefndar umferðarslysa sameinuð í eina rannsóknarnefnd. Þá voru nefndirnar þrjár sameinaðar í eina sjö manna rannsóknarnefnd samgönguslysa sem heyrir undir innanríkisráðherra ásamt 6 varamönnum. Lögin tóku gildi þann 1. júní 2013.
RNSA er stofnun sem heyrir stjórnsýslulega undir Innviðaráðherra. Hún starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hjá RNSA starfa 7 manns, þ.e. 6 rannsakendur og 1 móttökuritari. Þá skipar ráðherra 6 nenfndarmenn, sex varamenn og formann nefndarinnar.
Í lögunum er meðal annars að finna þrjá mismunandi kafla um rannsókn flugslysa, sjóslysa og umferðaslysa (ásamt alvarlegum atvikum). Rannsóknum er þannig skipt í einstaka flokka sbr. 4.gr. laganna.
Markmið laganna er að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Rannsókn samkvæmt lögunum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika, en ekki að skipta sök eða ábyrgð, með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa.