2019 Síða 4

Leita að ábendingar

Akstur á gangstéttum, hjóla- og göngustígum

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
22.06.2023

Hætta er á að þeir ökumenn sem heimilt er að aka á hjólastígum horfi ekki langt fram fyrir sig við aksturinn, enda mikilvægt að fylgjast vel með yfirborðinu sem hjólað er á. Þetta á sérstaklega við akstur á rafhlaupahjólum því hjólbarðar þeirra eru litlir og stöðugleiki hjólanna minni en reið- og bifhjóla. Einnig er mikilvægt að ökumenn átti sig á mikilvægi þess að fara hægar þegar myrkur er og fari nægilega hægt til að möguleiki sé á að fylgjast með svæði framundan sem er lengra frá en 10 metrar. Í aðstæðum þar sem birta er lítil sjást aðrir vegfarendur og aðskotahlutir á stíg síður og mikilvægt er að hafa tíma til þess að bregðast við óvæntri hættu. Ljósabúnaður vegfarenda er einnig misjafn. Sumir notast við ljós sem lýsa skært og geta blindað þá sem á móti koma. Aukinn hraði eykur líkur á alvarlegum áverkum ef slys verða.

Tengill á skýrslu

Mikilvægi góðs ljósabúnaðar á hjólum almennt, öryggi og sýnileiki

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
22.06.2023

Hjólandi vegfarandi þarf að vera vel sýnilegur. Mikilvægt er að vera með viðurkennd og góð ljós, hvítt að framan og rautt að aftan. Skylt er að vera með ljós þegar skyggja tekur og gæta þarf þess að þau séu rétt stillt. Endurskin á að vera á hjólinu, bæði að framan og aftan, á fótstigum og í teinum þegar það á við. Einnig skal hjólreiðamaður vera með bjöllu svo hægt sé að vara aðra vegfarendur við. Endurskinsvesti eða föt í áberandi litum auka sýnileika. Bremsur á hjólum eru mjög mikilvægar og ber að athuga ástand þeirra reglulega. Jafnframt dekk, drif og annan búnað og vera þess fullviss að hann sé í lagi.

Tengill á skýrslu

Áhrif birtu og myrkurs á augu

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
22.06.2023

Þegar ökutæki mætast, í myrkri og lítið upplýstu umhverfi, er sennilegt að framljós ökutækja geti lýst í stuttan tíma, skyndilega og bjart, í augu ökumanna þegar þeir mætast. Augun þurfa tíma til þess að aðlagast þegar birta breytist skyndilega. Hæfni augna til aðlögunar að myrkri versnar með aldrinum, aðlögunartími eykst um tæpar þrjár mínútur með hverjum áratug frá tvítugsaldri. Erfiðara verður því að sjá í lítilli birtu eftir því sem aldurinn færist yfir. Akstur er í meginatriðum sjónrænt verkefni og rannsóknir benda til þess að orsakir umferðarslysa við akstur í myrkri verði hlutfallslega oftar raktar til neikvæðrar breytingar á sjónrænni frammistöðu en við akstur í birtu.

Tengill á skýrslu

Slysahætta og öryggisbúnaður við akstur rafhlaupahjóla

Umferð
Nr. máls: 2021-115U015
22.06.2023

Öryggisbúnaði notenda rafhlaupahjóla er í flestum tilfellum áfátt en lokaður hjálmur, úlnliðs-, hné- og olnbogahlífar sem og brynja eru búnaður sem sennilega draga úr meiðslum ef óhapp verður. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 með síðari breytingum skal barn yngra en 16 ára nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar. Í áðurnefndri rannsókn bráðamóttökunnar á afleiðingum slysa sem tengdust rafhlaupahjólum á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2020 notuðu 79% barna hjálm og 17% fullorðinna einstaklinga. Í lögum er gert ráð fyrir að mestur hraði rafhlaupahjóla sé 25 km/klst en reynslan sýnir að auðvelt er fyrir eigendur slíkra hjóla að breyta hámarkshraða þeirra, sumum í allt að 70 km/klst.

Tengill á skýrslu

Yfirfara þrýstigeyma

Umferð
Nr. máls: 2023-018U004
13.04.2023

Yfirfara þrýstigeyma

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til eigenda og notenda bifreiða sem búnar eru metan eldsneytiskerfi að láta yfirfara þrýstigeyma og skipta þeim út ef tæring er farin að myndast á þeim.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Skylda atvinnurekenda, öryggi á vinnustöðum

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
20.03.2023

Suðurlandsvegur austan Brunnár

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er öflugt verkfæri til þess að auka öryggi á vinnustöðum. Mikilvægt er fyrir öll fyrirtæki að yfirfara öryggismál með markvissum hætti og gera áhættumat. Öllum atvinnurekendum ber skylda að sjá til þess að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, án tillits til stærðar vinnustaðarins. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má finna upplýsingar um hvernig hægt er að bera sig að við slíka vinnu. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur alla atvinnurekendur til þess að vinna öryggis- og heilbrigðisáætlun og yfirfara öryggismál sín reglulega.

Tengill á skýrslu

Akstur í miklum vindi

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
20.03.2023

Suðurlandsvegur austan Brunnár

Stór ökutæki taka á sig mikinn vind og ber að gæta sérstakrar varfærni þegar ekið er í miklum vindi. Hætta er á að miklir vindstrengir og/eða vindhviður valdi því að ökutæki skríði til eða fjúki upp á hlið og velti. Veðurspáin sem gefin var út morguninn 3. febrúar 2022 greindi frá að á Suðausturlandi mætti gera ráð fyrir vaxandi norðvestanátt, 18–25 m/s austan til seint um kvöldið. Samgöngustofa, VÍS, Sjóvá og Vegagerðin, hafa með aðstoð sérfræðinga, útbúið varúðarviðmið vegna vinds fyrir stór ökutæki (sjá mynd 5). Í þeim varúðarviðmiðum kemur fram að hætt er við að léttir flutningabílar með engan, lítinn eða léttan farm fjúki út af í slíkum veðuraðstæðum. Í þessu slysi var ekið með stóran festivagn og farmurinn var léttur, einungis 800 kg.

Veðurfar á Íslandi er afar breytilegt og hefur t.d. landslag mikil áhrif á veður, einkum vind. Því getur verið talsverður munur á veðri frá einum stað til annars jafnvel þó að fjarlægð þar á milli sé ekki mikil. Við veðrabreytingar getur verið vandasamt að átta sig á hvernig veðrið verður á fyrirhugaðri akstursleið. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar skoðaðar eru mælingar á veðri að þær gefa upp veður á og við mælistað og geta verið allt að klukkustunda gamlar. Ávallt skal skoða veðurspá fyrir akstursleiðina til þess að gera sér grein fyrir við hverju má búast og hvort líkur séu á að veðrið sé að skána eða versna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar veðurviðvaranir hafa verið gefnar út. Þá þarf einnig að kynna sér veðurviðvörunina og hvað felst í henni.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað 12 banaslys í umferðinni frá árinu 1998 þar sem vindhviða var talin orsakaþáttur. Ökumenn geta dregið úr hættu á því að ökutæki þeirra fjúki til í hvassviðri með því að kynna sér veðuraðstæður og haga akstri eftir þeim. Veggrip skiptir miklu máli þegar vindasamt er og eitt besta ráðið til þess að varna því að missa stjórn á ökutæki í hvassviðri er að aka hægt. Stöðugleiki ökutækja eykst þegar dregið er úr ökuhraða og auðveldara er fyrir ökumenn að bregðast við hviðum. Færð, vindhraði, hviður og vindátt eru áhættuþættir en einnig stærð, lögun og þyngd ökutækja. Létt ökutæki með háan þyngdarpunkt þola minni vindstyrk en þung ökutæki með lægri þyngdarpunkt. Á vef Veðurstofu Íslands er að finna veðurviðvaranir, veðurspár og veðurathuganir og á vef Vegagerðarinnar upplýsingar um veður og færð. Rannsóknarnefndin hvetur ökumenn til að kynna sér vel veðurspá og veðuraðstæður og sérstaklega veðurviðvaranir séu þær fyrir hendi. 

Ætíð skal skoða vel veðurspá áður en lagt er af stað. Ef líkur eru á miklum vindi er mikilvægt að:

  • Kanna færð því meiri hætta er á að missa stjórn á ökutæki í vindi þegar bleyta eða hálka er á veginum vegna þess að hjólbarðarnir þurfa að halda á móti miklum hliðarkrafti sem getur myndast vegna vinds.
  • Velja aðra leið ef hægt er eða breyta ferðaáætlun til að forðast að aka í miklum vindi.
  • Aka hægar en ella því eftir því sem ekið er hraðar geta áhrif vindsins aukist og þegar vindhviða skellur á ökutæki þarf ökumaðurinn oft að leiðrétta stefnu þess. Eftir því sem hraðar er ekið er minni tími til viðbragða og meiri líkur á að missa stjórn.
  • Vera viðbúin því að geta brugðist hratt við hættum.

Tengill á skýrslu

Notkun öryggisbelta (1)

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
20.03.2023

Suðurlandsvegur austan Brunnár

Farþeginn sem lést var ekki spenntur í öryggisbelti og sat ekki í farþegasæti vörubifreiðarinnar. Nefndin telur mögulegt að farþeginn hefði lifað slysið af hefði hann setið í farþegasæti og verið spenntur í öryggisbelti. Farþegum er ætlað að sitja í farþegasætum, en ekki í hvíldarrými vörubifreiða. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri vegalengdir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa í umferðinni. 

Tengill á skýrslu

Hálka og flughálka

Umferð
Nr. máls: 2021-110U013
16.02.2023

Hvalfjarðarvegur

Hálka getur myndast á vegi á nokkra mismunandi máta. Daginn sem þetta slys varð hafði verið frost um morguninn en hiti hækkaði þegar líða tók á daginn. Staðbundið skjól er á þeim stað sem slysið varð og líkur á að enn hafi verið frostpollur yfir veginum þegar fór að rigna. Ef rigning eða súld fellur niður í kalt loft geta droparnir haldist fljótandi þar til þeir lenda en frjósa þá samstundis. Sömuleiðis getur rigning og súld frosið við snertingu við frosið yfirborð. Í báðum tilvikum getur myndast mikil hálka á vegyfirborði vegna íslags sem oft líkist blautum vegi og því erfitt fyrir ökumenn að átta sig á aðstæðum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til þess að vera vakandi fyrir hálku og við hvaða aðstæður hún myndast helst. Hægt er að lesa sér til um hálku á heimasíðu Samgöngustofu[1] og horfa á myndband um ísingu og hálku[2].

[1] https://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/bifreidar-og-almenn-fraedsla/ising-og-halka

[2] https://youtu.be/E6BS9tYWRa4

 

Skýrsla

Notkun öryggisbelta

Umferð
Nr. máls: 2021-110U013
16.02.2023

Hvalfjarðarvegur

Hvorki farþeginn sem lést í slysinu né ökumaðurinn voru spenntir í öryggisbelti. Köstuðust þeir báðir út úr bifreiðinni í veltunni. RNSA telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein af helstu orsökum alvarlegra áverka og banaslysa í umferðinni.