Leita að ábendingar
Skyldur vegfarenda við umferðarslys
Þjóðvegur 1 austan við Silfrastaði
Þegar alvarleg slys eiga sér stað eru almennir vegfarendur oft fyrstir til aðstoðar og aðhlynningar á vettvangi. Almenn kunnátta í skyndihjálp getur þá reynst dýrmæt, meðan beðið er eftir lögreglu, sjúkraflutningamönnum og læknum. Fjölmörg dæmi eru um að aðhlynning vegfarenda fyrstu mínútur eftir slys, hafi skipt sköpum.
Í slysinu sem hér er fjallað um skýrir farþegi frá því að hann hafi staðið við veginn og gefið merki um aðstoð en nokkrir vegfarendur hafi ekið framhjá slysstað án þess að stöðva og bjóða fram aðstoð. Er það mjög alvarlegt að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa ef almenningur sýnir ekki vilja til aðstoðar í neyðartilfellum.
Í 13. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðar breytingum, segir að vegfarendur skuli nema staðar hvort sem þeir eiga sök á slysum eða ekki, og bjóða fram hverja þá hjálp sem unnt er. Hér er um að ræða mjög mikilvægt öryggisatriði sem allir vegfarendur verða að sinna.