Akstur í miklum vindi
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað 11 banaslys í umferðinni frá árinu 1998 þar sem vindhviða er talin orsakaþáttur. Ökumenn geta dregið úr hættu á því að ökutæki þeirra fjúki til í hvassviðri með því að kynna sér veðuraðstæður og haga akstri eftir þeim. Veggrip skiptir miklu máli þegar vindasamt er og eitt besta ráðið til þess að varna því að missa stjórn á ökutæki í hvassviðri er að draga úr ökuhraða. Stöðugleiki ökutækja eykst þegar dregið er úr ökuhraða og auðveldara er fyrir ökumenn að bregðast við hviðum. Færð, vindhraði, hviður og vindátt á veg skipta miklu máli en einnig stærð, lögun og þyngd ökutækjanna. Létt ökutæki með háan þyngdarpunkt þola minni vindstyrk en þung ökutæki með lægri þyngdarpunkt. Á vef Vegagerðarinnar og á vefnum www.safetravel.is er að finna rauntímaupplýsingar um veður, færð og vindhraða á völdum stöðum og hvetur rannsóknarnefndin ökumenn til að kynna sér þær sem og veðurspár.