Endurskinsmerki, ljós eða fatnaður
Endurskinsmerki og sýnileikafatnaður eru lykilatriði þegar dimmt er og lítið skyggni. Á þeim stað er slysið varð er vegurinn óupplýstur þjóðvegur í dreifbýli og gekk maðurinn sem lést í slysinu dökklæddur á veginum með bakið í aksturstefnu akreinarinnar og án endurskinsmerkja.
Í 1. mgr. 15. gr. umferðarlaga nr. 77 frá 2019 kemur fram að ef ekki er fyrir hendi sérstakur gangstígur eða vegöxl má ganga eftir akbraut en að jafnaði skal gengið við vinstri vegbrún miðað við gönguátt. Með því að ganga á móti umferðinni í vegkanti á gangandi vegfarandi auðveldara með að greina aðkomandi farartæki og þá lýsa á móti til að vekja á sér athygli.
Ökumaður á þjóðvegahraða ferðast um 25 metra á hverri sekúndu (90 km/klst). Líklegt er að ökumaður sé um 1-3 sekúndur að hefja hemlun eftir að óvænt hætta skapast og fer ökutækið því um 25-75 metra eftir að hættu verður vart þar til hemlun hefst. Rannsóknarnefnd samgönguslysa, RNSA, minnir á að gangandi vegfarendur ættu ávallt að bera skýr endurskinsmerki við göngu í myrkri, en þau auka sýnileika fyrir ökumönnum um marga tugi metra og gefa því ökumönnum meiri möguleika á því að bregðast við tímanlega. Ljósgeisli aðalljósa bifreiða og bifhjóla lýsir niður á veginn. Því er ráðlegt að vera einnig með endurskin við öklahæð eða neðst á kálfa því sú staðsetning kemur fyrr inn í ljósgeisla aðalljósa bifreiða en endurskin á efri hluta líkamans.