Viðborðssel 21.11.2019

Umferð
Nr. máls: 2019-166U020
18.11.2020

Aksturshraði, ökuljós og skyggni

Nauðsynlegt er að allir vegfarendur geri sér grein fyrir áhrifum myrkurs og bleytu á sýn ökumanna.  Rigning og myrkur skerða útsýn ökumanna. Bleyta á rúðum takmarkar útsýn, regndropar dreifa og endurkasta ljósi. Blautur vegur endurkastar minna ljósi en þurr vegur og verður dekkri í myrkri, endurskin frá vegmerkingum minnkar í bleytu, sérstaklega ef þær eru undir yfirborði vatns. Í vatnsaustri setjast einnig óhreinindi á ljós bifreiða og draga úr birtu frá þeim. 

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja segir að há ljós skuli lýsa a.m.k. 100 m fram á veginn og lág ljós skuli lýsa a.m.k. 40 m fram á veginn.  Viðmiðunar stöðvunarvegalengd við veghönnun skv. Veghönnunarreglum Vegagerðarinnar er u.þ.b. 150 m fyrir 90 km/klst hraða[1]. Þegar lág ljós eru notuð í myrkri og rigningu ná þau ekki að lýsa upp nauðsynlega stöðvunarvegalengd fyrir 90 km/klst. Við sambærilegar aðstæður og voru í þessu slysi er nauðsynlegt fyrir ökumenn að draga úr aksturshraða, jafnvel þó hái geislinn sé notaður.

RNSA brýnir fyrir ökumönnum að nauðsynlegt er að draga úr aksturshraða í dimmu veðri og enn frekar þegar vegur er einnig blautur, til þess að tryggja nægilega sjónvegalengd þannig að ökumaður hafi möguleika á að bregðast við og stöðva ökutæki ef hætta skapast.

 

[1] Tafla 3.6.2-2, stöðvunarvegalengd í dreifbýli. Veghönnunarreglur Vegagerðarinnar, kafli 3, vegferill.

Skýrsla