Hjólbarðar

Umferð
Nr. máls: 2020-072U009
05.05.2021

Hjólbarðar bifhjóla

Rannsókn málsins leiddi í ljós að hjólbarðar tveggja bifhjóla í slysinu voru orðnir slitnir. Mynstursdýpt framhjólbarða annars hjólsins og afturhjólbarða hins var við lágmark þess sem krafist er í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 með síðari breytingum. Hjólbarðar gegna mikilvægu hlutverki og þurfa að uppfylla kröfur, sem kveðið er á um í lögum og reglum, sem og fylgja þarf leiðbeiningum framleiðenda. Gæði hjólbarða og ástand skipta miklu máli um aksturseiginleika ökutækja. Kraftar myndast á snertifleti hjólbarða við veg þegar hraði er aukinn, þegar hemlað er og þegar ökutækjum er ekið í beygjum. Þessa krafta þarf vegviðnámið að yfirvinna. Lélegir hjólbarðar geta valdið því að ökutæki verður óstöðugt á vegi og auknar líkur verða á að ökumaður missi stjórn á því þegar vegviðnámið er takmarkað. Grip hjólbarða minnkar eftir því sem slit hjólbarðanna er meira. Minna grip hjólbarða leiðir af sér lengri hemlunarvegalengd og eykur líkur á að ökumaður missi stjórn. Rannsóknarnefndin bendir eigendum bifhjóla á að fylgjast vel með ástandi hjólbarða og skipta þeim út þegar þeir eru orðnir slitnir. 

Tengill á skýrslu Skýrsla