Reiðhjólahjálmar
Í þessu slysi hlaut hjólreiðamaður banvæna höfuðáverka. Hann var ekki með hjálm. Erlendar rannsóknir sýna að mikill meirihluti banaslysa hjólreiðamanna eru af völdum höfuðáverka[1]. Reiðhjólahjálmar veita vernd gegn höfuðáverkum og hvetur Rannsóknarnefnd samgönguslysa reiðhjólamenn til að nota ávallt viðurkenndan reiðhjólahjálm við hjólreiðar. Í nýlegri viðamikilli samanburðarrannsókn á niðurstöðum fjölda rannsókna frá mörgum löndum á áhrifum hjálma á höfuðmeiðsli í reiðhjólaslysum kom í ljós, að hlutfall þeirra sem urðu fyrir höfuðmeiðslum var að meðaltali helmingi minna meðal þeirra sem voru með hjálm, en hjá þeim sem voru án hjálms[2]. Öryggisáhrif hjálma mælast meiri gagnvart alvarlegum höfuðmeiðslum. Hlutfall þeirra sem hlutu alvarleg höfuðmeiðsl, þ.m.t. banaslys, var að meðaltali 69% lægra meðal þeirra sem voru með hjálm en þeirra sem ekki voru með hjálm.
[1] Nicaj L, Mandel-Ricci J, Assefa S, Grasso K, McCarthy P, Caffarelli A, McKelvey W, Stayton C, Thorpe L, „Bicyclist Fatalities and Injuries in New York City: 1996-2005“: A Joint Report from the New York City Departments of Health and Mental Hygiene, Parks and Recreation, Transportation, and the New York City Police Department, 2006.
[2] Olivier, Creighton, 2017: „Bicycle injuries and helmet use: a systematic review and meta-analysis.“ International Journal of Epidemiology, Volume 46, Issue 1. Oxford University Press.