2022 Síða 12

Leita að ábendingar

Of hraður akstur

Umferð
Nr. máls: 2013-U008
23.01.2015

Faxabraut Akranesi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (áður Rannsóknarnefnd umferðarslysa) hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur hefur verið ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki eigi hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa.  

Skýrsla

Þjálfun ökumanna bifhjóla

Umferð
Nr. máls: 2013-U008
23.01.2015

Faxabraut Akranesi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess fyrir ökumenn bifhjóla að þjálfa sig reglulega í viðbrögðum við hættulegum aðstæðum. Mikil hætta skapast ef ökumaður bifhjóls hemlar þannig að hjól læsast, þegar hjólin hætta að snúast missir ökumaður jafnvægið og hjólið fellur yfirleitt fljótlega á hliðina. Eins er mikilvægt fyrir ökumenn þessara ökutækja að þjálfa vel notkun á framhemlum. Mun meiri hemlun næst með því að nota framhemilinn, en líkur eru á að ökumaðurinn í þessu slysi hafi ekki beitt framhemli. Þess ber þó að geta að mun hættulegra er að læsa framhjólbarða en þeim aftari, en regluleg þjálfun í að beita báðum hemlum gerir ökumenn færari í að hemla örugglega án þess að hjólin læsist. 

Skýrsla

Notkun endurskinsmerkja og aðgæsla

Umferð
Nr. máls: 2013-U019
16.12.2014

Reykjanesbraut við Stekk

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að afturför hafi orðið varðandi notkun endurskinsmerkja hér á landi og telur mikilvægt að áróður fyrir notkun endurskinsmerkja og endurskins á fatnað, verði aukinn. Nefndin hefur rannsakað allmörg slys þar sem ekið var á gangandi vegfarendur í myrkri sem voru án endurskinsmerkja eða með lélegt endurskin (sjá skýrslur: Suðurlandsvegur við Laugardæli 5.janúar 2009; Alvarleg umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu 2009) Ökumenn sjá gangandi vegfarendur í dökkum fatnaði seint og illa þegar skyggni er slæmt og eru því seinni en ella að bregðast við. Beinir rannsóknarnefndin því til Samgöngustofu að auka áróður um notkun endurskinsmerkja og fá stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í lið með sér og ná á öflugan átt til þeirra hópa vegfarenda sem eru á ferðinni fótgangandi. Jafnvel mætti að mati rannsóknarnefndarinnar, huga að því við endurskoðun umferðarlaga að um þetta verði settar leiðbeinandi reglur, sbr., leiðbeinandi reglur um notkun hlífðarhjálma sem í gildi eru.

Skýrsla

Ölvunarakstur

Umferð
Nr. máls: 2013-U006
10.10.2014

Akrafjallsvegur

Undanfarin ár hefur ölvunarakstur verið ein helsta orsök banaslysa í umferðinni. Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um ölvunarakstur.Ökumenn sem setjast ölvaðir undir stýri skapa öðrum og sjálfum sér  mikla hættu. Akstur eftir áfengisdrykkju og vökur eykur líkur á slysum, afleiðingar þeirra verða oft mjög alvarlegar og brýnt að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu.Áfengi hefur slævandi áhrif á dómgreind þeirra sem neyta þess. Áfengismagn í blóði þarf ekki að verða mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun er  meiri skerðist viðbragðstími, hreyfistjórnun og rökvísi sem endar með meðvitundarleysi. Hér eru einungis talin upp nokkur atriði af mörgum áhrifum áfengis á ölvaðan einstakling[1].

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis.

[1] WHO, 2007. „Drinking and driving. A road safety manual for decision makers and practitioners“. ISBN 978-2-940395-00-2. Genf, Sviss.

Skýrsla

Vegna ölvunaraksturs og bílbeltaleysis

Umferð
Nr. máls: 2013-U018
14.07.2014

Norðausturvegur við Kvistás

Undanfarin ár hefur akstur undir áhrifum vímuefna verið ein helsta orsök banaslysa í umferðinni ásamt því að bílbelti er ekki notað. Ökumenn, sem setjast ölvaðir undir stýri, skapa öðrum og sjálfum sér mikla hættu. Mörg dæmi eru um slys af þessum toga þar sem akstur eftir áfengisdrykkju endar með umferðarslysi og brýnt er að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu. Þá notaði ökumaður í slysinu sem hér um ræðir ekki bílbelti og kastaðist út úr bifreiðinni. Telur nefndin sennilegt að ökumaður hefði lifað slysið af hefði hann notað bílbelti. 

Skýrsla

Hraðakstur og bílbeltanotkun

Umferð
Nr. máls: 2013-U012
07.07.2014

Suðurlandsvegur við Meðallandsveg

Hraðakstur og vanhöld á bílbeltanotkun eru tvær algengustu orsakir banaslysa í umferðinni og koma einnig við sögu í þessu slysi. Stúlkurnar sem létust í slysinu köstuðust út úr bifreiðinni þegar hún valt. Þær notuðu ekki bílbelti. Rannsóknarnefndin ítrekar fyrri ábendingar um að ökumenn og farþegar noti alltaf bílbelti, hvort sem setið er í fram- eða aftursæti.

Skýrsla

Merkinga þörf til varnaðar gegn hraðakstri

Umferð
Nr. máls: 2013-U012
07.07.2014

Suðurlandsvegur við Meðallandsveg

Í framburðarskýrslum ökumanna kemur fram að þeir óku Suðurlandsveg áleiðis að Jökulsárlóni á 100-120 km/klst. hraða. Þar sem slysið varð í Eldhrauni er Suðurlandsvegur mjór, slitlagið brotið í köntum, lausamöl utan við malbikið og gróft hraun í nánasta umhverfi vegarins. Vegurinn er ekki hannaður fyrir þennan mikla hraða og umhverfi hans slíkt að mikil hætta er á að ökutæki velti og aflagist illa við útafakstur.

Að mati rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að ráðist verði í aðgerðir til að draga úr hraðakstri á Suðurlandsvegi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Leggur nefndin til að eftirlit verði aukið og skoðað hvort hraðamyndavélar séu heppilegur kostur á þessum stað. Þá leggur nefndin til við Vegagerðina að skoða merkingar á veginum með það í huga hvort bæta megi úr, t.d. með fleiri merkjum um hámarkshraða eða leiðbeinandi merkjum um ástand vegar og umhverfis. Mikilvægt er að hafa í huga að mikil umferð ferðamanna er um veginn og eru margir þeirra óvanir íslenskum aðstæðum utan þéttbýlis.

Skýrsla

Viðbrögð ökumanns þegar annað hjólið fer út fyrir bundið slitlag

Umferð
Nr. máls: 2013-U012
07.07.2014

Suðurlandsvegur við Meðallandsveg

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur áður rannsakað alvarleg umferðarslys þar sem ökumaður missir annað hjólið út af bundnu slitlagi. Hætta er á að hann missi endanlega stjórn á bifreiðinni þegar sveigt er harkalega inn á veginn aftur eins og raunin varð í þessu slysi. Í slíkum tilfellum þarf ökumaður að meta hvort honum sé ekki betur borgið að stýra bifreiðinni beint út af veginum. 

Skýrsla

Börn og torfærutæki

Umferð
Nr. máls: 2013-U005
01.07.2014

Suðurbyggðarvegur við Skjöldólfsstaði

Samkvæmt 43. grein umferðarlaga (nr. 50/1987) er óheimilt að reiða farþega á torfærutæki á hjólum. Í slysinu við Skjöldólfsstaði er farþegi á hjólinu þriggja ára barn sem hvorki hefur líkamlegan þroska til að vera á ökutækinu, né vitsmunalegan þroska til að skynja hættu sem hraða þess getur fylgt. Það má ekki ætla barni að halda sér í á ferð, sem hvorki nær niður að fótstigum né góðri festu með höndum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa brýnir við forráðamenn barna að þeir hafi heilsu þeirra að leiðarljósi, sýni ábyrgð og fylgi reglum sem um þessi ökutæki gilda. 

Skýrsla

Áhrif hvassviðris á stöðugleika ökutækja - ferðaupplýsingar Vegagerðarinnar

Umferð
Nr. máls: 2013-U003
01.07.2014

Þjóðvegur 1 austan við Silfrastaði

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (áður Rannsóknarnefnd umferðarslysa) hefur rannsakað átta banaslys í umferðinni frá árinu 1998 þar sem vindhviða er talin orsakaþáttur. Í þessum átta slysum hafa 10 manns látist. Í skýrslu RNU um banaslys sem varð við Hof í Öræfasveit árið 2006 kom fram það mat nefndarinnar að auka þurfi fræðslu í ökunámi og í áróðri til almennings um áhrif færðar, vinds og vindhviða á stöðugleika ökutækja. Telur nefndin fulla ástæðu til að ítreka þá ábendingu.

Ökumenn geta dregið úr hættu á því að ökutæki þeirra fjúki til í hvassviðri með því að skoða veðuraðstæður og haga akstri eftir þeim. Færð á vegi skiptir miklu máli þegar vindasamt er og eitt besta ráðið til þess að varna því að missa stjórn á ökutæki í hvassviðri er að draga úr ökuhraða. Stöðugleiki ökutækja eykst þegar dregið er úr ökuhraða. Færð og vindátt skipta miklu máli en einnig stærð, lögun og þyngd ökutækjanna. Létt ökutæki með háan þyngdarpunkt þola minni vindstyrk en þung ökutæki með lægri þyngdarpunkt. Kassalaga ökutæki eins og sendibifreiðir og hjólhýsi taka á sig mun meiri vind en straumlínulagaðri ökutæki.

Á vef Vegagerðarinnar (vegagerdin.is) er að finna rauntímaupplýsingar um veður, færð og vindhraða á völdum stöðum og hvetur rannsóknarnefndin ökumenn til þess að kynna sér Vegasjá Vegagerðarinnar um þetta efni.

Skýrsla