Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að mikilvægt er að ökumenn hætti akstri ef þeir eiga við veikindi að stríða sem skerða ökuhæfni eða nota lyf sem skerða ökuhæfni. Veikindi og lyfjanotkun geta haft neikvæð áhrif á hæfni einstaklinga til að stjórna ökutæki örugglega. Sum lyfseðilsskyld lyf hafa slævandi áhrif sem gerir það varasamt að stjórna ökutæki. Mikilvægt er að læknar upplýsi sjúklinga sína um áhrif slævandi og róandi lyfja á viðbragðsflýti og einbeitingu. Jafnframt er mikilvægt að einstaklingar hafi sjálfir í huga þessar aukaverkanir lyfja og fylgi leiðbeiningum lækna og fylgiseðla af nákvæmni.
Í aðsendri grein í Læknablaðinu [1] um ökuhæfni sjúklinga kemur fram að erlendar rannsóknir hafa bent til þess, ef frá er talin misnotkun áfengis og lyfja, að sjúkdómar sem líklegastir eru til þess að valda aukinni hættu á slysum séu heilabilun og kæfisvefn. Til þess að fá einhverjar upplýsingar um umfang þessa vandamáls hér á landi lögðu höfundar greinarinnar spurningalista fyrir nokkra hópa af læknum Landspítala. Voru spurningarnar lagðar fyrir 42 lækna, á deildum sem eru líklegastir til að sinna þeim sem verða óökuhæfir af völdum sjúkdóma eða annarlegs ástands, og reyndust 27, eða 64% þeirra, hafa orðið varir við að sjúklingar hafi haldið áfram akstri gegn ráðleggingum læknis. Í 52 tilvikum vissu læknarnir til þess að sjúklingur hefði á síðasta ári valdið skaða eftir að hafa ekið bíl án þess að vera hæfur til þess. Algengast var að einstaklingar með flogaveiki og heilabilun höfðu ekki hlýtt fyrirmælum læknis um að hætta akstri, en meðal annarra þátta sem nefndir voru var misnotkun lyfja og áfengis, óskýrð yfirlið, sykursýki, kæfisvefn og sjónskerðing. Að mati höfunda staðfesti könnunin að hér hafi verið um raunverulegt vandamál að ræða í íslensku samfélagi. Óhæfir ökumenn eru í umferðinni og skapa sjálfum sér og öðrum vegfarendum raunverulega hættu.
Í varnaðarskýrslu sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa gaf út árið 2007 var bent á reglur sem unnar voru af kanadíska læknafélaginu en embætti Landlæknis birti þær til leiðbeiningar fyrir íslenska lækna á vefsíðu sinni. Þar er farið yfir helstu sjúkdóma sem geta dregið úr ökuhæfni, gefin upp viðmið til greininga á sjúkdómum auk leiðbeininga um hvenær nauðsynlegt er að afturkalla ökuréttindi sjúklinga. Það er ljóst að greiningartæki og viðmið skortir ekki en nokkuð vantar upp á framkvæmd þeirra á Íslandi.
[1] Hjalti Már Björnsson og Kristín Sigurðardóttir. Ökuhæfni sjúklinga, Læknablaðið, 11.tbl. 91. árg. 2005.