Skak í bifhjólum
Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma á framfæri við ökumenn bifhjóla að vera meðvitaðir um hvaða þættir geta valdið skaki eða hristingi í bifhjólum, sem einnig má lýsa sem sjálfsörvaðri sveiflu í hjólinu.
Mikilvægt er að kynna sér vel hjólin, viðhald þeirra og ástand. Samspil krafta og bifhjóls er flókið. Erfitt getur verið að meta nákvæmlega hvaða ástæður valda því að bifhjól fari að skakast eða hristast til. Þetta er þekkt fyrirbæri sem hefur m.a. verið lýst sem sjálfsörvaðri sveiflu. Slíkar sveiflur geta myndast þegar einn eða fleiri af eftirfarandi þáttum eru til staðar: hjólbarðar eru slitnir, misslitnir og/eða í þeim rangur loftþrýstingur, slit er í legum eins og stýris- eða hjólalegum, stilling og uppsetning á hjóli, hleðsla þess og festing farangurs er ójöfn, inngjöf og ójöfnur, hjólför og holur á vegi. Ef þetta gerist getur ökumaður þurft að breyta hraða eða færa þyngdarpunkt, með því að breyta ásetu, til þess að stöðva skjálftann. Þegar ekið er nálægt hámarkshraða er ekki raunhæf lausn að auka hraða enn frekar. Að ná að draga úr hraða ef hætta er á að missa stjórn á hjóli getur dregið úr alvarleika slysa.