2025 Síða 2

Leita að ábendingar

Skak í bifhjólum

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
24.08.2024

Skak í bifhjólum

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma á framfæri við ökumenn bifhjóla að vera meðvitaðir um hvaða þættir geta valdið skaki eða hristingi í bifhjólum, sem einnig má lýsa sem sjálfsörvaðri sveiflu í hjólinu.

Mikilvægt er að kynna sér vel hjólin, viðhald þeirra og ástand. Samspil krafta og bifhjóls er flókið. Erfitt getur verið að meta nákvæmlega hvaða ástæður valda því að bifhjól fari að skakast eða hristast til. Þetta er þekkt fyrirbæri sem hefur m.a. verið lýst sem sjálfsörvaðri sveiflu. Slíkar sveiflur geta myndast þegar einn eða fleiri af eftirfarandi þáttum eru til staðar: hjólbarðar eru slitnir, misslitnir og/eða í þeim rangur loftþrýstingur, slit er í legum eins og stýris- eða hjólalegum, stilling og uppsetning á hjóli, hleðsla þess og festing farangurs er ójöfn, inngjöf og ójöfnur, hjólför og holur á vegi. Ef þetta gerist getur ökumaður þurft að breyta hraða eða færa þyngdarpunkt, með því að breyta ásetu, til þess að stöðva skjálftann. Þegar ekið er nálægt hámarkshraða er ekki raunhæf lausn að auka hraða enn frekar. Að ná að draga úr hraða ef hætta er á að missa stjórn á hjóli getur dregið úr alvarleika slysa.

Tengill á skýrslu

Svefn og þreyta

Umferð
Nr. máls: 2023-047U009
27.06.2024

Ökumaður sem finnur fyrir áhrifum þreytu eða syfju á að taka sér hvíld eða hætta akstri. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni. Því er brýnt að ökumenn forðist að aka þreyttir. Margar rannsóknir hafa sýnt að þreyta skerðir aksturshæfni sem og að hætta er á að þreyttur ökumaður dotti eða jafnvel sofni undir stýri. Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.

Tengill á skýrslu

Farið af vettvangi eftir slys

Umferð
Nr. máls: 2022-109U021
23.05.2024

Skyldur ökumanna

Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur áherslu á mikilvægi og skyldu ökumanna og annarra vegfarenda að fara ekki af vettvangi slyss, heldur tilkynna án tafar um slysið, tryggja vettvang eins og hægt er og veita fyrstu hjálp. Án þess geta afleiðingar slysa orðið meiri.

Tengill á skýrslu

Aukahlutir í framrúðu

Umferð
Nr. máls: 2022-109U021
23.05.2024

Aukahlutir í framrúðu

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma þeirri ábendingu til eigenda og umráðamanna bifreiða að byrgja ekki sýn ökumanna með aukahlutum.

Tengill á skýrslu

Athygli við akstur og hraði

Umferð
Nr. máls: 2022-109U021
23.05.2024

Athygli við akstur og hraði

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir ökumönnum á mikilvægi þess að halda athygli á veginum sem framundan er og virða leyfðan hámarkshraða. Aukinn hraði styttir þann tíma sem ökumenn hafa til að bregðast við óvæntum atvikum.

Tengill á skýrslu

Notkun snjalltækja við akstur

Umferð
Nr. máls: 2023-046U008
13.05.2024

Notkun snjalltækja við akstur

RNSA brýnir fyrir ökumönnum að nota ekki snjalltæki, án handfrjáls búnaðar, meðan á akstri stendur.

Í 57. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, kemur fram að stjórnanda ökutækis sé við akstur óheimilt að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta aksturinn, án handfrjáls búnaðar. Ökumenn þurfa að vera búnir að stilla öll slík tæki áður en aksturinn hefst. Ef endurstilla þarf eitthvert af þessum tækjum, eins og leiðsögutæki, þarf ökumaður að stöðva á öruggum stað utan vegar og stilla tækið. Lögreglan hefur heimild til að sekta ökumenn sem nota slík raftæki við akstur.

 

Í niðurstöðum úr erlendri rannsókn[1] á notkun smáforrita í snjallsíma við akstur kom í ljós að notkun margvíslegra samfélagsmiðla, líkt og að horfa á myndbönd, getur haft þær afleiðingar að ökumaður víkur ómeðvitað af akrein sinni, gerir óviljandi akreinarbreytingar eða breytir hraða, hröðun og stefnu. Þessi rannsókn kemst að þeirri niðurstöðu að truflun af völdum snjallsímaforrita og samfélagsmiðlastarfsemi ásamt minni vitund og áhættuskynjun getur aukið árekstrarhættu verulega.

 

[1] Juana Perez, Kate Hyun and Jobaidul Alam Boni (2024), Use of smartphone apps while driving: Variations on driving performancers and perceived risks. Accident Analysis and Prevention, Vol. 198, 107474. https://doi.org/10.1016/j.aap.2024.107474.

Tengill á skýrslu

Of hraður akstur

Umferð
Nr. máls: 2023-046U008
13.05.2024

Of hraður akstur

RNSA hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur er algeng ástæða banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki ekki hraðar en leyfilegur hámarkshraði og miði aksturinn við aðstæður hverju sinni.

Tengill á skýrslu

Notkun öryggisbelta

Umferð
Nr. máls: 2023-046U008
13.05.2024

Notkun öryggisbelta

RNSA telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein af helstu orsökum alvarlegra áverka og banaslysa í umferðinni.

Tengill á skýrslu

Ökuhæfi og veikindi

Umferð
Nr. máls: 2023-019U005
16.04.2024

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að mikilvægt er að ökumenn hætti akstri ef þeir eiga við veikindi að stríða sem skerða ökuhæfni eða nota lyf sem skerða ökuhæfni. Veikindi og lyfjanotkun geta haft neikvæð áhrif á hæfni einstaklinga til að stjórna ökutæki örugglega. Sum lyfseðilsskyld lyf hafa slævandi áhrif sem gerir það varasamt að stjórna ökutæki. Mikilvægt er að læknar upplýsi sjúklinga sína um áhrif slævandi og róandi lyfja á viðbragðsflýti og einbeitingu. Jafnframt er mikilvægt að einstaklingar hafi sjálfir í huga þessar aukaverkanir lyfja og fylgi leiðbeiningum lækna og fylgiseðla af nákvæmni.

Í aðsendri grein í Læknablaðinu [1] um ökuhæfni sjúklinga kemur fram að erlendar rannsóknir hafa bent til þess, ef frá er talin misnotkun áfengis og lyfja, að sjúkdómar sem líklegastir eru til þess að valda aukinni hættu á slysum séu heilabilun og kæfisvefn. Til þess að fá einhverjar upplýsingar um umfang þessa vandamáls hér á landi lögðu höfundar greinarinnar spurningalista fyrir nokkra hópa af læknum Landspítala. Voru spurningarnar lagðar fyrir 42 lækna, á deildum sem eru líklegastir til að sinna þeim sem verða óökuhæfir af völdum sjúkdóma eða annarlegs ástands, og reyndust 27, eða 64% þeirra, hafa orðið varir við að sjúklingar hafi haldið áfram akstri gegn ráðleggingum læknis. Í 52 tilvikum vissu læknarnir til þess að sjúklingur hefði á síðasta ári valdið skaða eftir að hafa ekið bíl án þess að vera hæfur til þess. Algengast var að einstaklingar með flogaveiki og heilabilun höfðu ekki hlýtt fyrirmælum læknis um að hætta akstri, en meðal annarra þátta sem nefndir voru var misnotkun lyfja og áfengis, óskýrð yfirlið, sykursýki, kæfisvefn og sjónskerðing. Að mati höfunda staðfesti könnunin að hér hafi verið um raunverulegt vandamál að ræða í íslensku samfélagi. Óhæfir ökumenn eru í umferðinni og skapa sjálfum sér og öðrum vegfarendum raunverulega hættu.

Í varnaðarskýrslu sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa gaf út árið 2007 var bent á reglur sem unnar voru af kanadíska læknafélaginu en embætti Landlæknis birti þær til leiðbeiningar fyrir íslenska lækna á vefsíðu sinni. Þar er farið yfir helstu sjúkdóma sem geta dregið úr ökuhæfni, gefin upp viðmið til greininga á sjúkdómum auk leiðbeininga um hvenær nauðsynlegt er að afturkalla ökuréttindi sjúklinga. Það er ljóst að greiningartæki og viðmið skortir ekki en nokkuð vantar upp á framkvæmd þeirra á Íslandi.

 

[1] Hjalti Már Björnsson og Kristín Sigurðardóttir. Ökuhæfni sjúklinga, Læknablaðið, 11.tbl. 91. árg. 2005.

Tengill á skýrslu

Blind svæði ökumanna

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
12.04.2024

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma þeirri ábendingu til ökumanna hversu mikilvægt það er að vera meðvitaðir um möguleg blind svæði umhverfis þau ökutæki sem þeir stjórna hverju sinni og nauðsyn þess að sjá inn á slík svæði. Slík svæði, þar sem ökumenn sjá ekki til, eru mismunandi eftir gerð og stærð ökutækja og til dæmis eru svæðin stærri umhverfis löng ökutæki en umhverfis fólksbíla eða minni sendibíla. Einnig getur hönnun og staðsetning A-pósta bifreiða, eins og fram kemur í þessari skýrslu, haft áhrif á stærð blinda svæðis ökumanna.

Tengill á skýrslu