2025 Síða 12

Leita að ábendingar

Stöðugleikabúnaður

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
01.09.2016

Útnesvegur Hellissandur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar tillögu sem birtist í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi í Eldhrauni 23. apríl 2012 um stöðugleikabúnað. Allmargar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi slíks búnaðar sem benda til að öryggisávinningur hans sé verulegur. Stöðugleikabúnaður vinnur þannig að þegar bifreið fer að skríða til á vegi þá grípur hann sjálfvirkt inn í með því að hemla á því hjóli/hjólum sem geta afstýrt því að ökutækið haldi áfram að skrika til og verði stjórnlaust. Búnaðurinn vinnur án þess að ökumaðurinn þurfi að bregðast sérstaklega við og benda rannsóknir til að hann minnki umtalsvert líkurnar á að ökumaðurinn missi stjórn á bifreiðinni og að banaslysum vegna útafaksturs og veltna megi fækka um 30 til 64% með stöðugleikabúnaði[1].

 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur bílaleigur og aðra kaupendur nýrra bifreiða til að velja þennan búnað við kaup á bifreiðum.

 

[1] Erke, A. (2008). „Effects of electronic stability control (ESC) on accidents: A review of empirical evidence.“ Accident Analysis and Prevention, vol. 40, nr. 1, bls 197 – 173.

Ferguson, S.A. (2007). „The effectiveness of Electronic Stability Control in reducing real-world crashes: A litterature review.“ Traffic Injury Prevention, vol. 8, nr. 4, bls. 329 – 338.

Skýrsla

Reynsluleysi og röng viðbrögð

Umferð
Nr. máls: 2015-040-U-008
01.09.2016

Útnesvegur Hellissandur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa  rannsakar reglulega alvarleg umferðarslys þar sem ökumaður bregst ranglega við þegar hann missir hjólin út af slitlagi. Hætta er á að hann missi endanlega stjórn á bifreiðinni þegar sveigt er inn á veginn aftur eins og raunin varð í þessu slysi. Mikilvægt er að bregðast rólega við og sveigja hægt inn á veginn aftur sé það hægt. Hættulegt getur verið að beita hemlum og stundum getur verið betri kostur að stýra bifreiðinni út af veginum og eftir fremsta megni komast hjá því að bifreiðin velti.

Skýrsla

Framúrakstur

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
16.02.2016

Hafnarvegur við Stekkakeldu

Ef slys verður við framúrakstur á þjóðvegahraða þá eru miklar líkur á að afleiðingarnar verði alvarlegar. Reglulega verða slys við framúrakstur og hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakað nokkur þeirra. Nefndin bendir á, að mikilvægt er að hafa fulla aðgát við framúrakstur og nauðsynlegt er að velja stað og stund þannig að unnt sé án hættu að taka framúr öðru ökutæki.

Skýrsla

Aðgæsla við framúrakstur

Umferð
Nr. máls: 2014-U005
20.08.2015

Ólafsfjarðavegur við Hámundastaðaháls

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur brýnt að ökumenn sýni fyllstu aðgæslu við framúrakstur. Í Umferðarlögum (nr.50/1987) er kveðið á um að ökumaður, sem ætlar fram úr ökutæki skuli ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu og að akrein sú sem nota á til framúraksturs sé án umferðar á móti á nægilega löngum kafla og að ekki sé annað er hindri framúraksturinn. Þá er óheimilt að hefja framúrakstur þegar vegsýn er skert vegna hæðar eða beygju á vegi. Í þessu slysi var snjókóf, lítið skyggni og aðstæður til framúraksturs ekki góðar. Í skýrslu um banaslys á Suðurlandsvegi við Sandskeið frá árinu 2006 benti nefndin á mikilvægi þessi að ökumenn gæti að sér við framúrakstur og þann háska sem af getur hlotist fyrir aðra vegfarendur.

Skýrsla

Akstur við vetraraðstæður

Umferð
Nr. máls: 2014-U001
10.07.2015

Vesturlandsvegur við Fornahvamm

Varasamar aðstæður geta skapast á vegum landsins að vetrarlagi. Hálka og snjór á veginum minnka veggrip og snjór getur skafið í skafla inn á veginn og skapað mikla hættu, sérstaklega fyrir lítil ökutæki. Þegar ekið er inn í skafl getur ökutæki farið að snúast og ökumaður misst stjórn á því með ófyrirséðum afleiðingum. Eins geta vindhviður valdið sömu áhrifum, sérstaklega ef veggrip er takmarkað. Erfitt getur verið að greina skafla sem skafið hafa inn á veg og því afar mikilvægt að vera vel vakandi fyrir þessum hættum. Skaflar geta myndast út frá ýmsum þáttum í umhverfinu eins og í brekkum,við hæðir, hóla og vegrið. Vel þekkt er að skafið getur í skafla við vegrið eins og raunin varð á þessum stað. Þá eru þeir oft þykkastir út við kannt. Ökumenn þurfa að gæta sérstakrar varúðar og draga úr aksturshraða þar sem aðstæður eru þröngar og lítið rými til að bregðast við þó tími gefist til. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til að undirbúa vel ferðalög að vetrarlagi. Kanna ástand bifreiðarinnar og þá sérstaklega hjólbarðanna. Vegagerðin heldur úti öflugri fréttaveitu á vegagerdin.is, á vegasja.vegagerdin.is og með upplýsingasímanum 1777. Mikilvægt er að kynna sér færð og veður fyrir ferðalög að vetrarlagi, og velja ferðatíma út frá upplýsingum um færð og veður. Eins er mikilvægt að haga akstri eftir aðstæðum og gera ráð fyrir lengri ferðatíma.

Skýrsla

Umgengni á slysavettvangi / Varðveisla slysavettvangs

Umferð
Nr. máls: 2014-U001
10.07.2015

Vesturlandsvegur við Fornahvamm

Vöruflutningabifreiðin stöðvaðist eftir áreksturinn þannig að erfitt var fyrir umferð að komast yfir brúna. Slysavettvangurinn er í tæplega 60 km fjarðlægð frá Borganesi og fyrsti lögreglumaðurinn kemur á vettvang 35 mínútum eftir að slysið er tilkynnt. Við rannsókn málsins kom í ljós að vegfarendur höfðu fært vöruflutningabifreiðina til áður en lögregla og sjúkralið komu á staðinn og þannig spillt vettvangi slyssins. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess að varðveita slysavettvang eins og kostur er fyrir rannsókn slyssins. Um þetta er fjallaði í 3. mgr. 10. gr. umferðarlaga þar sem bannað er að raska vettvangi eða fjarlægja ummerki umferðarslyss þar sem maður hefur látist eða slasast alvarlega. Ef ökutæki veldur verulegri hættu fyrir umferðina skal þó færa það úr stað.

Skýrsla

Of hraður akstur

Umferð
Nr. máls: 2013-U008
23.01.2015

Faxabraut Akranesi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (áður Rannsóknarnefnd umferðarslysa) hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur hefur verið ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki eigi hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa.  

Skýrsla

Þjálfun ökumanna bifhjóla

Umferð
Nr. máls: 2013-U008
23.01.2015

Faxabraut Akranesi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess fyrir ökumenn bifhjóla að þjálfa sig reglulega í viðbrögðum við hættulegum aðstæðum. Mikil hætta skapast ef ökumaður bifhjóls hemlar þannig að hjól læsast, þegar hjólin hætta að snúast missir ökumaður jafnvægið og hjólið fellur yfirleitt fljótlega á hliðina. Eins er mikilvægt fyrir ökumenn þessara ökutækja að þjálfa vel notkun á framhemlum. Mun meiri hemlun næst með því að nota framhemilinn, en líkur eru á að ökumaðurinn í þessu slysi hafi ekki beitt framhemli. Þess ber þó að geta að mun hættulegra er að læsa framhjólbarða en þeim aftari, en regluleg þjálfun í að beita báðum hemlum gerir ökumenn færari í að hemla örugglega án þess að hjólin læsist. 

Skýrsla

Notkun endurskinsmerkja og aðgæsla

Umferð
Nr. máls: 2013-U019
16.12.2014

Reykjanesbraut við Stekk

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að afturför hafi orðið varðandi notkun endurskinsmerkja hér á landi og telur mikilvægt að áróður fyrir notkun endurskinsmerkja og endurskins á fatnað, verði aukinn. Nefndin hefur rannsakað allmörg slys þar sem ekið var á gangandi vegfarendur í myrkri sem voru án endurskinsmerkja eða með lélegt endurskin (sjá skýrslur: Suðurlandsvegur við Laugardæli 5.janúar 2009; Alvarleg umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu 2009) Ökumenn sjá gangandi vegfarendur í dökkum fatnaði seint og illa þegar skyggni er slæmt og eru því seinni en ella að bregðast við. Beinir rannsóknarnefndin því til Samgöngustofu að auka áróður um notkun endurskinsmerkja og fá stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í lið með sér og ná á öflugan átt til þeirra hópa vegfarenda sem eru á ferðinni fótgangandi. Jafnvel mætti að mati rannsóknarnefndarinnar, huga að því við endurskoðun umferðarlaga að um þetta verði settar leiðbeinandi reglur, sbr., leiðbeinandi reglur um notkun hlífðarhjálma sem í gildi eru.

Skýrsla

Ölvunarakstur

Umferð
Nr. máls: 2013-U006
10.10.2014

Akrafjallsvegur

Undanfarin ár hefur ölvunarakstur verið ein helsta orsök banaslysa í umferðinni. Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um ölvunarakstur.Ökumenn sem setjast ölvaðir undir stýri skapa öðrum og sjálfum sér  mikla hættu. Akstur eftir áfengisdrykkju og vökur eykur líkur á slysum, afleiðingar þeirra verða oft mjög alvarlegar og brýnt að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu.Áfengi hefur slævandi áhrif á dómgreind þeirra sem neyta þess. Áfengismagn í blóði þarf ekki að verða mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun er  meiri skerðist viðbragðstími, hreyfistjórnun og rökvísi sem endar með meðvitundarleysi. Hér eru einungis talin upp nokkur atriði af mörgum áhrifum áfengis á ölvaðan einstakling[1].

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis.

[1] WHO, 2007. „Drinking and driving. A road safety manual for decision makers and practitioners“. ISBN 978-2-940395-00-2. Genf, Sviss.

Skýrsla