Akstur í hálku

Umferð
Nr. máls: 2024-008U005
25.03.2025

Akstur í hálku

Það er krefjandi að aka bifreið á hálum vegi. Sérstaklega þarf að passa upp á hraðann en því meiri hraði í hálku því erfiðara er að stjórna bifreið og hemlunarvegalengd eykst til muna. Snögg hemlun, skyndileg hreyfing í stýri og þungt ástig á inngjöfina geta fljótt valdið stjórnleysi. Fara þarf með gát í beygjur og gæta að því að auka eða minnka hraða varlega. Slíkt getur komið í veg fyrir að bifreið missi rásfestu, skriki til eða renni og dregur þannig um leið úr hættu.

Þegar dregið er úr hraða við akstur í hálku þarf að slaka á inngjöfinni tímanlega og beita hemlum mjúklega. Við nauðhemlun á snævi þöktum eða hálum vegum getur ökutækið hæglega runnið til en nauðsynlegt er að halda hæfilegri fjarlægð frá næsta ökutæki fyrir framan.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til þess að vera vakandi fyrir hálku og við hvaða aðstæður hún myndast helst. Ökumenn ættu að vera sérstaklega á varðbergi þegar lofthiti er undir 4°C og vegur virðist blautur. Hægt er að finna upplýsingar um færð og veður, veðurviðvaranir og fleiri upplýsingar þess efnis, horfa á myndband um ísingu og hálku sem og hvernig bera má kennsl á hálku á heimasíðu Samgöngustofu.

Frekari upplýsingar um vetrarakstur er að finna á síðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

 

Tengill á skýrslu