Hálka og glerhálka
Hálka og glerhálka
Hálka getur myndast á vegi á nokkra mismunandi máta. Daginn sem slysið varð hafði hitastig verið við frostmark snemma morguns en var komin í 1°C um það leyti sem slysið varð. Einnig mældist mismunandi yfirborðsástand á Grindavíkurveginum milli 10:08 og 10:30 um morguninn meðal annars bleyta en auk þess krapi og snjóþekja. Í tilvikum bleytu getur myndast mikil hálka á vegyfirborði þegar veghiti er undir frostmarki. Ísing sem þessi getur líkst blautum vegi, en myndar spegilsléttan og nærri ósýnilegan þekju á yfirborðinu og því getur verið erfitt fyrir ökumenn að átta sig á aðstæðum. Slíkur ís á vegum er oft kallaður glerhálka eða glæra.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til þess að vera vakandi fyrir hálku og við hvaða aðstæður hún myndast helst. Ökumenn ættu að vera sérstaklega á varðbergi þegar lofthiti er undir 4°C og vegur virðist blautur. Hægt er að finna upplýsingar um færð og veður, veðurviðvaranir og fleiri upplýsingar þess efnis sem og horfa á myndband um ísingu og hálku á heimasíðu Samgöngustofu.