Ábendingar Síða 4

Leita að ábendingar

Áhrif hvassviðris á stöðugleika ökutækja - ferðaupplýsingar Vegagerðarinnar

Umferð
Nr. máls: 2013-U003
01.07.2014

Þjóðvegur 1 austan við Silfrastaði

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (áður Rannsóknarnefnd umferðarslysa) hefur rannsakað átta banaslys í umferðinni frá árinu 1998 þar sem vindhviða er talin orsakaþáttur. Í þessum átta slysum hafa 10 manns látist. Í skýrslu RNU um banaslys sem varð við Hof í Öræfasveit árið 2006 kom fram það mat nefndarinnar að auka þurfi fræðslu í ökunámi og í áróðri til almennings um áhrif færðar, vinds og vindhviða á stöðugleika ökutækja. Telur nefndin fulla ástæðu til að ítreka þá ábendingu.

Ökumenn geta dregið úr hættu á því að ökutæki þeirra fjúki til í hvassviðri með því að skoða veðuraðstæður og haga akstri eftir þeim. Færð á vegi skiptir miklu máli þegar vindasamt er og eitt besta ráðið til þess að varna því að missa stjórn á ökutæki í hvassviðri er að draga úr ökuhraða. Stöðugleiki ökutækja eykst þegar dregið er úr ökuhraða. Færð og vindátt skipta miklu máli en einnig stærð, lögun og þyngd ökutækjanna. Létt ökutæki með háan þyngdarpunkt þola minni vindstyrk en þung ökutæki með lægri þyngdarpunkt. Kassalaga ökutæki eins og sendibifreiðir og hjólhýsi taka á sig mun meiri vind en straumlínulagaðri ökutæki.

Á vef Vegagerðarinnar (vegagerdin.is) er að finna rauntímaupplýsingar um veður, færð og vindhraða á völdum stöðum og hvetur rannsóknarnefndin ökumenn til þess að kynna sér Vegasjá Vegagerðarinnar um þetta efni.

Tengill á skýrslu

Skyldur vegfarenda við umferðarslys

Umferð
Nr. máls: 2013-U003
01.07.2014

Þjóðvegur 1 austan við Silfrastaði

Þegar alvarleg slys eiga sér stað eru almennir vegfarendur oft fyrstir til aðstoðar og aðhlynningar á vettvangi. Almenn kunnátta í skyndihjálp getur þá reynst dýrmæt, meðan beðið er eftir lögreglu, sjúkraflutningamönnum og læknum. Fjölmörg dæmi eru um að aðhlynning vegfarenda fyrstu mínútur eftir slys, hafi skipt sköpum.

Í slysinu sem hér er fjallað um skýrir farþegi frá því að hann hafi staðið við veginn og gefið merki um aðstoð en  nokkrir vegfarendur hafi ekið framhjá slysstað án þess að stöðva og bjóða fram aðstoð. Er það mjög alvarlegt að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa ef almenningur sýnir ekki vilja til aðstoðar í neyðartilfellum.

Í 13. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðar breytingum, segir að vegfarendur skuli nema staðar hvort sem þeir eiga sök á slysum eða ekki, og bjóða fram hverja þá hjálp sem unnt er. Hér er um að ræða mjög mikilvægt öryggisatriði sem allir vegfarendur verða að sinna. 

Tengill á skýrslu

Framúrakstur

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
16.02.2016

Hafnarvegur við Stekkakeldu

Ef slys verður við framúrakstur á þjóðvegahraða þá eru miklar líkur á að afleiðingarnar verði alvarlegar. Reglulega verða slys við framúrakstur og hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakað nokkur þeirra. Nefndin bendir á, að mikilvægt er að hafa fulla aðgát við framúrakstur og nauðsynlegt er að velja stað og stund þannig að unnt sé án hættu að taka framúr öðru ökutæki.

Tengill á skýrslu

Stöðugleikabúnaður

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
01.09.2016

Útnesvegur Hellissandur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar tillögu sem birtist í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi í Eldhrauni 23. apríl 2012 um stöðugleikabúnað. Allmargar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi slíks búnaðar sem benda til að öryggisávinningur hans sé verulegur. Stöðugleikabúnaður vinnur þannig að þegar bifreið fer að skríða til á vegi þá grípur hann sjálfvirkt inn í með því að hemla á því hjóli/hjólum sem geta afstýrt því að ökutækið haldi áfram að skrika til og verði stjórnlaust. Búnaðurinn vinnur án þess að ökumaðurinn þurfi að bregðast sérstaklega við og benda rannsóknir til að hann minnki umtalsvert líkurnar á að ökumaðurinn missi stjórn á bifreiðinni og að banaslysum vegna útafaksturs og veltna megi fækka um 30 til 64% með stöðugleikabúnaði[1].

 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur bílaleigur og aðra kaupendur nýrra bifreiða til að velja þennan búnað við kaup á bifreiðum.

 

[1] Erke, A. (2008). „Effects of electronic stability control (ESC) on accidents: A review of empirical evidence.“ Accident Analysis and Prevention, vol. 40, nr. 1, bls 197 – 173.

Ferguson, S.A. (2007). „The effectiveness of Electronic Stability Control in reducing real-world crashes: A litterature review.“ Traffic Injury Prevention, vol. 8, nr. 4, bls. 329 – 338.

Tengill á skýrslu

Reynsluleysi og röng viðbrögð

Umferð
Nr. máls: 2015-040-U-008
01.09.2016

Útnesvegur Hellissandur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa  rannsakar reglulega alvarleg umferðarslys þar sem ökumaður bregst ranglega við þegar hann missir hjólin út af slitlagi. Hætta er á að hann missi endanlega stjórn á bifreiðinni þegar sveigt er inn á veginn aftur eins og raunin varð í þessu slysi. Mikilvægt er að bregðast rólega við og sveigja hægt inn á veginn aftur sé það hægt. Hættulegt getur verið að beita hemlum og stundum getur verið betri kostur að stýra bifreiðinni út af veginum og eftir fremsta megni komast hjá því að bifreiðin velti.

Tengill á skýrslu

Hvítársíðuvegur

Umferð
Nr. máls: 2015-058U008
17.03.2017

Akstur bifhjóla með farþega og farangur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að akstur bifhjóla með farþega og farangur getur verið vandasamur. Erfiðara er fyrir ökumann að bregðast við, því bæði farþegi og farangur breyta þyngdardreifingu á milli fram og afturöxuls og þyngja hjólið. Af þeim sökum breytast aksturseiginleikar sem ökumaður verður að vera vel meðvitaður um og kunna að bregðast við. Mikilvægt er að farþeginn þekki til aksturs bifhjóla og ökumaður upplýsi farþega ef bregðast þarf við t.d. ójöfnum á vegi.  

Tengill á skýrslu