Eldri skýrslur - RNU

Leita að skýrslu

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Þorlákshafnarvegur

Toyota fólksbifreið var ekið afar ógætilega út úr Hveragerði og suður Þorlákshafnarveg í björtu og þurru veðri. Að sögn vitna var hún á mikilli ferð og nokkrum sinnum nærri því að lenda í árekstri við önnur ökutæki. Rétt sunnan afleggjarans að Grímslæk missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni um það leiti sem hún mætti annarri bifreið sem ekið var norður sama veg. Bifreiðin skreið til hliðar út af veginum og lenti útaf vinstra megin miðað við sína akstursstefnu. Bifreiðin valt nokkrar veltur, kastaðist yfir girðingu og endaði á toppnum.

Skýrsla 13.08.2007
Umferðarsvið

Þjóðvegur 1 við Ærlæk

Ökumaður fólksbifreiðar á leið frá Akureyri ók austur þjóðveginn áleiðis til Egilsstaða. Við svonefndan Ærlæk, um 30 km frá Egilsstöðum ók ökumaður útaf norðan við veginn. Leið bifreiðinnar skáhallt niður fláa vegarins sést á mynd 1. Steypt ræsi er yfir Ærlæk og hefur verið reynt að laga yfirborð þess að fláanum. Bifreiðin fór skáhallt niður fláann, og kastaðist yfir vegræsið. Undirvagn bifreiðarinnar aflagaðist mikið við lendinguna og gekk fremra hjólastell bifreiðarinnar upp og aftur í farþegarýmið við höggið. Bifreiðin staðnæmdist austanvið vegræsið og námu afturhjól við kant ræsisins.

Skýrsla 29.10.2007
Umferðarsvið

Vesturgata Reykjanesbæ

Lögreglunni í Reykjanesbæ var tilkynnt um að ekið hefði verið á gangandi vegafaranda á Vesturgötu við Birkiteig. Ökumaður sem slysinu olli sýndi af sér vítaverða hegðun og flúði af vettvangi. Ekki hefur tekist að sanna hver var ökumaður umrætt skipti en bifreiðin sem hann ók fannst daginn eftir. Vegfarandinn sem ekið var á var fjögurra ára drengur.

Skýrsla 30.11.2007
Umferðarsvið

Vestfjarðavegur við Klukkufell

Ökumaður Opel fólksbifreiðar ók norður Vestfjarðaveg seinnipart dags. Veður var bjart og vindur var lítill. Vegyfirborðið var blautt og gekk á með rigningu á köflum. Þar sem slysið átti sér stað liggur vegurinn yfir hæð og í mjúkri beygju. Vegsýn fram á veginn er takmörkuð og var Opel bifreiðinni ekið niður brekku þegar hún fór útaf veginum.

Skýrsla 17.09.2007
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Mæri

Banaslys varð skammt vestan við bæinn Mæri á þjóðvegi 1 milli Hveragerðis og Selfoss.

Skýrsla 21.03.2007
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Kirkjuferju

Ökumaður fólksbifreiðar ók austur Suðurlandsveg í átt að Selfossi. Á Hellisheiði höfðu vegfarendur tekið eftir einkennilegu aksturslagi hans þar sem hann hafði farið yfir á öfugan vegarhelming svo lá við slysi. Nokkru síðar, þegar ökumaður var kominn að afleggjaranum við Kirkjuferju ók hann aftur yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði framan á vörubifreið sem ekið var vestur Suðurlandsveg (sjá mynd). Var árekstrarstaður á nyrðri akreininni, á vegarhelmingi vörubifreiðarinnar. Áreksturinn var mjög harður og fórst ökumaður fólksbifreiðarinnar samstundis.

Skýrsla 11.09.2007
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Heiðmerkurafleggjara

Slysið varð á Suðurlandsvegi við Heiðmerkurafleggjara. Ökumaður Kia fólksbifreiðar var á leið til Reykjavíkur en hafði stöðvað á vegöxl til að aðstoða ökumann bilaðrar fólksbifreiðar sem var í samfloti með honum. Ökumaður Kia bifreiðarinnar hugðist taka U-beygju en gáði ekki að sér og beygði í veg fyrir flutningabifreið sem ekið var austur Suðurlandsveg.

Skýrsla 16.11.2007
Umferðarsvið

Þjóðvegur 1 í Norðurárdal í Skagafirði

Seint á aðfararnótt sunnudagsins 9. júlí fór jeppabifreið út af þjóðvegi eitt efst í Norðurárdal í Skagafirði með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar lést. Ökumaðurinn var karlmaður á þrítugsaldri og var hann einn í bílnum. Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning á slysinu, en það mun hafa gerst milli klukkan 4:30 og 6 að morgni.

Skýrsla 09.07.2007
Umferðarsvið

Laugarvatnsvegur við Þóroddsstaði

Ökumaður ók austur Biskupstungnabraut. Við Minni-Borg mættu lögreglumenn ökumanni og gáfu honum merki um að stöðva bifreiðina til að athuga ástand hans, en hann virti það að vettugi og jók þess í stað hraðann, sem áður hafði verið innan eðlilegra marka. Lögreglan hóf þá eftirför. Sáu lögreglumenn bifreiðina tvisvar eftir að þeir hófu eftirförina, fyrst á hæð áður en beygt er inn á Laugarvatnsveg af Biskupstungnabraut, en síðan sáu þeir rykmökk í fjarska þegar þeir komu inn á Laugarvatnsveg. Voru þeir þá að svipast um eftir bifreiðinni en hættir eftirför. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að rykmökkurinn var eftir bifreiðina og hafði ökumaður ekið útaf. Á vettvangi mátti sjá að ökumaður hafði ekið mjög hratt í beygju skammt sunnan við bæinn Þóroddsstaði og farið útaf vinstra megin.

Skýrsla 06.08.2007
Umferðarsvið

Krýsuvíkurvegur við Bláfjallaafleggjara

Ökumaður bifhjóls ók suðaustur Krýsuvíkurveg á miklum hraða. Skammt frá Bláfjallaafleggjara ók hann framúr tveimur malarflutningabifreiðum. Vegsýn framundan var takmörkuð vegna hæðar og beygju og fór ökumaðurinn yfir heila línu og á vegarhelming fyrir umferð úr gagnstæðri átt. Við framúraksturinn missti hann stjórn á hjólinu, náði ekki beygjunni og hafnaði útaf vinstra megin. Á veginum voru 130 metra skriðför eftir bifhjólið en það hafnaði á hraunvegg 30 metra utanvegar. Vitni greinir frá því að við framúraksturinn hafi afturendi bifhjólsins byrjað að rása og ökumaður misst stjórn á því.

Skýrsla 15.10.2007
Umferðarsvið