Leita að skýrslu
Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:
Biskupstungnabraut við Minni-Borg
Ökumaður fólksbifreiðar ók austur Biskupstungnabraut og stöðvaði við innkeyrsluna að versluninni Minni-Borg. Hugðist ökumaður beygja til vinstri inn á planið sem er fyrir framan verslunina. Þremur bifhjólum var ekið vestur Biskupstungnabraut á sama tíma. Ökumaður fólksbifreiðarinnar sá ekki bifhjólamennina og ók í veg fyrir þann sem fremstur fór. Bifhjólamaðurinn náði ekki að beygja frá og hafnaði á aftanverðri hægri hlið bifreiðarinnar. Við áreksturinn féll hann af hjólinu og kastaðist yfir bifreiðina. Hann hlaut innvortis áverka sem drógu hann til dauða. Hann notaði viðurkenndan öryggisbúnað, var með hjálm og í bifhjólagalla. Ökumaður og farþegi í fólksbílnum hlutu minniháttar áverka.
Skýrsla 28.07.2007Akrafjallsvegur við Innnesveg
Árekstur varð á Akrafjallsvegi við vegamót Innnesvegar. Ökumaður strætisvagns ók vestur Akrafjallsveg að vegamótunum og hugðist beygja til vinstri inn á Innnesveg. Á sama tíma var þremur bifhjólum ekið austur Akrafjallsveg áleiðis framhjá vegamótunum á 80-90 km/klst. hraða. Ökumaður strætisvagnsins ók í veg fyrir bifhjólamennina með þeim afleiðingum að sá sem var fremstur lenti í árekstri við vagninn og fórst við það.
Skýrsla 16.07.2007Þjóðvegur 1 í Norðurárdal í Skagafirði
Seint á aðfararnótt sunnudagsins 9. júlí fór jeppabifreið út af þjóðvegi eitt efst í Norðurárdal í Skagafirði með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar lést. Ökumaðurinn var karlmaður á þrítugsaldri og var hann einn í bílnum. Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning á slysinu, en það mun hafa gerst milli klukkan 4:30 og 6 að morgni.
Skýrsla 09.07.2007Suðurlandsvegur við Mæri
Banaslys varð skammt vestan við bæinn Mæri á þjóðvegi 1 milli Hveragerðis og Selfoss.
Skýrsla 21.03.2007Hörgárdalur
Mercedes Benz fólksbifreið var ekið eftir þjóðvegi 1 suður Hörgárdal seint að kvöldi til. Þetta kvöld var heiðskírt og hafði snöggfryst skömmu fyrir slysið. Mikil ísing hafði myndast á vegum og var þjóðvegurinn í Hörgárdal flugháll. Rétt sunnan við bæinn Krossastaði missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni 100-200 m eftir að hún kom úr vinstri beygju. Sáust skriðför á veginum eina 70 metra sem enduðu í vegbrúninni. Á þessum stað er vegurinn um 6 metra breiður með 1 metra breiðri vegöxl. Umferð um veginn er um 1200 bílar á sólahring. Hár og brattur bakki er fram af veginum og mældist fláinn um 23 metrar. Neðst í brekkunni er stórgrýti. Bifreiðin rann niður brekkuna á hjólunum og fór nokkrar veltur eftir að hún lenti á stórgrýtinu. Við það kastaðist ökumaðurinn út úr bifreiðinni og lést af áverkum sem af hlutust.
Skýrsla 03.03.2007