Eldri skýrslur - RNU

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Reykjanesbraut norðan Ásbrautar

Ökumaður Subaru bifreiðar var einn í bifreið sinni á leið suður Reykjanesbraut seinnipart dags. Var bifreiðinni ekið í miðri röð nokkurra bifreiða. Skyndilega fór bifreiðin út af veginum til hægri. Hægra framhorn hennar hafnaði á ljósastaur með þeim afleiðingum að bifreiðin snerist og valt.

Skýrsla 27.12.2008
Umferðarsvið

Siglufjarðarvegur við Sandvík

Ökumaður fólksbifreiðar ók norður Siglufjarðarveg að morgni til. Í Sandvík missti ökumaðurinn bifreiðina út í vegkant hægra megin. Vegurinn liggur meðfram sjónum á þessum kafla. Hann náði að halda bifreiðinni í vegkantinum eina 100 metra. För eftir bifreiðina sýndu að hjólin vinstra megin voru á vegöxlinni allan tímann en hægri hjól mörkuðu för í vegfláann.

Skýrsla 16.09.2008
Umferðarsvið

Djúpvegur við Botnsá

Slysið varð við brúna yfir Botnsá innst í Mjóafirði á þjóðvegi 61 (Djúpvegur). Ökumaður og farþegi voru á leið til Reykjavíkur og óku sem leið lá eftir Djúpvegi inn Ísafjarðardjúp. Þar sem slysið varð er Djúpvegur með malarslitlagi og liggur í krappri beygju að brúnni yfir Botnsá. Miðað við hjólför á vettvangi virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún rann út í malaröxlina í beygjunni hægra megin.

Skýrsla 29.08.2008
Umferðarsvið

Hafnarfjarðarvegur

Ökumaður lítillar fólksbifreiðar ók suður Hafnarfjarðarveg að nóttu til. Í bifreiðinni, auk ökumanns, voru fimm farþegar. Farþegar og ökumaður voru allt ungmenni undir tvítugu. Var bifreiðinni ekið á vinstri akrein niður brekku sem endar í aflíðandi hægri beygju. Neðarlega í brekkunni missti ökumaður stjórn á bifreiðinni.

Skýrsla 21.06.2008
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Hvammsveg

Banaslys varð snemma að morgni við árekstur bifreiða sem ekið var úr gagnstæðum áttum. Fjórum bifreiðum var ekið í lest austur Suðurlandsveg. Fremsta bifreiðin var vörubifreið með festivagn og sú næsta var sendibifreið. Toyota pallbifreið var ekið úr gagnstæðri átt vestur Suðurlandsveg. Áður en pallbifreiðin og vörubifreiðin mættust varð ökumaður vörubifreiðarinnar var við að pallbifreiðin sem á móti kom leitaði til vinstri yfir á rangann vegarhelming. Ökumaður vörubifreiðarinnar reyndi að víkja frá til hægri en þrátt fyrir það rakst pallbifreiðin á hlið festivagns vörubifreiðarinnar.

Skýrsla 11.04.2008
Umferðarsvið

Eyrarbakkavegur við Kaldaðarnesveg

Slysið varð á vegamótum Eyrarbakkavegar og Kaldaðarnesvegar. Ökumaður fólksbifreiðar ók austur Kaldaðarnesveg og hugðist beygja til vinstri norður Eyrarbakkaveg. Hann virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir vörubifreið með festivagn sem ekið var suður Eyrarbakkaveg. Ökumaður vörubifreiðarinnar reyndi að beygja yfir á vinstri akrein til að hindra að árekstur yrði en náði því ekki og rákust bifreiðarnar saman á miðjum Eyrarbakkavegi.

Skýrsla 08.04.2008
Umferðarsvið

Kringlumýrarbraut við Listabraut

Bifhjóli og fólksbifreið var ekið suður Kringlumýrarbraut á miklum hraða. Að sögn vitna voru ökumenn í kappakstri og sveigðu framhjá öðrum ökutækjum. Mikil hætta skapaðist af þessu ökulagi fyrir aðra vegfarendur þar sem töluverð umferð var á Kringlumýrarbraut og Listabraut umrætt sinn.

Skýrsla 21.03.2008
Umferðarsvið

Reykjavíkurvegur við Stakkahraun

Ökumaður fólksbifreiðar ók vestur Stakkahraun og hugðist beygja inn á Reykjavíkurveg og aka til suðurs. Ökumaðurinn, 72 ára kona sinnti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir jeppabifreið sem ekið var norður Reykjavíkurveg. Vitni sem rætt var við á vettvangi lýstu því svo að konan hefði ekið óhikað fram yfir biðskylduna í veg fyrir jeppabifreiðina. Ökumaður þeirrar bifreiðar nauðhemlaði, en gat ekki forðað árekstri. Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést í slysinu en ökumaður jeppabifreiðarinnar hlaut minniháttar meiðsli.

Skýrsla 19.03.2008
Umferðarsvið

Vesturgata Akranesi

BMW bifreið var ekið norður Vesturgötu á Akranesi. Í bifreiðinni var auk ökumanns einn farþegi í framsæti. Dálítill vindur var þegar slysið átti sér stað og var gatan blaut. Gatan er steypt og rúmlega 8 metra breið. Víða við götuna var bifreiðum lagt við gangstéttarbrún en einnig er stutt á milli hliðargatna inn á Vesturgötu. Ökumaður BMW bifreiðarinnar tók háskalega fram úr öðrum bíl og missti þá stjórn á bifreiðinni, lenti upp á gangstétt og þaðan inn í garð og endaði ökuferðin með hörðum árekstri á húsvegg.

Skýrsla 18.02.2008
Umferðarsvið

Hrútafjarðarháls við Svertingsstaði

Karlmaður kom akandi frá bænum Svertingsstöðum á Suzuki fólksbifreið og ók hann inn á þjóðveginn til norðurs. Hann var einn í bílnum. Í sömu mund var vörubifreið lestuð tæpum 9 tonnum af heyböggum ekið norður fram hjá afleggjaranum.

Skýrsla 09.01.2008
Umferðarsvið