Slysa- og atvikaskýrslur Síða 11

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Vesturlandsvegur, brú við Fornahvamm

Um klukkan 12:30 þann 12. janúar 2014 lentu tvær bifreiðar í hörðum árekstri á Vesturlandsvegi við Fornahvamm. Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bifreiðinni þegar henni var ekið yfir skafl sem myndast hafði við vegriðsenda við brú yfir Norðurá með þeim afleiðingum að hún snerist á veginum og hægri hlið hennar lenti framan á vöruflutningabifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður og farþegi fólksbifreiðarinnar létust af völdum lífhættulegra áverka sem af slysinu hlutust. Ökumaðurinn var 18 ára karlmaður og farþeginn var 16 ára stúlka.

Skýrsla 12.01.2014
Umferðarsvið

Hellisheiði 29. desember 2013

Síðdegis þann 29. desember 2013 lentu tvær bifreiðar í harðri framanákeyrslu á Suðurlandsvegi uppi á Hellisheiði. Þeim bifreiðum var ekið á eftir öðrum bifreiðum með stuttu millibili. Ökumenn fremri bifreiðanna náðu að forða árekstri sín á milli. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar lést af völdum áverka sinna á spítala daginn eftir. Það er niðurstaða rannsóknar á slysinu að bifreiðunum sem lentu saman í árekstrinum hafi verið ekið of nálægt bifreiðum sem á undan þeim fóru. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess að ökumenn gæti að hæfilegu bili á milli bifreiða í akstri. Í tillögu í öryggisátt er mikilvægi aðgreiningar akstursátta á Suðurlandsvegi áréttað og bent á nauðsyn þess að yfirborsmerkingar séu góðar.

Skýrsla 29.12.2013
Umferðarsvið

Reykjanesbraut við Stekk 14.11.2013

Slysið varð síðla dags 14. nóvember 2013. Gangandi vegfarandi gekk frá verslunarkjarnanum við Fitjar í Reykjanesbæ, yfir Reykjanesbraut. Var hún komin yfir miðja Reykjanesbraut á leið yfir akrein fyrir umferð austur brautina þegar hún gekk í veg fyrir bifreið sem ekið var í þá átt. Vegfarandinn hlaut lífshættulega áverka og lést 16 dögum eftir slysið. Rannsóknarnefnd samgönguslysa áréttar að ökumenn dragi úr ferð og aki undir hámarkshraða í slæmu skyggni og á blautum vegi þar sem þá er mun erfiðara að sjá gangandi vegfarendur og bregðast við óvæntum atvikum. Jafnframt áréttar nefndin að gangandi vegfarendur séu ávallt með endurskinsmerki og sýni aukna varúð við vegi í slæmu skyggni.

Skýrsla 14.11.2013
Umferðarsvið

Norðausturvegur við Kvistás 28. september 2013

Ökumaður fólksbifreiðar á leið austur Norðausturveg ók útaf veginum og endastakkst bifreiðin. Ökumaður kastaðist út úr bílnum en hann notaði ekki bílbelti. Hann hlaut mikla höfuð- og hálsáverka við slysið. Við rannsókn kom fram að ökumaður var verulega ölvaður og telur nefndin sennilegt að ölvunarástand hafi valdið slysinu. Of mörg dæmi eru um slys af þessum toga og brýnt að allir taki afstöðu gegn ölvunarakstri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur sennilegt að ökumaður hefði lifað slys af hefði hann notað bílbelti.

Skýrsla 28.09.2013
Umferðarsvið

Vesturlandsvegur sunnan Bifrastar 23. ágúst 2013

Erlendur ferðamaður gætti ekki að sér þegar hann beygði til vinstri út af Vesturlandsvegi í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var í veg fyrir lést á spítala 10 dögum síðar. Hann var ekki spenntur í öryggisbelti. Í skýrslunni eru tillögur í öryggisátt um merkingar ferðamannastaða og vegna breytinga á bifreiðum fyrir hreyfihamlaða.

Skýrsla 23.08.2013
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Rauðavatn 10.8.2013

Smart fólksbifreið var dregin af BMW fólksbifreið austur Suðurlandsveg. Smart bifreiðin var ekki í dráttarhæfu ástandi. Dráttartóg var milli bifreiðanna og byrjaði Smart bifreiðin að rása og sveiflast til í drætti. Fór hún yfir á öfugan veghluta og hafnaði framan á vinstra framhorni hópbifreiðar með þeim afleiðingum að 24 ára karlmaður lést í slysinu. Driföxlar Smart bifreiðarinnar voru ekki á sínum stað, en þeir gegna m.a. því hlutverki að halda hjólalegu saman á hjólnafinu. Sökum þessa var hjólabúnaður að aftan ekki fastur undir bifreiðinni og losnuðu báðir hjólbarðarnir undan rétt fyrir slysið. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til allra þeirra sem hafa með flutning ökutækja að gera að gæta vel að ástandi ökutækjanna svo forða megi að viðlíka slys verði aftur.

Skýrsla 10.08.2013
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Kjartansstaði 7.8.2013

Slysið varð síðdegis á Suðurlandsvegi austan við Kjartansstaði. Ökumaður Toyota Hiace sendibifreiðar ók austur Suðurlandsveg frá Selfossi. Að sögn vitna rásaði bifreiðin á veginum og stefndi yfir á öfugan vegarhelming. Ökumaður fólksbifreiðar með fellihýsi sem ók vestur Suðurlandsveg sá bifreiðina koma á móti sér og vék frá og slapp við árekstur. Fyrir aftan fólksbifreiðina með fellihýsið var Iveco vörubifreið og hafnaði Toyota sendibifreiðin framan á henni. Ökumaður Toyota sendibifreiðarinnar slasaðist lífshættulega í árekstrinum og lést vegna áverka sem hann hlaut í slysinu.

Skýrsla 07.08.2013
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Meðallandsveg 4. ágúst 2013

Slysið varð á Suðurlandsvegi við Meðallandsveg í Eldhrauni. Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bifreið eftir framúrakstur á miklum hraða. Ökumaður reyndi að halda bifreiðinni á veginum en hafnaði útaf vinstra megin. Valt bifreiðin í gegnum fjárgirðingu og út í hraun. Tvær stúlkur, farþegar í aftursæti köstuðust út úr bifreiðinni. Stúlkurnar voru 15 og 16 ára og létust báðar á vettvangi. Þær notuðu hvorugar bílbelti.

Skýrsla 04.08.2013
Umferðarsvið

Djúpvegur í Skötufirði 13.6.2013

Slysið varð á Djúpvegi í Skötufirði sunnan við Hvítanes. Tvær konur, ökumaður og farþegi í framsæti voru á leið inn fjörðinn í suðurátt þegar ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni og valt hún utan vegar. Ökumaðurinn lést en hann notaði ekki bílbelti og kastaðist út úr bifreiðinni. Vegna slyssins vill Rannsóknarnefnd samgönguslysa benda ökumönnum á mikilvægi viðbragða ef hjólbarði fer út fyrir slitlag. Ef hjól fer út fyrir slitlag er mikilvægt að ökumenn reyni að halda ró sinni og beygja rólega inn á slitlagið ef kostur er. Þá ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn noti bílbelti og miði ökuhraða við aðstæður.

Skýrsla 13.06.2013
Umferðarsvið

Faxabraut 16. maí 2013

Ökumaður bifhjóls ók hratt austur Faxabraut á Akranesi að degi til. Ökumaðurinn tók fram úr bifreið rétt áður en hann kom að hraðatakmarkandi koddum og samkvæmt vitnum, lenti hann utan í öðrum koddanum þegar hann reyndi að sveigja fram hjá honum rétt eftir framúraksturinn. Við það virðist hann hafa fipast við aksturinn og rétt áður en hann kom að vinstri beygju 50 metrum austar, hemlaði ökumaðurinn þannig að afturhjólbarði læstist og rann hjólið beint á gangstétt. Við það fór hjólið á hliðina og ökumaðurinn kastaðist út fyrir veg og niður í fjöru með þeim afleiðingum að hann lést.

Skýrsla 16.05.2013
Umferðarsvið