2016 Síða 2

Brú yfir Vatnsdalsá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Burðarþol brúa og útboðsgögn

Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að tryggt sé að brýr þoli þann þunga sem leyfður er. Við rannsókn þessa kom einnig í ljós að heilbrigðis- og öryggisáætlun sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits.

Nefndin leggur til við Vegagerðina að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar í ljósi þess að víða eru eldri brýr enn í notkun.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Kennsla til meiraprófs

Í gildi eru námskrár bæði fyrir vörubifreiðaréttindi og endurmenntun bílstjóra. Þar er farið yfir þau atriði sem skylt er að gera góð skil við kennslu til aukinna ökuréttinda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að mikilvægt er að ökumenn vörubifreiða sem og þeir sem þá hlaða, hafi þekkingu til að meta heildarþyngd vagnlestar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að yfirfara námskrár fyrir vörubifreiðaréttindi sem og fyrir endurmenntun bílstjóra með þetta atriði til hliðsjónar.

 

Afgreiðsla

Biskupstungnabraut Alviðra

Umferð
Nr. máls: 2015-040-U-005
Staða máls: Lokuð
10.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Skoðunarhandbók ökutækja

Við rannsókn á slysinu kom í ljós að hemladæla í afturhjóli var föst. Bifreiðin hafði verið tekin til aðalskoðunar þann 27. júní 2014 þar sem dæmt var á skoðunaratriði 876. Dæmt skal á útílegu þegar erfitt er að snúa hjóli með höndum en það bendir til stirðleika í hemlabúnaði. Samkvæmt skoðunarhandbók ökutækja skal dæma ökutæki til endurskoðunar ef erfitt er að snúa hjóli með höndum nema að þetta sé eina athugasemdin sem finnst við skoðun. Við rannsókn á bifreiðinni eftir slysið kom í ljós að hemladæla var föst í einu hjóli hennar. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa bendir útílega hemla til þess að bilun sé í hemlakerfi sem mikilvægt er að laga til að tryggja öryggi ökutækis í akstri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við Samgöngustofu að taka út x-merkingu við skoðunaratriði 876 í skoðunarhandbók ökutækja.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Samgöngustofu dagsett 31.3.2016 kemur fram að stofnunin mun taka x-merkingu við skoðunaratriði 876 út við næstu endurskoðun skoðunarhandbókar ökutækja. Áætluð útgáfa hennar er 1. september 2016.

Ártúnsbrekka 21.12.2015 (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-122U023
Staða máls: Lokuð
15.03.2017

Tillaga í öryggisátt

Aukahlutir í sjónsviði ökumanns út um rúður ökutækja

Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 822 frá 2004 með síðari breytingum er kveðið á um að ökumaður skuli hafa góða útsýn úr sæti sínu fram fyrir ökutækið og til beggja hliða, og samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er óheimilt að hafa hvers konar aukahluti innan á eða innan við framrúðu og fremstu hliðarrúðu sem geta takmarkað útsýn. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til eigenda leigubifreiða að hafa þessar málsgreinar reglugerðarinnar í huga þegar búnaður er settur í ökutækin. Nefndin beinir því einnig til Samgöngustofu að taka þetta atriði upp með fyrirtækjum sem stunda skoðun á ökutækjum.

Afgreiðsla

Í svari sem RNSA barst 22.3.2019 kemur fram að Samgöngustofa hefur bæði fyrir og eftir þetta slys ítrekað við skoðunarstofur að setja út á byrgjandi hluti í sjónsviðið við skoðun ökutækja. 

Ártúnsbrekka 21.12.2015 (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-122U023
Staða máls: Opin
15.03.2017

Tillaga í öryggisátt

Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla

Mikilvægt er að reiðhjólamenn séu vel sýnilegir í umferðinni og sérstaklega þarf að huga vel að sýnileika þeirra í skammdeginu. Í 4. gr. reglugerðar um gerð og búnað reiðhjóla nr. 57/19943 eru gerðar kröfur um ljós og glitmerki. RNSA bendir á að miklar framfarir hafa orðið á slíkum búnaði á undanförnum árum og leggur til að Innanríkisráðuneytið taki reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla til endurskoðunar.

Afgreiðsla

Samkvæmt svarbréfi Innanríkisráðuneytisins dagsettu 28. mars 2017 hefur ráðuneytið, í samráði við Samgöngustofu, hafið vinnu við endurskoðun reglugerðarnnar. 

Ártúnsbrekka 21.12.2015

Umferð
Nr. máls: 2015-122U023
Staða máls: Opin
15.03.2017

Tillaga í öryggisátt

Hjólreiðar á fjölakreinavegum með hámarkshraða 60 km/klst eða hærra í þéttbýli

Mikil hætta er á að afleiðingar áreksturs milli hjólreiðamanns og bifreiðar verði mjög alvarlegar þegar ökuhraði er mikill. Eins skapar mikill munur á hraða farartækja aukna hættu á slysum1. Þegar hraðamunur er mikill nálgast farartæki hvort annað mun hraðar en ella og er því minni tími til að bregðast við ef hætta skapast. Hjólreiðar á fjölakreinavegum þar sem hraði er mikill eru hjólreiðamönnum afar hættulegar. Hjólreiðamaður á t.d. í erfiðleikum með að fylgjast með umferð fyrir aftan sig við akreinaskipti. Einungis er hægt að líta í örskotsstund aftur fyrir sig án þess að eiga á hættu að missa stjórn á hjólinu.
Í 25. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum segir að banna skuli umferð gangandi vegfarenda, reiðhjóla, léttra bifhjóla o.fl. á hraðbrautum eða samskonar vegum. Líkja má sumum einstökum stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu við hraðbrautir, að minnsta kosti á köflum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill.

Afgreiðsla

Innanríkisráðuneytið hefur, skv bréfi til RNSA dagsettu 28. mars 2017, tekið tillöguna til skoðunar og óskað eftir umsögnum frá Samgöngustofu, Vegagerðinni, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Landssamtökum hjólreiðamanna. Frekari ákvörðun um vinnu við afgreiðslu tillögunnar verður tekin þegar umsagnir liggja fyrir.