Leita
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (1)
Tillaga í öryggisátt
Öryggi vegarins
Veglínan er hættuleg, bæði er brekkan brött og eins er beygjan neðst kröpp og hátt fall fram af veginum. Við rannsókn á slysinu kom fram að reglulega lenda ökumenn í vandræðum í þessari beygju og keyra á vegriðið. Þegar þetta slys varð var vegriðið mikið skemmt eftir fyrri slys.
Vegriðið hefur bjargað mörgum frá því að lenda út af veginum og niður brattan vegfláann þó svo að óvíst sé að óskemmt vegrið hefði haldið þeirri þungu vagnlest sem hér um ræðir. Mörg þessara slysa hafa verið án meiðsla, en í ljósi þeirra og þess slyss sem hér er um fjallað leggur nefndin til við veghaldara að gerðar verði úrbætur á veginum til að auka öryggi vegfarenda.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 27. nóvember frá veghaldara kemur fram að gerð hefur verið tillaga að nýrri veglínu. Einnig kemur fram í bréfinu að í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árið 2015 - 2016 er gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verks á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2023 -2016.
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (2)
Tillaga í öryggisátt
Skoðunarhandbók
Umræddur vagn hafði verið tekinn til skoðunar á skoðunarstöð 12 dögum fyrir slysið. Hlaut hann athugasemdir við alls 8 atriði, þar af 3 við ástand hemla. Að mati nefndarinnar er ekki ásættanlegt að ökutæki, og þá sérstaklega þung ökutæki, séu á vegum landsins með margvíslegar bilanir á öryggisbúnaði sínum.
Að mati RNSA ætti að setja mörk á fjölda atriða sem sett er út á án þess að fá akstursbann. Beinir nefndin þeirri tillögu til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Nefndin telur einnig að rétt sé að skrá hemlun og hemlunargetu (skoðunaratriði nr. 884 og 886) við aðalskoðun ökutækja á skoðunarvottorð líkt og gert er við mengunarmælingar. Beinir nefndin þeirri tillögu einnig til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 16. maí 2018 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið tekur undir tillögu nefndarinnar og hefur beint því til Samgöngustofu að taka tillöguna til skoðunar og mögulegar útfærslur í samráði við hagsmunaaðila.