Akstur við erfiðar aðstæður
Tillaga í öryggisátt
Á undanförnum árum hefur ökunám tekið miklum breytingum. Ökunámið hefur lengst og ýmsar nýungar verið teknar upp, s.s. æfingarakstur og námskeið í ökuskóla. Alls eru námskeiðin í ökuskóla orðin þrjú. Þriðja námskeiðið í ökuskóla fer fram í ökugerði, helst undir lok námsins. Þar fá nemendur að kynnast hættulegum akstursskilyrðum, hvernig aksturseiginleikar breytast þegar veggrip minnkar og hvernig á að forðast að bifreið fari að skríða til.
Í 11. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 er umsækjendum um almenn ökuréttindi (B- flokk) gert skylt að sækja fyrrnefnt námskeið áður en ökuprófi er lokið. Hins vegar hefur uppbygging á ökugerðum tafist fyrir æfingarbrautir á Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Ökunemar, búsettir á þessum svæðum, fá af þeim sökum undanþágu frá því að taka ökuskóla þrjú áður en þeir fá bráðabirgðaskírteini. Þeir þurfa hins vegar að ljúka námskeiðinu áður en þeir fá fullnaðarskírteini afhent. Ökumaðurinn í því slysi sem hér er fjallað um hafði ekki lokið ökuskóla þrjú.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að fella endanlega niður ákvæði til bráðabirgða um undanþágu frá þjálfun í ökugerði í reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum.
Afgreiðsla
RNSA barst svar frá Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu með bréfi dagsett 31. ágúst 2018.
Þar kom m.a. fram að stefnt væri að framlagningu grumvarps um heildarendurskoðun umferðarlaga þar sem nánari ákvæðum um þjálfun í ökugerði verði bætti við umferðarlög. Þá yrði gert ráð fyrir því að ráðherra setji nánari akvæði í reglugerð í kjölfarið.
RNSA sendi svarbréf til ráðuneytisins dagsett þann 4. október 2018
Í svari RNSA kom fram að nefndin teldi svar ráðuneytisins ekki fullnægjandi þar sem viðbrögð ráðuneytisins væru háð samþykkt umferðarlaga sem háð væri óvissu og ekki lægi fyrir hvernig ráðuneytis hyggðist útfæra kröfu um þjálfun í ökugerði yrðu lögin samþykkt