Akstur við erfiðar aðstæður

Akstur við erfiðar aðstæður

Umferð
Nr. máls: 2016-150U27
Staða máls: Opin
28.03.2018

Tillaga í öryggisátt

Á undanförnum árum hefur ökunám tekið miklum breytingum. Ökunámið hefur lengst og ýmsar nýungar verið teknar upp, s.s. æfingarakstur og námskeið í ökuskóla. Alls eru námskeiðin í ökuskóla orðin þrjú. Þriðja námskeiðið í ökuskóla fer fram í ökugerði, helst undir lok námsins. Þar fá nemendur að kynnast hættulegum akstursskilyrðum, hvernig aksturseiginleikar breytast þegar veggrip minnkar og hvernig á að forðast að bifreið fari að skríða til.

 

Í 11. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 er umsækjendum um almenn ökuréttindi (B- flokk) gert skylt að sækja fyrrnefnt námskeið áður en ökuprófi er lokið. Hins vegar hefur uppbygging á ökugerðum tafist  fyrir æfingarbrautir á Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Ökunemar, búsettir á þessum svæðum, fá af þeim sökum undanþágu frá því að taka ökuskóla þrjú áður en þeir fá bráðabirgðaskírteini. Þeir þurfa hins vegar að ljúka námskeiðinu áður en þeir fá fullnaðarskírteini afhent. Ökumaðurinn í því slysi sem hér er fjallað um hafði ekki lokið ökuskóla þrjú.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að fella endanlega niður ákvæði til bráðabirgða um undanþágu frá þjálfun í ökugerði í reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum.

 

 

Afgreiðsla

Rannsóknarnefndinni barst svar frá samgöngu- og sveitastjórnunarráðuneytinu vegna tillögunnar þann 31. september 2018

Í svari ráðuneytisins kemur fram að tímasetning bráðabirgðaákvæðisins hafi verið framlengd fimm sinnum frá setningu reglugerðarinnar. Það hafi verið gert vegna þess að eftir að ákvæðið tók gildi varð ljóst að að ökugerði yrðu ekki starfrækt í öllum landshlutum. Eitt ökugerði sé starfrækt utan höfuðborgarsvæðisins en það sé óstarfrækt yfir vetrartímann vegna frosta og snjóa.

Í svarinu kemur fram að stefnt sé að framlagningu frumvarps um heildarendurskoðun umferðarlaga á næsta löggjafarþingi. Verði frumvarpið samþykkt sé stefnt að því að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um þjálfun í ökugerði. Þetta myndi veita ráðuneytinu aukið svigrúm við að útfæra þessa kröfu þannig að staða ökunema á landinni öllu sé sem jöfnust.

Rannsóknarnefndin fagnar því sem fram kemur í bréfinu um að útfæra eigi kröfur þannig að staða ökunema á landinu verði sem jöfnust.

Heildarendurskoðun umferðarlaga er háð óvissu og ekki liggur fyrir með hvaða hætti ráðuneytið hyggst útfæra kröfu um þjálfun í ökugerði verði lögin samþykkt. Nefndin hefur upplýst ráðuneytið að nefndin telji þessi viðbrögð ekki fullnægjandi og verður tillögunni haldið opinni.