Skoðun ökutækja
Tillaga í öryggisátt
Niðurstaða rannsóknar á ökutækjunum var m.a. sú að líkur eru á að hemlakerfi beggja bifreiða hafi verið í bágbornu ástandi þegar aðalskoðun var framkvæmd skömmu áður en slysið átti sér stað. Ástand hemlakerfanna bendir því til þess að vafi leiki á því hvort bifreiðarnar hefðu átt að fá fulla skoðun.
Í 34 gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009 með síðari breytingum er Samgöngustofu gert að hafa eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók. Í 3. mgr. sömu greinar er Samgöngustofu gert skylt að setja nánari verklagsreglur um eftirlitið. Við rannsókn málsins kom í ljós að slíkar verklagsreglur hafa ekki verið settar.
Beinir nefndin því til Samgöngustofu að vinna þessar verklagsreglur. Beinir nefndin því einnig til Samgöngustofu að ítreka við skoðunarstofur mikilvægi þess að öryggisbúnaður bifreiða sé skoðaður á fullnægjandi hátt.