Skráning og eftirlit með snjómokstursbúnaði á ökutækjum

Skráning og eftirlit með snjómokstursbúnaði á ökutækjum

Umferð
Nr. máls: 2020-001U001
Staða máls: Lokuð
Farðu í skýrslu 18.03.2021

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að Samgöngustofa og Vinnueftirlitið taki til skoðunar öryggismál varðandi snjómokstursbúnað á ökutækjum.

Eftirfylgni og skoðanir á snjómokstursbúnaði eru hvorki á vegum Samgöngustofu né Vinnueftirlitsins eins og öðrum búnaði ökutækja.

Vörubifreiðar og vinnuvélar með snjómokstursbúnað geta verið hættulegar öðrum ökutækjum og vegfarendum í umferðinni. Almennt er þessi búnaður ekki hannaður með árekstrarkröfur í huga. Hættan eykst við aukinn ökuhraða og mikla umferð og ber að fara sérstaklega gætilega þar sem verið er að nota snjóruðningstæki af hvaða gerð sem er.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er nauðsynlegt að skrá snjómokstursbúnað og snjótennur á vörubifreiðar en það hafði ekki verið gert. Við skráningu er litið til þess að framás og hjólbarðar hafi nægan burð fyrir búnaðinn. Þá er heimilt að hafa auka ljósabúnað á slíkum ökutækjum. Fyrir skráningu þarf að skoða bifreiðina og búnaðinn í skoðunarstöð. Þetta birtist í skráningarskírteini sem aukabúnaður. Snjómokstursbúnaðurinn sjálfur er ekki hluti af þessari skoðun, og er einungis ljósabúnaður snjótannarbúnaðarins tekinn út við skráningarskoðunina en ekki ástand eða útfærsla búnaðarins.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Samgöngustofu (SGS) til nefndarinnar, dagsett 2. júlí 2021, var RNSA tilkynnt um að SGS mun hefja vinnu í samráði við Vinnueftirlitið um snjómokstursbúnað þar sem sérstaklega verða til umfjöllunar mögulegar leiðir til að auka öryggi við snjómokstur.