2023 Síða 2

Eftirlit með þrýstigeymum

Umferð
Nr. máls: 2023-018U004
Staða máls: Lokuð
13.04.2023

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja og verklag á skoðunarstofum við skoðun á þrýstigeymum ökutækja.  Jafnframt að upplýsa eigendur slíkra ökutækja um þessa hættu.

Að mati RNSA er hér um að ræða mikilvæga öryggisráðstöfun því ekki er hægt að útiloka að í umferð séu bifreiðar með þrýstigeyma sem eru orðnir tærðir þannig að hætta sé á samskonar sprengingu. Af þeim sökum er mikilvægt að yfirfara reglulega eldsneytiskerfi allra bifreiða sem búnar eru þrýstigeymum og skipta um búnað sem er úr sér genginn.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru 2.267 ökutæki í umferð sem skráð eru með metan sem orkugjafa í ökutækjaskrá. Að mati RNSA er mikilvægt, að allir eigendur ökutækja sem búin eru  metanþrýstigeymum verði upplýstir um þessa hættu.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur brugðist við tillögu RNSA í öryggisátt:

Að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja gagnvart þrýstigeymum ökutækja.

Ný skoðunarhandbók tók gildi þann 1. mars 2023. Í henni eru gerðar strangari kröfur til dæminga þegar upp koma frávik er varða þrýstigeyma í ökutækjum. Breytingin er að nú er dæmt í 1 þegar frágangur er ófullnægjandi og hætta er á skemmdum (en engar skemmdir orðnar ennþá), annars dæmt í 2 á ýmis frávik og dæmt í 3 (notkun bönnuð) ef styrkleikaskemmdir sjást á geymi, gildistími þrýstigeyma er útrunninn (eða upplýsingar vantar eða ófullnægjandi) eða viðurkenningarmerkingar vantar eða ófullnægjandi. Samgöngustofa yfirfór þessar dæmingar í tilefni af þessu atviki og telur að hin nýja handbók taki með fullnægjandi hætti á skoðun og dæmingum þeirra.

Að yfirfara verklag skoðana á skoðunarstofum gagnvart þrýstigeymum ökutækja

Í kjölfar sprengingarinnar bjó Samgöngustofa til öryggistilkynningu inn í sérstakan kafla í skoðunarhandbók ökutækja. Samgöngustofa hélt einnig fund með tæknilegum stjórnendum skoðunarstöðva til að fara yfir málið. Samgöngustofa óskaði þar sérstaklega eftir því að skoðunarstöðvar pössuðu vel upp á skoðun þrýstigeyma og myndu árétta verklagið við sína skoðunarmenn.

Að upplýsa eigendur ökutækja sem útbúnir eru með þrýstigeyma um þessa hættu

Samgöngustofa birti frétt á heimasíðu stofnunarinnar fljótlega eftir atvikið og var henni einnig deilt sem fréttatilkynningu til fréttamiðla. Samgöngustofa er að ljúka þróun rafrænnar leiðar til að senda eigendum ökutækja skilaboð og mun nýta þá leið til að koma beinum boðum til þeirra þegar hún kemst í gagnið.