Áhættumat og öryggisáætlun
Tillaga í öryggisátt
Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn slysum. Beinir nefndin þeirri tillögu til rekstraraðila vörubifreiðarinnar að framkvæma áhættumat og öryggisáætlun fyrir starfsemi fyrirtækisins.
Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í því felst m.a. gerð áhættumats. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan- eða utanhúss, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að slíkar áætlanir taki til ökutækja sem notuð eru í atvinnustarfsemi, settir séu staðlar um ástand þeirra og akstursleiðir áhættumetnar. Við eftirgrennslan hafði rekstraraðili vörubifreiðarinnar ekki unnið öryggis- og heilbrigðisáætlun innan fyrirtækisins. Slík áætlun ætti t.d. að taka á því hvernig meta á akstursaðstæður, s.s. veðuraðstæður, og við hvaða skilyrði ætti alltaf að breyta frá ferðaáætlun og ferðatíma.
Afgreiðsla
Í bréfi dags 22. mars 2022 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að fyrirtækið hafi breytt verkferlum. Starfsmönnum hafi verið sérstaklega kynnt vindaviðmið og aðrir þættir sem snúa að öryggismálum tengdum skýrslu nefndarinnar.