Forvarnir um svefn og þreytu hjá ökumönnum

Forvarnir um svefn og þreytu hjá ökumönnum

Umferð
Nr. máls: 2022-043U006
Staða máls: Lokuð
Farðu í skýrslu 24.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að leggja áherslu á forvarnir vegna svefns og þreytu ökumanna.

Ökumaður bifreiðarinnar í þessu slysi kom til landsins með flugi aðfararnótt 15. júní og slysið varð um miðjan dag þann 16. júní. Tímamismunur og næturflug gerir það að verkum að margir farþegar eru þreyttir við komuna til landsins og áfram næstu daga, ef ekki næst nægjanleg hvíld.

Upplýsingar er varða almennt um þau áhrif og þær hættur sem þreyttir ökumenn skapa í umferðinni eru mikilvægar og geta um leið sýnt hvernig er hægt að bregðast við slíkri þreytu. Í rannsóknum hefur komið fram að þreyttir ökumenn geta verið jafn hættulegir og ölvaðir ökumenn í umferðinni. Evrópska umferðaröryggisráðið hefur staðfest að svefnleysi og þreyta sé veigamikill orsakaþáttur í minnst fimmta hverju umferðaslysi.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur verið með verkefnið "Nap and Go" þar sem ferðamönnum er boðin gisting á hóteli á góðum kjörum nálægt Keflavíkurflugvelli á milli kl. sex og tólf sama morgun og þeir lenda á Íslandi.

Ferðamenn eru nú einnig varaðir við hættunni sem getur falist í að keyra eftir lítinn svefn á síðunni safetravel.is og á stýrisspjaldi sem bílaleigum er afhent. Mun Samgöngustofa leitast eftir því að undirstika þessa hættu enn frekar á komandi mánuðum.  Þá mun Samgöngustofa framleiða nýja fræðslumynd um svefn og þreytu við akstur og mun samhliða útgáfu hennar halda málþing um málefnið.

Árið 2025 mun Samgöngustofa setja fjármagn í að útbúa nýja auglýsingaherferð sem verður í takti við eldri herferð þar sem fólk er hvatt til að leggja bílnum þegar það er þreytt og leggja sig í 15 mínútur áður en lengra er haldið.