Fræðsla um veðurfræði
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að útbúa fræðsluefni fyrir ökumenn um notkun veðurviðvarana, veðurspáa og annarra veðurgagna.
Veðuraðstæður eru breytilegar á Íslandi og reglulega koma lægðir að eða fara yfir landið sem geta skapað vegfarendum hættu. Lögð hefur verið áhersla á mikilvægi þess að vegfarendur fylgist vel með veðurspám og veðurviðvörunum, en að mati RNSA er þörf fyrir aðgengilegt fræðsluefni um notkun veðurupplýsinga og þá sérstaklega veðurviðvarana. Hvar þær er að finna, hvað þær þýði og mismunandi áhrif á mismunandi farartæki. RNSA leggur enn fremur til, að við þessa vinnu sé skoðað hvort tilefni sé til að taka þennan þátt til endurskoðunar í ökunámi, bæði fyrir almenn ökuréttindi sem og aukin.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 13. júní 2023 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að Samgöngustofa hefur áður útbúið efni þar sem fram koma viðmið um hvaða viðbrögð eru æskileg við ákveðnar veðuraðstæður, þá einkum og sér í lagi með tilliti til vindstyrks. Voru það veggspjöld en Samgöngustofa hefur einnig útbúið nýja vefsíðu: https://island.is/ferdast-i-vondu-vedri-miklum-vindi-eda-slaemri-faerd þar sem teknar eru saman nokkrar vefsíður með upplýsingum um veður, vind og færð og hvernig sé best að lesa úr þeim. Á sömu síðu eru svo tekin saman þau viðmið sem æskilegt er að fara eftir er varðar vind og akstur. Samgöngustofa hefur nú í vor 2023 kynnt þessa síðu sérstaklega til þeirra fyrirtækja sem aka á stórum ökutækjum á þjóðvegum landsins, sem eru t.d. hópferðafyrirtæki, flutningafyrirtæki og olíuflutningafyrirtæki.
Einnig kemur fram í sama svari Samgöngustofu hvað varðar fræðsluefni í ökunámi og bendir þar á að slíkt sé í núverandi námskrá fyrir almenn ökuréttindi og að einnig sé fjallað um slíkt í námi um aukin ökuréttindi. Því telji Samgöngustofa ekki ástæðu til að endurskoða námskrár í ökunámi en stofnunin muni ítreka mikilvægi þess við þá sem sjá um kennslu í ökunámið að farið sé vel yfir þessa þætti. Í því sambandi verður bent á efnið sem fræðsludeild Samgöngustofu hefur útbúið varðandi vinda og veðurástæður hér að ofan. Auk þess hefur Samgöngustofa í hyggju að fylgjast sérstaklega með vægi þessa þáttar í ökunámi.