Heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að vinna að heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir á vegakerfi landsins. Einnig að endurskoða/yfirfara verklag og kostnaðarlíkön við ákvarðanir á gerð slitlags á vegi nr. 1 meðal annars að teknu tilliti til möguleika á fræsun riffla og áhrifa þeirra á umferðaröryggi.
Vegflokkar eru fjórir, stofnvegir, tengivegir, héraðsvegir og landsvegir. Vegtegundir eru A, B, C og D. Á slysstað er vegflokkurinn stofnvegur og hluti hringvegar um landið en breidd slitlags féll undir vegtegund C7 þar sem slitlag var 6 metrar á breidd. Vegtegund C7 skal ekki nota sem stofnvegi en nokkuð er um eldri vegi sem ekki falla að núgildandi hönnunarreglum Vegagerðarinnar. Umferðarrýmd C7 vegtegunda er ÁDU ≤ 500 ökutæki á sólarhring en á hringvegi nr. 1 er ÁDU > 501 ökutæki á sólarhring nema á stöku stað á Austfjörðum. Þar sem klæðning er notuð sem bundið slitlag er ekki hægt að fræsa rifflur í vegi. Síðastliðin 10 ár hefur álagið á stofnvegum landsins aukist talsvert, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna, sem huga þarf að við val á tegund af bundnu slitlagi.
Afgreiðsla
Vegagerðin vinnur nú að heildstæðu umferðaröryggismati á vegakerfinu og gert er ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu árið 2025. Í undirbúningi þess verkefnis hefur verið unnið að kortlagningu á raunverulegri breidd vega sem m.a. liggja til grundvallar varðandi flokkun vega m.t.t. umferðaröryggis. Vegagerðin hefur ákveðið að birta í vegaskrá upplýsingar um raunverulega vegtegund vega. Með því að flokka vegakerfið í heildstæðu umferðaröryggismati og birta upplýsingar um áætlaða vegtegund hvers kafla á vegkerfinu verða til betri upplýsingar um raunverulega stöðu vegakerfisins
Í samræmi við greiningu frá árinu 2010, sem byggði á mati á stofn- og viðhaldskostnaði í tengslum árherslur við val á gerð slitlaga, geti mörkin við malbiksslitlag verið á bilinu 2.000 til 5.000 ökutæki / sólarhring. Vegagerðin stefnir að því að endurskoða þessi viðmið þar sem auk mats á viðhalds- og stofnkostnaði verði horft til kostnaðar vegfarenda og samfélagslegs kostnaðar vegna slysa.
Vegagerðin bendir á að þó að viðmið varðandi gerð slitlaga verði gerð eru það fyrst og fremst fjárveitingar til viðhalds þjóðvega sem hafa áhrif á það hversu hratt gengur en á undanförnum árum hafa fjárveitingar til viðhalds á vegakerfinu verið töluverð innan við viðhaldsþörf.