2024 Síða 2

Stuðningur við innleiðingu nýs vottorðseyðublaðs

Umferð
Nr. máls: 2023-019U005
Staða máls: Opin
16.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til innviðaráðuneytisins að styðja Samgöngustofu við þróun og innleiðingu á nýju eyðublaði um læknisvottorð sem snýr að því mati hvort umsækjendur um ökuskírteini fullnægi III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og kveðið er á um í 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum, og leita í því skyni, ef þörf er á, aðstoðar annarra ráðuneyta og undirstofnana þeirra.

Drög að nýju vottorðseyðublaði vegna læknisskoðunar fyrir veitingu eða endurnýjun ökuréttinda hafa verið í vinnslu hjá Samgöngustofu. Gildandi vottorðseyðublað er áratuga gamalt og þarfnast endurnýjunar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að innviðaráðuneytið styðji Samgöngustofu við þróun og framkvæmd á innleiðingarferli á nýju vottorðseyðublaði og sjái til þess að stofnunin fái þann stuðning sem hún þarf við verkefnið, m.a. frá öðrum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.

Afgreiðsla

23-043U007T3. Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
Staða máls: Opin
24.09.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytisins að setja í  reglugerð ákvæði um flokkun, gerð og notkun öryggis- og verndarbúnaðar óvarinna vegfarenda sbr. 4. mgr. 79. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum.

Ákvæði 78. og 79. gr. umferðarlaga fjalla takmarkað um öryggis- og verndarbúnað við akstur bifhjóla og torfærutækja. RNSA telur þörf á ítarlegri reglugerðarákvæðum um hlífðarbúnað óvarinna vegfarenda annarra en gangandi.

Afgreiðsla

23-071U015T01. Öryggisáætlun við framkvæmdir

Umferð
Nr. máls: 2023-071U015
Staða máls: Opin
08.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Hafnarfjarðarbæjar að við framkvæmdir sem eru á eða við akbraut þá sé tryggt að unnin sé öryggisáætlun sem verndar umferð óvarinna vegfarenda gegn umferð þungra ökutækja og henni sé fylgt eftir með viðeigandi aðgerðum.

Fram kemur í reglugerð um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir nr. 492/2009 að veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar og öllum þeim vegmerkingum og útbúnaði sem er til staðar í því vegakerfi sem hann hefur umsjón með og rekur.

Þá segir í sömu reglugerð að áður en framkvæmdir hefjast á og við veg skuli verktaki gera ítarlega öryggisáætlun þar sem lýst er nauðsynlegum öryggisráðstöfunum vegna framkvæmdanna. Þar komi meðal annars fram hvernig afmarka skuli vinnusvæði, hvernig merkingum á og við svæðið skuli háttað og hvort og hvernig skipuleggja skuli hjáleiðir. Þá skal verktaki bera öryggisáætlun undir veghaldara til samþykkis og skal samþykkt eintak öryggisáætlunar vera tiltækt á vinnusvæði og hjá lögreglu í viðkomandi lögsagnarumdæmi. Í þessu tilviki var umferð atvinnutækja um syðri hluta Ásvalla vegna byggingarframkvæmda á tveimur aðskildum byggingasvæðum blandað saman við umferð gangandi og hjólandi vegfarenda sem meðal annars voru á leið til og frá íþróttamiðstöð, sparkvöllum og sundlaug í nágrenninu með tengingu við íbúðarhverfi sunnan og vestan Ásvalla.

Afgreiðsla

23-071U015T02. Umferðaröryggisáætlun

Umferð
Nr. máls: 2023-071U015
Staða máls: Opin
08.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Hafnarfjarðarbæjar að uppfæra fyrirliggjandi umferðaröryggisáætlun og þar með framkvæmdaáætlun og forgangsverkefni sem tengjast umferðaröryggi í bæjarfélaginu.

Umferðaröryggisáætlun Hafnarfjarðarbæjar er til í drögum frá árinu 2018 með gildistíma frá 2018 til 2022. Með uppfærslu áætlunarinnar gæti gefist tækifæri á greiningum leiða óvarinna vegfarenda frá íþrótta- og tómstundastarfi auk uppfærslu skoðunar á stöðu leiða óvarinna vegfarenda frá skólum innan sveitarfélagsins. Í þessu slysi var óvarinn ungur vegfarandi á reiðhjóli á leið frá íþróttaiðkun.

Afgreiðsla

23-066U013T01. Skráningarskylda vinnuvéla

Umferð
Nr. máls: 2023-066U013
Staða máls: Opin
10.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til eiganda/umráðamanns vinnuvélarinnar að tryggja að allar skráningarskyldar vinnuvélar hans, sem eru í akstri á opinberum vegum, séu rétt skráðar.

Umrædd vinnuvél var ekki skráð í ökutækjaskrá, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003 með áorðnum breytingum, þrátt fyrir að vera notuð í almennri umferð. Samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019 með síðari breytingum ber eigandi (umráðamaður) ábyrgð á skráningu þess í ökutækjaskrá og að skráningarmerki sé sett á það áður en það er notað í almennri umferð.

Afgreiðsla

23-066U13T02. Öryggisúttekt á gatnamótunum

Umferð
Nr. máls: 2023-066U013
Staða máls: Opin
10.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á gatnamótum Vonarstrætis og Lækjargötu.

Talsverð umferð allra vegfarendahópa er um gatnamót Lækjargötu og Vonarstrætis. Aðstæður eru þröngar fyrir ökumenn stórra ökutækja að taka hægri beygjur á þessum gatnamótum. Einnig getur sýn ökumanna við vinstri beygju af Vonarstræti verið takmörkuð.

Afgreiðsla

23-066U13T03 Yfirfara verklag um skoðanir og skráningar vinnuvéla

Umferð
Nr. máls: 2023-066U013
Staða máls: Opin
10.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vinnueftirlitsins og Samgöngustofu að yfirfara verklag um skoðanir og skráningar á vinnuvélum sem eru notaðar í almennri umferð.

Hlutverk Vinnueftirlitsins er að skoða og skrá vinnuvélar. Samningur er á milli Samgöngustofu og Vinnueftirlits um skráningar á vinnuvélum í ökutækjaskrá sem notaðar eru í almennri umferð. Við rannsókn slyssins kom í ljós að skráningum þeirra vinnuvéla sem skráðar eru í ökutækjaskrá var áfátt. Vinnueftirlitið sendir slíkar upplýsingar til Samgöngustofu en ökutækjaskrá er á ábyrgð hennar. Þá er það á ábyrgð eigenda/umráðamanns vinnuvélar að skrá hana í ökutækjaskrá, eigi að nota hana í almennri umferð.

Afgreiðsla