Bætt öryggi vegfarenda við listaverk á hafnarsvæði
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að greina og útfæra breytingar til að tryggja öryggi vegfarenda á svæðinu við listaverkið eggin við Víkurland.
Blandað er saman umferð ferðamanna og þungrar atvinnustarfsemi án varanlegrar aðgreiningar með tilliti til umferðaröryggis á svæðinu við listaverkið. Um Víkurland er talsverð umferð, bæði atvinnutækja sem og annarra ökutækja en samkvæmt talningu Vegargerðarinnar var ársdagsumferð á milli hafnarsvæða á Djúpavogi 430 ökutæki árið 2022. Umferð ferðamanna um svæðið hefur aukist mikið undanfarin ár, sérstaklega með komu skemmtiferðaskipa og telur nefndin því mikilvægt að greina og útfæra varanlegar breytingar á svæðinu annars vegar að teknu tilliti til umferðar gangandi vegfarenda og hins vegar að teknu tilliti til umferðar ökutækja.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 24. apríl 2024 er nefndinni tilkynnt að sveitarfélagið Múlaþing hafi þegar brugðist við tillögu nefndarinnar. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við gerð gangstéttar í Gleðivík á vormánuðum 2024 sem munu afmarka á skýran hátt aksturs- og gönguleiðir á svæðinu. Áætluð verklok eru í október 2024.