Tillögur í öryggisátt Síða 2

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Hafnarvegur við Stekkakeldu

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Lokuð
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Stöðvun bifreiða á þjóðvegum skapar hættu. Nauðsynlegt getur verið að stöðva ökutæki á þjóðvegum og þurfa allir ökumenn að vera við því búnir að bregðast við ef fyrirstaða er á veginum fyrir framan, t.d. bifreið eða dýr. Hins vegar skapar það hættu að stöðva ökutæki á akbraut og ökumenn ættu ávallt að leggja utan akbrautar. Víða eru þjóðvegir á Íslandi ekki breiðari en svo að ekki er hægt að stöðva ökutæki úti í vegkanti án þess að hluti þeirra standi inn á akbrautinni. Í 27. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökumaður skuli ekki stöðva ökutæki á þeim stað eða þannig að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferð. Þekkt er m.a. að ferðamenn stöðvi bifreiðar sínar á vegum til þess að taka myndir sem getur skapað verulega hættu í umferðinni. Leggur nefndin því til við Samgöngustofu að koma því á framfæri við ökumenn, m.a. erlenda ferðamenn, að alvarleg hætta skapast þegar ökutæki er stöðvað á þjóðvegi.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur í framhaldi af tillögu RNSA sent bréf til allra ökutækjaleiga þar sem m.a. er farið yfir þær upplýsingaskyldur sem þær hafa samkvæmt lögum. Meðfylgjandi bréfinu var spurningalisti þar sem fyrirtækin voru beðin að svara hvernig m.a. upplýsingagjöf er háttað til viðskiptavina og fleira. Samgöngustofa mun svo í framhaldinu vinna úr þeim svörum og meta hvar útbóta er þörf. Í sumar mun Samgöngustofa með ýmsum hætti koma ábendingum á framfæri við ökumenn um þá hættu sem skapast þegar ökutæki er stöðvað á akbraut. 

Hafnarvegur við Stekkakeldu (1)

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Lokuð
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Hemlar eftirvagna Í nokkrum slysum sem Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað hefur komið í ljós að hemlar eftirvagna vörubifreiða hafa verið í ólagi. Í október 2007 var farið í sérstakt umferðareftirlit með vörubifreiðum og niðurstöður úr því eftirliti voru að af 10 festi- og tengivögnum voru einungis tveir í fullkomnu lagi, sjö fengu endurskoðun og tveir lagfæringu. Bendir þessi niðurstaða sem og niðurstöður úr rannsóknum banaslysa að viðhaldi og eftirliti sé ábótavant. Í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Eyrarbakkavegi við Kaldaðarnesveg í apríl 2008 birti nefndin ábendingu varðandi þetta atriði og ítrekar nú mikilvægi þess að reglulega sé fylgst með ástandi eftirvagna. Nefndin hvetur eigendur til að skoða verklag hjá sér sem og til þess að vegaeftirlit Lögreglunnar taki þetta atriði til sérstakrar skoðunar.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Lögreglustjóranna á Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Vesturlandi, dagsettu 3. maí 2016, er lagt til að keyptur verði færanlegur rúlluhemlaprófari til notkunar fyrir vegaeftirlit lögreglu. Einnig er lagt til að eigendum stærri ökutækja og bifreiða sem notaðar eru í atvinnuskyni verði gert að færa þær til skoðunar á 40.000 km fresti, eða að lágmarki tvisvar á ári. Útprentun á hemlaprófi verði látið fylgja skoðunarvottorði og fjölga þurfi eftirlitsstöðum vegaeftirlitsins sem og að lagfæra þurfi núverandi staði. 

Hafnarvegur við Stekkakeldu (2)

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Opin
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Meðferð slasaðra eftir háorkuáverka Farþeginn í Toyota sendibifreiðinni var tekinn til skoðunar strax eftir slysið á heilsugæslu og virtist hann ekki mikið slasaður. Fylgst var með honum í nokkurn tíma og fékk hann aðhlynningu. Hann fékk síðan að fara til síns heima en leitaði aftur á heilsugæslu morguninn eftir mikið kvalinn. Við nánari skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að hann hafði hlotið alvarlega áverka sem ekki höfðu verið greindir deginum áður. Áreksturinn fellur samkvæmt skilgreiningu Landlæknis undir háorkuáverka. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa ætti ávalt að flytja slasaða sem falla undir þá skilgreiningu á sjúkrahús þar sem góð greiningar- og meðferðaraðstaða er fyrir hendi til að meðhöndla áverka sem af slíkum slysum geta hlotist. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Landlæknis að þessi vinnuregla sé viðhöfð.

Afgreiðsla

Útnesvegur við Hellissand

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
Staða máls: Lokuð
01.09.2016

Tillaga í öryggisátt

Hámarkshraðaskilti

Í 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökuhraði megi ekki vera meiri en 50 km/klst í þéttbýli nema annað sé tekið fram. Ekkert hámarkshraðaskilti er við þéttbýlisskiltið við þjóðveg 574 við eystri mörk Hellissands. Samkvæmt reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995 með síðari breytingum, ber að nota þéttbýlisskilti við akstursleiðir inn á svæði þar sem ákvæði umferðarlaganna um þéttbýli gilda. Því gildir 50 km/klst. hámarkshraði þar sem slysið varð þó svo að ekkert hámarkshraðaskilti gefi það til kynna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa gefur þetta slys tilefni til að yfirfara hraðamerkingar við þéttbýlismörk og samræma því finna má fleiri staði sambærilega þessum á þjóðvegakerfinu.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þessari tillögu til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að táknmyndin á þéttbýlisskiltinu D12.11 sé svipuð og finna má í nokkrum Evrópulöndum, en að auki hefur Vegagerðin sett upp upplýsingamerkið D20.11, hámarkshraðaupplýsingar. Á því skilti er tafla með hámarkhraðaupplýsingum, m.a. hver hámarkshraðinn er í þéttbýli. Vegagerðin telur mikilvægt að ferðamenn séu vel upplýstir um hvaða reglur gilda um hámarkshraða hér á landi og mun benda þeim aðilum, sem hafa umsjón með fræðsluefni sem ferðamönnum er afhent á bílaleigum, á þetta atriði. Vegagerðin mun einnig taka til skoðunar hvort fjölga þurfi upplýsingamerkjum af gerðinni D20.11.

Útnesvegur við Hellissand (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
Staða máls: Lokuð
01.09.2016

Tillaga í öryggisátt

Yfirborðsmerkingar
Í handbók Vegagerðarinnar um yfirborðsmerkingar frá janúar 2006 er þess getið að á vegi með árdagsumferð (ÁDU) 500 til 1000 ökutæki á sólarhring skal haft til viðmiðunar að miðlína sé sprautumössuð einu sinni á ári eða sjaldnar eftir þörfum og kantlína máluð annað hvert ár. Árdagsumferð á Útnesvegi milli Hellissands og Rifs var skv. umferðartölum 2014 709 ökutæki á sólarhring. Í svari veghaldara við fyrirspurn RNSA um viðhald yfirborðsmerkinga á Útnesvegi kom fram að verið var að mála miðlínur sama dag og slysið átti sér stað en kantlínur hafi ekki verið málaðar á þessum stað. Miðlínan var máluð í september 2014.

Rannsóknir sem nefndin hefur kynnt sér benda til þess að öryggisávinningur þess að vera með kantlínu á mjóum vegum sé jákvæður1. Kantlínur auðvelda ökumönnum að átta sig á legu vegar og akreina.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að endurskoða tíðni og framfylgja verklagi yfirborðsmerkinga á Útnesvegi í ljósi sívaxandi umferðar.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 tekur stofnuninn undir með RNSA að kanntlínur auki umferðaröryggi en vegna fjárskorts hefur Vegagerðin ekki getað málað kanntlínur í eins miklu mæli og æskilegt hefði verið. Í sumar hafi þó verið bætt í og nokkrir vegir málaði sem ekki höfðu kanntlínur áður, m.a. Snæfellsnesvegur frá Stykkishólmi vestur fyrir Hellissand. Vegagerðin mun leita allra leiða til að fá aukið fjármagn til yfirborðsmerkinga, þ.m.t. til málunar kantlína. 

Suðurlandsvegur Hólá

Umferð
Nr. máls: 2015-177U023
Staða máls: Lokuð
06.10.2016

Tillaga í öryggisátt

Útrýming einbreiðra brúa á helstu vegum

Margar einbreiðar brýr má finna á íslenska þjóðvegakerfinu. Einbreiðar brýr skapa ávallt hættu, sérstaklega á vegum þar sem hraði er mikill. Einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum en því miður eru nú alls 698 einbreiðar brýr lengri en 4 metrar á þjóðvegum landsins. Þar af eru nokkrir tugir á hringveginum og er meðalaldur þeirra um 50 ár. Í samgönguáætlun 2011 – 2022 er sett það markmið að útrýma einbreiðum brúm á vegum með meðaltalsumferð á dag yfir 200 (ÁDU).

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til innanríkisráðherra að hann beiti sér sérstaklega fyrir því að nægu fé verði veitt til þess að ná markmiðum samgönguáætlunar.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Innanríkisráðuneytisins dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að Alþingi hafi samþykkt þann 12. október 2016 tillögu Innanríkisráðherra um aukið fé til breikkunar brúa í samgönguáætlun. Samkvæmt henni mun 1.600 milljónum kr. verða veitt á árunum 2017 og 2018 til þessa verkefnis. 

Suðurlandsvegur Hólá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-177U023
Staða máls: Lokuð
06.10.2016

Tillaga í öryggisátt

Betri merkingar við einbreiðar brýr

Þó svo að markvisst verði unnið að því að fækka einbreiðum brúm þá mun verkefnið taka nokkurn tíma. Mikil fjölgun hefur orðið á komum erlendra ferðamanna á undanförnum árum og spár gera ráð fyrir áframhaldandi aukningu ferðamanna. Á örfáum árum hefur umferð yfir brúna yfir Hólá aukist hratt, sennilega mest vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Meðaltalsumferð á sólarhring að vetrarlagi var rétt rúmlega 100 ökutæki árið 2011 en tæplega 300 árið 2015. Meðaltalsumferð að sumarlagi á sólarhring árið 2015 voru tæp 1300 ökutæki. Því er nokkuð ljóst að á komandi árum mun mikill fjöldi ökumanna, sem ekki eru staðkunnugir og hafa jafnvel aldrei áður ekið yfir einbreiðar brýr á þjóðvegum, aka um vegi landsins.

Af þeim sökum er afar mikilvægt að merkja einbreiðar brýr vel, með góðum fyrirvara og jafnvel lækka hámarkshraða. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að yfirfara þessi mál með erlenda ferðamenn í huga.  

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 18. nóvember 2016 kemur fram að nú þegar hefur verið brugðist við með því að bæta við merkingum í 500 metra fjarlægð og blikkljósum fjölgað við einbreiðar brýr. Merkin hafa verið stækkuð, endurskin aukið og yfirborðsmerkingar yfirfarnar. Sérstök áhersla er lögð á brýr á Suðurlandsvegi að Höfn í Hornafirði í ljósi mikillar aukningar á umferð á þeim vegkafla en áfram verður unnið að sambærilegum breitingum víðar á landinu í framhaldinu.  

Brú yfir Vatnsdalsá

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Kennsla til meiraprófs

Í gildi eru námskrár bæði fyrir vörubifreiðaréttindi og endurmenntun bílstjóra. Þar er farið yfir þau atriði sem skylt er að gera góð skil við kennslu til aukinna ökuréttinda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að mikilvægt er að ökumenn vörubifreiða sem og þeir sem þá hlaða, hafi þekkingu til að meta heildarþyngd vagnlestar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að yfirfara námskrár fyrir vörubifreiðaréttindi sem og fyrir endurmenntun bílstjóra með þetta atriði til hliðsjónar.

 

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Burðarþol brúa og útboðsgögn

Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að tryggt sé að brýr þoli þann þunga sem leyfður er. Við rannsókn þessa kom einnig í ljós að heilbrigðis- og öryggisáætlun sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits.

Nefndin leggur til við Vegagerðina að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar í ljósi þess að víða eru eldri brýr enn í notkun.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Áhættumat á ökuleiðum - öryggis- og heilbrigðisáætlanir

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggis- og heilbrigðisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn vinnuslysum og óhöppum.  Þá ber nauðsyn til að verktakar og ökumenn gæti að reglum um þyngd ökutækja með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðarmannvirki. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í grein 1.10 í útboðsgögnum vegna verksins var verktaka gert skylt að gera öryggisáætlun vegna framkvæmdanna. Í því felst m.a. gerð áhættumats og fleira. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Öryggis- og heilbrigðisáætlun var skilað inn til verkkaupa, en sú áætlunin var vegna annars verks. Engin áætlun var unnin fyrir þetta tiltekna verk. Samkvæmt áætluninni átti að skipa öryggisfulltrúa, halda kynningarfund í upphafi verks um öryggismál og útbúa forvarnaráætlun. Samkvæmt upplýsingum frá aðalverktaka var það ekki gert.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að gert sé áhættumat á ökuleiðum, m.a. burðarþoli brúa, vegna framkvæmda sem krefjast mikilla farmflutninga og/eða mikils aksturs. Einnig telur nefndin mikilvægt að gerð sé öryggisúttekt á vegum og brúm vegna framkvæmda. Beinir nefndin þessari tillögu til Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Afgreiðsla