Tillögur í öryggisátt Síða 4

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Vestdalseyrarvegur

Umferð
Nr. máls: 2015-U013
Staða máls: Lokuð
16.12.2016

Tillaga í öryggisátt

Dæming skoðunaratriða og skyldur umráðamanna ökutækja til lagfæringa

Við rannsókn slyssins á Vestdalseyrarvegi kom í ljós að leki var í höggdeyfum bifreiðarinnar. Athugasemdir höfðu verið gerðar við höggdeyfa bifreiðarinnar í aðalskoðun árin 2011, 2013 og 2014 en það ekki verið lagfært. Þegar gerð er svonefnd Athugasemd 1 við ástand bifreiðar í aðalskoðun er ekki gerð krafa um að komið sé með ökutæki í endurskoðun. Þrátt fyrir það ber eiganda/umráðamanni ökutækis að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun, innan mánaðar (reglugerð um skoðun ökutækja nr.8/2009)

Rannsóknarnefnd samgönguslysa brýnir fyrir eigendum ökutækja að virða niðurstöður aðalskoðunar og tryggja þannig að ökutæki séu í sem bestu ásigkomulagi. Einnig beinir nefndin því til Samgöngustofu að kanna hvort breyta þurfi reglugerð um skoðun ökutækja með það fyrir augum að umráðamenn fái ekki skoðun, ef þeir trassa ítrekað að lagfæra niðurstöður dæmingar 1.

 

Afgreiðsla

Í svarbréfi frá Samgöngustofu sem nefndinni barst 22. mars 2019 er nefndinni tilkynnt að unnið sé að útfærslu til þess að bregðast við því að ökutæki geti komist í gegn um skoðun ár eftir ár með sömu athugasemdina. 

Vestdalseyrarvegur (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-U013
Staða máls: Opin
16.12.2016

Tillaga í öryggisátt

Ástand malarvega og hámarkshraði

Þar sem bifreiðin fór út af veginum er mjög bratt fram af og vegurinn holóttur. Vegurinn og umhverfi hans er varasamt og ber að mati nefndarinnar ekki þann hámarkshraða sem heimilaður er á veginum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Vegagerðarinnar að skoða aðstæður, hvernig hættumerkingum er háttað og setja viðeigandi leiðbeinandi hámarkshraða. Nefndin bendir einnig á, að mikilvægt er að viðhald á malarvegum sé með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að djúpar og stórar holur myndist í hjólförum eins og raunin var á þessum stað. Rannsóknarnefndin gerði sambærilega tillögu í öryggisátt til Vegagerðarinnar vegna banaslyss sem varð á Mófellsstaðavegi í Borgarfirði 19.5.2012.

Afgreiðsla

Viðhald yfirborðsmerkinga

Umferð
Nr. máls: 2016-003U003
Staða máls: Lokuð
18.04.2018

Tillaga í öryggisátt

Þegar slysið átti sér stað voru engar miðlínur eða deililínur sjáanlegar á veginum. Samkvæmt upplýsingum frá veghaldara hefur ekki verið gerð umferðartalning á veginum í grennd við slysstað en þó er ljóst að talsverð umferð er um gatnamótin.

Mikilvægt er fyrir ökumenn að þeir geti auðveldlega áttað sig á legu akreina og leggur nefndin til við veghaldara að yfirfara verklag og viðhald yfirborðsmerkinga á Njarðarbraut.

Afgreiðsla

Veghaldari brást við þessari tillögu sumarið 2018 með því að mála miðlíinur og skerpa á örvamerkingum. 

Skoðun ökutækja

Umferð
Nr. máls: 2016-003U003
Staða máls: Opin
18.04.2018

Tillaga í öryggisátt

Niðurstaða rannsóknar á ökutækjunum var m.a. sú að líkur eru á að hemlakerfi beggja bifreiða hafi verið í bágbornu ástandi þegar aðalskoðun var framkvæmd skömmu áður en slysið átti sér stað. Ástand hemlakerfanna bendir því til þess að vafi leiki á því hvort bifreiðarnar hefðu átt að fá fulla skoðun.

Í 34 gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009 með síðari breytingum er Samgöngustofu gert að hafa eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók. Í 3. mgr. sömu greinar er Samgöngustofu gert skylt að setja nánari verklagsreglur um eftirlitið. Við rannsókn málsins kom í ljós að slíkar verklagsreglur hafa ekki verið settar.

Beinir nefndin því til Samgöngustofu að vinna þessar verklagsreglur. Beinir nefndin því einnig til Samgöngustofu að ítreka við skoðunarstofur mikilvægi þess að öryggisbúnaður bifreiða sé skoðaður á fullnægjandi hátt.

Afgreiðsla

Ólafsvíkurhöfn

Umferð
Nr. máls: 2016-007U005
Staða máls: Lokuð
15.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Hafnarkantur og bílastæði

Tilgangur hafnarkanta er að koma í veg fyrir að bifreiðar og önnur tæki geti auðveldlega farið fram af og ofan í sjó. Þeir eiga að þola ákeyrslu og vera málaðir ljósgulum lit til að vara fólk við. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Ólafsvíkurhafnar að varna því að snjór safnist við hafnarkantinn með framangreindum afleiðingum. Beinir nefndin því einnig til Vegagerðarinnar að senda þessa tillögu í öryggisátt til annarra hafna.

Þar sem bílastæði eru skipulögð upp við bryggjukanta eins og gert er á slysstað ætti að mati RNSA að gera ríkari kröfur um varnargildi hafnarkanta. Nefndin beinir því til Vegagerðarinnar að taka þetta atriði til skoðunar. 

Afgreiðsla

Í svarbréfi dagsettu 22. júní 2017 kemur fram að Vegagerðin hefur sent tillöguna áfram til Hafnarsambands Íslands. Vegagerðin mun hafa tillöguna til hliðsjónar við mannvirkjagerð á höfnum sem hún hefur aðkomu að.

Rifflur milli akstursátta

Umferð
Nr. máls: 2016-054U011
Staða máls: Lokuð
07.06.2018

Tillaga í öryggisátt

Veghaldari hefur látið fræsa rifflur á milli akstursátta í göngunum. Rifflur virka með þeim hætti að þær mynda hávaða/titring þegar ekið er yfir þær sem er ætlað að vara ökumann við því að bifreiðin sé að fara yfir miðlínu. Hávaði eða titringur sem berst til ökumanns eykst eftir því sem rifflurnar eru breiðari miðað við breidd hjólbarða. Rifflur þurfa því að vera nægilega breiðar og langar til að hámarkstitringur náist.

Margar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á áhrifum vegrifflna á umferðaröryggi og telur nefndin vegrifflur geta haft jákvæð áhrif á umferðaröryggi. Í skýrslu verkfræðistofunnar Hnit (Rifflur á vegum, 2007) kemur fram að útfærslur á rifflum eru mismunandi milli landa og eru skoðaðar fimm mismunandi útfærslur. Í þessum útfærslum sem skoðaðar voru var breidd þeirra á bilinu 20–50 cm.

Rifflur í göngunum eru 10 cm breiðar þvert á akstursstefnu og að mati nefndarinnar er breidd þeirra ekki nægileg til að rifflurnar skili tilætluðum áhrifum.

Nefndin beinir því til veghaldara að skoða möguleika á breiðari rifflum milli akstursátta í göngunum eða öðrum ráðstöfunum sem skila sambærilegum áhrifum.

Afgreiðsla

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur borist svar til tillögunni sem beint var að Vegagerðinni þann 7. júní 2018.

Vegagerðin svaraði tillögum nefendarinnar með bréfi sem dagsett er 17. október 2018.

Í svari Vegagerðarinnar kemur m.a. fram að rifflur í Hvalfjarðargöngunum hafi verið breikkaðar í 20 cm að beiðni Vegagerðarinnar.

Bil milli ökutækja

Umferð
Nr. máls: 2016-054U011
Staða máls: Opin
07.06.2018

Tillaga í öryggisátt

Nefndin vekur athygli á að Toyota bifreiðinni var ekið í bílalest þar sem of stutt bil var á milli bifreiða samkvæmt áðurgreindu myndskeiði af slysinu. Stutt bil á milli bifreiða minnkar möguleika ökumanna á að bregðast við ef hætta skapast. Þetta er sérstaklega mikilvægt í veggöngum þar sem gangnaveggir er beggja megin við akbrautina og takmarkaðir möguleikar fyrir ökumenn að víkja til hliðar.

Í Hvalfjarðargöngunum er minnsta leyfilega bil milli ökutækja 50 metrar. Þetta er tilgreint með umferðarmerki áður en ekið er inn í göngin en skiltið er ekki áberandi og óvíst að ökumenn taki eftir því.

Í viðauka með reglugerð um öryggiskröfur fyrir veggöng nr. 992/2007 kemur fram að miklu máli skipti að hraði ökutækja og fjarlægð á milli þeirra sé viðeigandi í veggöngum og skal veita því sérstaka athygli. Í því felst að tilkynna þarf vegfarendum í jarðgöngum um viðeigandi hraða og fjarlægðir og að fullnusturáðstafanir skulu gerðar eftir því sem við á. Vegfarendur sem aka fólksbifreiðum skulu við venjulegar aðstæður að lágmarki halda þeirri fjarlægð frá ökutækinu fyrir framan sem jafngildir þeirri vegalengd sem ökutæki ferðast á tveimur sekúndum. Þegar um er að ræða þungaflutningabíla skal þessi fjarlægð tvöfölduð.

Nefndin beinir því til veghaldara og Samgöngustofu að skoða með hvaða hætti hægt sé að auka vitund ökumanna um nauðsyn þess að viðhalda nægilegu bili á milli ökutækja í göngunum.

Nefndin beinir því einnig til veghaldara og Samgöngustofu hvort skoða þurfi sérstaklega bil milli þungaflutningabíla og annara ökutækja sbr. viðmið um 4 sekúndur í viðaukanum.

Afgreiðsla

Framúrakstur

Umferð
Nr. máls: 2016-054U011
Staða máls: Lokuð
07.06.2018

Tillaga í öryggisátt

Í stærstum hluta Hvalfjarðarganga eru tvær akreinar, ein í hvora akstursátt. Víða erlendis er framúrakstur ekki leyfður í veggöngum með umferð í gagnstæðar áttir í sama gangaröri.

Nefndin beinir því til veghaldara að fara yfir reglur um framúrakstur í göngunum og meta hvort æskilegt sé að herða þær með tilliti til umferðaraukningar síðustu ára og umferðaröryggis í göngunum.

Afgreiðsla

Nefndinni barst svar Vegagerðarinnar dagsett 17. október 2018.

Þar kom fram að Vegagerðin hafi farið ítarlega yfir reglur um framúrakstur í göngunum en í þeim hluta þeirra, þar sem ein akrein er í hvora akstursátt, gefa yfirborðsmerkingar til kynna að með sérstakri varúð megi aka fram úr. Um sé að ræða tiltekna kafla þar sem sjónlengdir væru nægilegar.

Vegagerðin  hafi m.a. sent fyrirspurn til norsku vegagerðarinnar og svörin hafi verið á þá leið að ekki væri almennt framúrakstursbann í jarðgöngum í Noregi heldur væri miðað við sömu reglur og á opnum vegi.

Við endurnýjun yfirborðsmerkinga haustið 2018 hafi Vegagerðin ákveðið að breyta þeim ekki á þeim tíma.

Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016

Umferð
Nr. máls: 2016-056U012
Staða máls: Opin
20.11.2017

Tillaga í öryggisátt

Viðgerðir og viðhald þungra ökutækja

Bíltækniskoðanir ökutækja sem eru þyngri en 3,5 tonn sem RNSA hefur undir höndum, bera þess skýr merki að viðhald, þá sérstaklega á hemlum eftirvagna, sé oft ábótavant. Í október 2007 var farið í sérstakt umferðareftirlit með vörubifreiðum og niðurstöður úr því eftirliti voru að af 10 festi- og tengivögnum voru einungis tveir í fullkomnu lagi, sjö fengu endurskoðun og tveir lagfæringu.
Ummerki voru á vagninum um að reynt hafi verið að gera við hemlana en viðgerðin var ófullnægjandi. Vagninn hafði ekki verið færður til endurskoðunar áður en hann var nýttur til flutnings á þessum þunga farmi. Í 17. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009 með síðari breytingum kemur fram að hafi verið gerð athugasemd í skoðun skal haga notkun þess í samræmi við niðurstöður skoðunar. Nefndin hvetur eigendur þungra ökutækja til að skoða og bæta verklag hjá sér varðandi eftirlit og viðhald ökutækja sinna og sjá til þess að ástand þeirra sé gott til að fyrirbyggja slys og óhöpp.
Nefndin ítrekar tillögu þess efnis að fjölga skuli lögbundnum skoðunum þungra ökutækja, auka vegaeftirlit og taka til skoðunar hvort rétt sé að gera þá kröfu að viðhald öryggisbúnaðar þungra ökutækja sé einungis í höndum fagaðila. Beinir nefndin þessum tillögum til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.

Afgreiðsla

Í bréfi dags. 16. maí 2018 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið hafi leitað umsagnar Samgöngustofu á hvort fjölga skuli lögbundnum skoðunum þungra ökutækja umfram það sem þegar er áskilið. Samgöngustofa metur það svo að ekki sé nauðsynlegt að fjölga skoðunum en bendir á 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem fjallar um ábyrgð eiganda ökutækis á lögmætu ástandi þess. Ráðuneytið féllst á sjónarmið Samgöngustofu.

Í umsögn Samgöngustofu og í sameiginlegri umsögn lögreglustjóranna á Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi um tillöguna er undir það tekið að auka vegeftirlit. Ráðuneytið bendir á að ábyrgð á vegaeftirliti færist til dómsmálaráðuneytisins með frumvarpi til nýrra umferðarlaga. 

Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (1)

Umferð
Nr. máls: 2016-056U012
Staða máls: Lokuð
20.11.2017

Tillaga í öryggisátt

Öryggi vegarins

Veglínan er hættuleg, bæði er brekkan brött og eins er beygjan neðst kröpp og hátt fall fram af veginum. Við rannsókn á slysinu kom fram að reglulega lenda ökumenn í vandræðum í þessari beygju og keyra á vegriðið. Þegar þetta slys varð var vegriðið mikið skemmt eftir fyrri slys.

Vegriðið hefur bjargað mörgum frá því að lenda út af veginum og niður brattan vegfláann þó svo að óvíst sé að óskemmt vegrið hefði haldið þeirri þungu vagnlest sem hér um ræðir. Mörg þessara slysa hafa verið án meiðsla, en í ljósi þeirra og þess slyss sem hér er um fjallað leggur nefndin til við veghaldara að gerðar verði úrbætur á veginum til að auka öryggi vegfarenda.

Afgreiðsla

Í bréfi dags. 27. nóvember frá veghaldara kemur fram að gerð hefur verið tillaga að nýrri veglínu. Einnig kemur fram í bréfinu að í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árið 2015 - 2016 er gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verks á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2023 -2016.