35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
23-047U009-T01 Forvarnir um svefn og þreytu hjá ökumönnum
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að flýta fyrirhuguðu átaki um forvarnir vegna svefns og þreytu ökumanna.
Samgöngustofa hefur verið með verkefnið „Nap and Go“ þar sem ferðamönnum sem lenda snemma morguns hefur verið boðin gisting á góðum kjörum nálægt Keflavíkurflugvelli. Ferðamenn hafa einnig verið varaðir við hættunni sem getur falist í að keyra eftir lítinn svefn á síðunni safetravel.is og á stýrisspjaldi sem bílaleigur afhenda.
Tímamismunur og næturflug gerir það að verkum að margir farþegar eru þreyttir við komuna til landsins og áfram næstu daga, ef ekki næst nægjanleg hvíld.
Hjá Samgöngustofu er á döfinni að framleiða fræðslumyndband um svefn og þreytu við akstur og til stendur að fara í auglýsingaherferð þar sem fólk er hvatt til að leggja bílum sínum þegar það er þreytt og leggja sig í 15 mínútur áður en lengra er haldið.
Upplýsingar er varða almennt þau áhrif og þær hættur sem þreyttir ökumenn skapa í umferðinni eru mikilvægar og geta um leið sýnt hvernig er hægt að bregðast við slíkri þreytu. Í rannsóknum hefur komið fram að þreyttir ökumenn geta verið jafn hættulegir og ölvaðir ökumenn. Evrópska umferðaröryggisstofnunin hefur sett fram í skýrslu að svefnleysi og þreyta sé veigamikill orsakaþáttur í 15% til 20% af alvarlegum umferðarslysum.[1]
[1] Ingrid van Schagen, 2021, Road Safety Thematic Report – Fatigue, European Road Safety Observatory.
Afgreiðsla
Í svari Samgöngustofu dags. 2 október 2024 kemur fram að svefn og þreyta við akstur verði þema fyrir alþjóðlegan minningardag um fórnarlömb umferðarslysa þessa árs. Einnig kemur fram í svarinu að í upphafi árs 2025 fari Samgöngustofa í herferð sem mun snúast um svefn og þreytu við akstur.
23-046U008 T08. Notkun riffla á vegum
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að fræsa rifflur í yfirborð vega þar sem aðstæður og tegund bundins slitlags býður upp á slíkt.
Þar sem breidd vega og tegund bundins slitlags gefa tækifæri til fræsunar á rifflum telur Rannsóknarnefnd samgönguslysa að það ætti að gera. Umferðarrannsóknir sem snúa að notkun riffla á vegum sýna ávallt jákvæðar niðurstöður gagnvart umferðaröryggi.
Afgreiðsla
23-043U007T1. Hlífðarbúnaður bifhjólafólks
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að auka fræðslu um hlífðarbúnað bifhjólafólks.
Hjálmar veita vernd og mikilvægt er fyrir bifhjólafólk að vera ávallt með viðurkenndan hjálm á höfði. Ýmiss annar viðurkenndur búnaður veitir bifhjólafólki aukna vernd gegn áverkum í slysum. Hægt er að verða sér út um sérhannaðan hlífðarbúnað, svo sem buxur, jakka, brynjur, hanska og skó. Ef sá hlífðarbúnaður er CE merktur uppfyllir hann að öllu jöfnu staðla um hlífðarbúnað fyrir bifhjólafólk. Mikilvægt er að koma fræðslu á framfæri um slíkan búnað og hvetja enn frekar til notkunar á honum.
Afgreiðsla
23-043U007T2. Skoðun bifhjóla
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara og vinna umbætur á skoðunarhandbók gagnvart skoðun bifhjóla.
RNSA telur ástæðu til þess að Samgöngustofa endurskoði þann hluta skoðunarhandbókar ökutækja sem snýr að skoðunum bifhjóla. Æskilegt er að bifhjól séu skoðuð með sambærilegum hætti og stór ökutæki þar sem sérþjálfaðir skoðunarmenn framkvæma skoðun með sérhæfðum tækjabúnaði. Slík aðstaða og þekking myndi auðvelda og bæta skoðanir bifhjóla. Nefndin leggur áherslu á að uppfærsla skoðunarhandbókar snúi meðal annars að skoðun á legubúnaði. Einnig að settar verði kröfur um hámarksaldur og lágmarks loftþrýsting hjólbarða bifhjóla. Þá telur nefndin að mikilvægt sé að setja í skoðunarhandbók ramma um breytingar sem gerðar eru á bifhjólum sem og ásetningu aukahluta.
Afgreiðsla
23-043U007T3. Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytisins að setja í reglugerð ákvæði um flokkun, gerð og notkun öryggis- og verndarbúnaðar óvarinna vegfarenda sbr. 4. mgr. 79. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum.
Ákvæði 78. og 79. gr. umferðarlaga fjalla takmarkað um öryggis- og verndarbúnað við akstur bifhjóla og torfærutækja. RNSA telur þörf á ítarlegri reglugerðarákvæðum um hlífðarbúnað óvarinna vegfarenda annarra en gangandi.
Afgreiðsla
Reglur um mat á andlegu og líkamlegu hæfi
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu, og ítrekar um leið fyrri tillögu í öryggisátt frá 17. janúar 2020, að innleiða nýjar reglur um hvernig meta skuli hvort umsækjendur um ökuskírteini fullnægi III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og kveðið er á um í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini, nr. 830/2011, með síðari breytingum.
Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini, nr. 830/2011, með síðari breytingum, kemur fram að Samgöngustofa setji reglur um hvernig meta skuli hvort umsækjandi um ökuskírteini fullnægi skilyrðum í III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að slíkar reglur séu settar.
Afgreiðsla
Á grundvelli þess að þess að þekkingu skortir á sviði heilbrigðismála eða framkvæmd við afgreiðslu og útgáfu vottorða hefur Samgöngustofa óskað eftir því við innviðaráðuneytið að skipaður yrði starfshópur til að skoða reglur um hvernig skuli meta andlegt og líkamlegt heilbrigði. Einnig að skoða ferli við útgáfu læknisvottorða auk regluverks og framkvæmd við útgáfu, afturköllun og endurveitingu ökuréttinda hvað varðar heilbrigðisskilyrði. Það hefur ekki gengið eftir. Samgöngustofa lítur svo á að stofnunin hafi fullreynt sín úrræði í þessu máli og bíður svara frá innviðaráðuneytinu um næstu skref.
Stuðningur við innleiðingu nýs vottorðseyðublaðs
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til innviðaráðuneytisins að styðja Samgöngustofu við þróun og innleiðingu á nýju eyðublaði um læknisvottorð sem snýr að því mati hvort umsækjendur um ökuskírteini fullnægi III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og kveðið er á um í 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum, og leita í því skyni, ef þörf er á, aðstoðar annarra ráðuneyta og undirstofnana þeirra.
Drög að nýju vottorðseyðublaði vegna læknisskoðunar fyrir veitingu eða endurnýjun ökuréttinda hafa verið í vinnslu hjá Samgöngustofu. Gildandi vottorðseyðublað er áratuga gamalt og þarfnast endurnýjunar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að innviðaráðuneytið styðji Samgöngustofu við þróun og framkvæmd á innleiðingarferli á nýju vottorðseyðublaði og sjái til þess að stofnunin fái þann stuðning sem hún þarf við verkefnið, m.a. frá öðrum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.
Afgreiðsla
Eftirlit með þrýstigeymum
Tillaga í öryggisátt
RNSA beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja og verklag á skoðunarstofum við skoðun á þrýstigeymum ökutækja. Jafnframt að upplýsa eigendur slíkra ökutækja um þessa hættu.
Að mati RNSA er hér um að ræða mikilvæga öryggisráðstöfun því ekki er hægt að útiloka að í umferð séu bifreiðar með þrýstigeyma sem eru orðnir tærðir þannig að hætta sé á samskonar sprengingu. Af þeim sökum er mikilvægt að yfirfara reglulega eldsneytiskerfi allra bifreiða sem búnar eru þrýstigeymum og skipta um búnað sem er úr sér genginn.
Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru 2.267 ökutæki í umferð sem skráð eru með metan sem orkugjafa í ökutækjaskrá. Að mati RNSA er mikilvægt, að allir eigendur ökutækja sem búin eru metanþrýstigeymum verði upplýstir um þessa hættu.
Afgreiðsla
Samgöngustofa hefur brugðist við tillögu RNSA í öryggisátt:
Að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja gagnvart þrýstigeymum ökutækja.
Ný skoðunarhandbók tók gildi þann 1. mars 2023. Í henni eru gerðar strangari kröfur til dæminga þegar upp koma frávik er varða þrýstigeyma í ökutækjum. Breytingin er að nú er dæmt í 1 þegar frágangur er ófullnægjandi og hætta er á skemmdum (en engar skemmdir orðnar ennþá), annars dæmt í 2 á ýmis frávik og dæmt í 3 (notkun bönnuð) ef styrkleikaskemmdir sjást á geymi, gildistími þrýstigeyma er útrunninn (eða upplýsingar vantar eða ófullnægjandi) eða viðurkenningarmerkingar vantar eða ófullnægjandi. Samgöngustofa yfirfór þessar dæmingar í tilefni af þessu atviki og telur að hin nýja handbók taki með fullnægjandi hætti á skoðun og dæmingum þeirra.
Að yfirfara verklag skoðana á skoðunarstofum gagnvart þrýstigeymum ökutækja
Í kjölfar sprengingarinnar bjó Samgöngustofa til öryggistilkynningu inn í sérstakan kafla í skoðunarhandbók ökutækja. Samgöngustofa hélt einnig fund með tæknilegum stjórnendum skoðunarstöðva til að fara yfir málið. Samgöngustofa óskaði þar sérstaklega eftir því að skoðunarstöðvar pössuðu vel upp á skoðun þrýstigeyma og myndu árétta verklagið við sína skoðunarmenn.
Að upplýsa eigendur ökutækja sem útbúnir eru með þrýstigeyma um þessa hættu
Samgöngustofa birti frétt á heimasíðu stofnunarinnar fljótlega eftir atvikið og var henni einnig deilt sem fréttatilkynningu til fréttamiðla. Samgöngustofa er að ljúka þróun rafrænnar leiðar til að senda eigendum ökutækja skilaboð og mun nýta þá leið til að koma beinum boðum til þeirra þegar hún kemst í gagnið.
22-058U011T1 Bæta merkingar og aðgengi vegf.
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Akureyrarbæjar að sjá til þess að bætt sé úr merkingum og gönguþverunum við vinnusvæði Hofsbótar 2, þar sem slysið varð, til að auka umferðaröryggi og þar með tryggja öryggi óvarinna vegfarenda um svæðið.
Unnin var áætlun fyrir merkingar vegna framkvæmdanna en í þessari skýrslu koma fram ágallar á merkingum og aðgengi gangandi vegfarenda. Merkingar á vegi sjást t.d. ekki þegar snjóað hefur yfir þær og þurfa því að vera meira afgerandi. Einnig þarf að gæta þess að eldri merkingar á vegstæði séu í samræmi við umferð á framkvæmdatíma.
Afgreiðsla
Þegar skýrsla RNSA lá fyrir voru framkvæmdir á svæðinu langt komnar og hefur
verið unnið að frágangi á svæðinu síðan þá. Við skipulag á frágangi svæðisins hefur
sérstaklega verið horft til aðgerða til að tryggja öryggi óvarinna vegfarenda um svæðið.
22-058U011T2 Öryggisáætlun við framkvæmdir
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Akureyrarbæjar að þegar framkvæmdir hafa áhrif á umferð gangandi og eða akandi sé fylgt eftir að unnin sé öryggisáætlun og skipaður eftirlitsmaður í samræmi við reglugerð þess efnis.
Fram kemur í reglugerð um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir nr. 492/2009 að veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar og öllum þeim vegmerkingum og útbúnaði sem er til staðar í því vegakerfi sem hann hefur umsjón með og rekur. Þá segir í sömu reglugerð að áður en framkvæmdir hefjast á og við veg skuli verktaki gera ítarlega öryggisáætlun þar sem lýst er nauðsynlegum öryggisráðstöfunum vegna framkvæmdanna. Mikilvægt er að allar breytingar, jafnvel tímabundnar, sem snúa að umferð gangandi eða ökutækja séu í samræmi við gildandi umferðarlög og reglur. Þar komi meðal annars fram hvernig afmarka skuli vinnusvæði, hvernig merkingum á og við svæðið skuli háttað og hvort og hvernig skipuleggja skuli hjáleiðir sem og að koma eigi í veg fyrir að merking vega gefi villandi upplýsingar um ástand vegar og umferð um hann. Þá skal bera öryggisáætlun undir veghaldara til samþykkis og skal samþykkt eintak öryggisáætlunar vera tiltækt á vinnusvæði og hjá lögreglu í viðkomandi lögsagnarumdæmi. Í þessu tilviki var merking á yfirborði vegar röng. Einnig vantaði uppsetningu fleiri gönguþverana og varnir gangandi vegfarenda voru ófullnægjandi.
Afgreiðsla
Í bréfi frá Akureyrarbæ dags. 6. september 2024 kom fram að tekið verði tillit og sett frekari skilyrði við útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa til samræmis við kröfur reglugerðar til samþykktar veghaldara.
Einnig mun Akureyrarbær setja ítarlegri skilyrði en verið hefur gagnvart verktökum við framkvæmdir á verkum, um þætti sem snúa að gangandi eða akandi umferð, sem ekki eru framkvæmdaleyfisskyldar. Jafnframt að framkvæmdaraðili þurfi að tilnefna eftirlitsmann í samræmi við kröfur ofangreindrar reglugerðar.