35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga
Tillaga í öryggisátt
Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið.
Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið Þingeyjarsveit. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Helstu markmið umferðaröryggisáætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Í umferðaröryggisáætlun geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka (eða hraðaflokka), umferðarmagn, yfirborðsmerkingar, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna[1]. Mörg bæjarfélög hafa unnið markvisst að uppbyggingu 30 km/klst hverfa undanfarin ár í samræmi við umferðaröryggisáætlanir. Lækkun hámarkshraða, meðal annars í nánd við skóla, samræmist gerð umferðaröryggisáætlana sem unnar eru með því markmiði að bæta umferðaröryggi í sveitafélögum.
[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannsvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.
Afgreiðsla
Þingeyjarsveit hefur sett á fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 fjármagn í gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir sveitarfélagið. Vinna við áætlunina mun hefjast á hausdögum 2024 og verður hún unnin í samræmi við leiðbeiningar um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga frá 2010 sem gefin er út af Vegagerðinni, Samgöngustofu og Mannvit.
Endurskoðun umferðarlaga
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytis að stuðla að skjótri meðferð lagabreytinga á umferðarlögum sem snúa að bættu öryggi smáfarartækja í umferðinni.
Í febrúar 2023 mælti innviðaráherra fyrir frumvarpi, á Alþingi, til breytinga á umferðarlögum nr. 77/2019, m.a. fyrir breytingatillögum um smáfarartæki og öryggi þeirra. Að mati nefndarinnar er ákvæðum núverandi laga um þessi farartæki ábótavant og kallar mikil notkun þeirra í umferðinni og fjöldi slysa á endurskoðun laganna. Norðmenn hafa sem dæmi sett sér framsækna löggjöf á þessu sviði sem vert er að kanna með tilliti til íslenskra aðstæðna.
Rafhlaupahjól falla samkvæmt núgildandi umferðarlögum undir skilgreiningu um reiðhjól, sem lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls, og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km/klst upp í 25 km/klst. Skýra þarf kröfur til þessara smáfarartækja og kveða sérstaklega á um þau í umferðarlögum. Í skýrslu verkefnishóps um smáfarartæki frá júní 2022 var hvatt til innleiðingar á nýjum ökutækjaflokki smáfarartækja. Í skýrslu um rannsóknarverkefni VSÓ um rafskútur og umferðaröryggi útgefin í maí 2021 er einnig fjallað um öryggi smáfarartækja.
Á Íslandi eru seld rafhlaupahjól sem eru hönnuð til að aka hraðar en 25 km/klst. Setja þarf í lög ákvæði um að óheimilt sé að aftengja hraðatakmarka eða breyta þeim á smáfarartækjum og léttum bifhjólum í flokki I sem hér eru í umferð, þannig að mögulegur hámarkshraði þeirra með vélarafli verði meiri en 25 km/klst. Einnig að óheimilt sé að nota slík hraðabreytt smáfarartæki og létt bifhjól í almennri umferð.
Í umferðarlögum nr. 77/2019 með síðari breytingum er ekki kveðið á um það, með skýrum hætti, hvort hraðatakmarkanir gildi, hvort sem er í þétt- eða dreifbýli, á gangstéttum, göngu- og hjólastígum. Merkingar um heimilaðan ökuhraða þurfa að vera skýrar.
Fjölgun í hópi látinna og alvarlegra slasaðra gangandi og hjólandi
Sumarið 2020 komu að meðaltali 1,6 einstaklingar á dag á bráðamóttöku Landspítala með meiðsl eftir slys á rafhlaupahjóli samkvæmt rannsókn sem unnin var á bráðamóttöku Landspítala. Samkvæmt skýrslum Gallup frá 2020 og 2022 um notkun rafhlaupahjóla í Reykjavík jókst hlutfall svarenda, sem sögðust nota slík tæki til einhverra ferða, úr 19% í rúm 35%. Í rannsókn bráðamóttökunnar 2020 voru beinbrot 38% meiðsla sem snéru að útlimum og andliti. Eru þá ótalin öll slys á rafhlaupahjólum sem ekki er tilkynnt um og koma ekki til kasta bráðamóttökunnar. RNSA telur sennilegt að slysahætta hafi skapast hjá nýjum notendahópi með tilkomu rafhlaupahjóla en fjölgun hefur orðið í hópi látinna og alvarlega slasaðra vegfarenda á reiðhjólum og rafmagnshjólum frá 2021 (sjá mynd 11 í skýrslunni).
Þessi aukning, sem hófst árið 2020, er áberandi hjá hópi notenda á rafhlaupahjólum en mikið stökk varð í þeim hópi árið 2021. Áframhaldandi aukning varð í þessum hópi árið 2022. Af þessu má ráða að þetta sé aukning slasaðra í nýjum hópi sem var ekki var fyrir hendi fyrr en 2020 en ekki hefur dregið úr fjölda slasaðra í öðrum hópum hjólandi vegfarenda við þessa fjölgun slasaðra í hópi notenda rafhlaupahjóla.
Mynd 11 í skýrslunni sýnir fjölda alvarlega slasaðra á reiðhjólum og öðrum farartækjum með rafmótor. Gögnin takmarkast við fyrstu níu mánuði áranna frá 2011 til og með 2022.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 10. júlí 2023 er nefndinni tilkynnt að Innviðaráðuneytið taki undir það sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar að ákvæði núgildandi umferðarlaga er varða smáfarartæki og öryggi þeirra sé ábótavant og að mikil notkun þeirra og fjölda slysa kalli á endurskoðun laganna hvað þau varðar. Einnig kemur fram í bréfi ráðuneytisins að efni frumvarps um breytingu á umferðarlögum, sem ráðherra mælti fyrir í febrúar 2023 og varðar smáfarartæki, verði endurflutt. Áður en þar að kemur verði lagt mat á það hvort fengin reynsla gefur tilefni til breytinga og verður meðal annars, líkt og nefndin leggur til, litið til löggjafar í Noregi.
Með frumvarpinu verður, til samræmis við tillögur nefndarinnar, lagt til að innleiddur verði í umferðarlög nýr flokkur smáfarartækja þar sem tekið er mið af sérkennum og notkun þeirra. Einnig verður í samræmi við tillögur nefndarinnar kveðið á með skýrum hætti um að óheimilt sé að aftengja hraðatakmarkara eða að breyta hámarkshraða smáfarartækis eða létts bifhjóls í flokki I svo að mögulegur hámarkshraði undir vélarafli verði umfram 25 km á klst. og að eftir slíka breytingu verði óheimilt að nota ökutækið í almennri umferð.
Þá kemur einnig fram að ráðuneytið muni, í ljósi athugasemda nefndarinnar varðandi skort á skýrleika hvað varðar gildi hraðatakmörkunar á gangstéttum og göngu- og hjólastígum, taka til skoðunar hvort rétt sé að breytingar verði gerðar á ákvæðum umferðarlaga þar af leiðandi.
Öryggisúttekt
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Reykjavíkurborgar að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna þar að úrbótum til að auka umferðaröryggi á hjóla- og göngustígnum við Sæbraut með áherslu á lýsingu.
Lýsing á slysstað uppfyllti kröfur sem giltu þegar stígurinn var hannaður 1999 en uppfyllir ekki núverandi kröfur. Birtukröfur í stöðlum hafa ekki breyst en þarfir og túlkun þeirra hefur þróast með tilkomu díóðulampa og með aukinni umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.
Nefndin leggur til að veghaldari skoði við fyrirhugaðar breytingar á veglýsingu á Sæbraut, díóðulýsingu í stað natríumlýsingar, áhrif þeirra á lýsingu á Mánastíg en tryggja þarf góða birtu og sjónlengdir miðað við umferðarhraða allra vegfarenda.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 12. maí 2023 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að tekið sé undir mikilvægi þess að stofnstígar séu vel upplýstir, og að bætt lýsing sé jákvæð fyrir notkun og öryggi stígsins. Í dag nýtur stígurinn, á þeim stað sem slysið varð, lýsingar frá Sæbraut. Þegar núverandi lýsingu verður skipt út fyrir led-/díóðulýsingu, þá mun lýsing á stígnum versna. Því er gert ráð fyrir að komið verði fyrir sérstakri stíglýsingu. Slík framkvæmd er ekki tímasett en gæti orðið samhliða fyrirhugaðri endurgerð sjóvarnargarða meðfram ströndinni.
Í nóvember 2023 var gefin út skýrsla á vegum Reykjavíkurborgar um umferðaröryggisrýni á slysstað. Helstu niðurstöður voru þær að hjólastígurinn uppfylli viðmið samkvæmt hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar. Lýsing meðfram stígnum uppfyllir hinsvegar ekki núgildandi viðmið Reykjavíkurborgar um stíglýsingu. Rýnar skýrslunnar telja að mikilvægt sé að koma upp sér stígalýsingu þar sem mikill munur var á upplifun á aðstæðum á stígnum í myrkri og birtu.
Varhugaverð gatnamót
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna að úrbótum til að auka umferðaröryggi við gatnamótin.
Þessi gatnamót eru flókin og erfið fyrir gangandi vegfarendur. Akreinar eru margar, umferð bifreiða mikil og stutt á milli aðliggjandi gatnamóta. Leiðin fyrir gangandi vegfarendur og aðra sem ferðast eftir gangstígunum er flókin og litlar leiðbeiningar eru veittar um þá leið sem þeim er ætlað að fara. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna að úrbótum til að auka umferðaröryggi við gatnamótin.
Afgreiðsla
Í svarbréfi frá veghaldara er nefndinni tilkynnt um að búið sé að öryggisrýna gatnamótin og leggja fram tillögur til úrbóta. Í bréfinu kom einnig fram að farið verður í framkvæmdir í sumar (2022)
Hönnun á umferðarmannvirkjum fyrir alla vegfarendur
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggja sérstaka áherslu á það við hönnun gatnamóta að öryggis og hagsmuna gangandi og hjólandi vegfarenda sé vel gætt.
Það er mat RNSA að nauðsynlegt sé að skoða í öllum tilfellum leiðir annarra vegfarendahópa samhliða hönnun gatnakerfis fyrir götuskráð ökutæki. Gæta ber vel að merkingum göngu- og hjólaleiða, lýsingu við gatnamót og umferðarstýringu. Gangandi vegfarendur eru fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri og með misjafna getu, m.a. barna og annarra sem geta átt erfitt með að átta sig á bestu leið um eða framhjá flóknum og umferðarþungum gatnamótum.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 10. mars 2022 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að Garðabær hafi fengið Eflu til að rýna gönguleiðir á svæðinu. Niðurstaðan voru 7 aðgerðir sem miða að því að auka aðgengi og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í og frá Urriðaholti. Meðal annars var mælt með því, í skýrslu Eflu, að koma sem fyrst fyrir kodda við gönguþveranir á gatnamótum Urriðaholtsbrautar og Austurhrauns sem og strætó kodda við gönguþverun yfir hjárein við gatnamót Kaupatúns, Urriðaholtsstrætis og rampa Reykjanesbrautar.
Öryggisáætlun og áhættumat
Tillaga í öryggisátt
RNSA beinir þeirri tillögu til Strætó bs að áhættumeta allar akstursleiðir sínar og framkvæma áhættumat þegar breytingar eru gerðar á almenningsvögnum.
Það að koma auga á hættur í vinnuumhverfi er ein af mikilvægustu skyldum atvinnurekanda þegar kemur að vinnuverndarstarfi. Mikilvægt er að bregðast við hættunum með því að kanna möguleikana á að fjarlægja þær eða grípa til fyrirbyggjandi aðgerða.
Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í því felst m.a. gerð áhættumats. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan- eða utanhúss, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að slík áætlun taki til ökutækja sem notuð eru í atvinnustarfsemi, settir séu staðlar um ástand þeirra og akstursleiðir áhættumetnar. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefur ein leið þegar verið áhættumetin og beinir nefndin þeirri tillögu til fyrirtækisins að halda þeirri vinnu áfram.
Í 8. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 með síðari breytingum kemur fram að svæði ökumanns skuli þannig gert að hvers konar speglun trufli útsýn hans sem minnst. Einnig segir í 9. gr. sömu reglugerðar að ökutæki skuli þannig gert að ökumaður hafi góða útsýn úr sæti sínu fram fyrir ökutækið og til beggja hliða sem og að óheimilt sé að hafa hvers konar aukahluti innan á eða innan við framrúðu og fremstu hliðarrúður sem takmarkað geta útsýn. Í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu var, í COVID-19 faraldrinum, komið fyrir öryggisgleri sem aðskilur ökumann og farþega. Staðsetning glersins er hægra megin við ökumann og afmarkar rými hans. Á þessi öryggisgler voru límdir miðar, sem mögulega hindra útsýn. Einnig eykst sennilega möguleg endurspeglun götulýsingar í rými ökumanns vegna staðsetninga þessara öryggisglerja. Festingar fyrir þessi gler eru einnig aukabúnaður sem mögulega getur skert útsýn. Mikilvægt er að gera úttekt á því hvort breytingar sem hafa verið gerðar, svo sem glerin og festingar þeirra, hafi áhrif á útsýn ökumanns. Einnig að framkvæma áhættumat á breytingum sem ætlað er að gera á almenningsvögnum áður en slíkar breytingar eru framkvæmdar.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur aðra rekstraraðila almenningsvagna að gera samskonar öryggisáætlanir og áhættumöt.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 8. febrúar 2023 er nefndinni tilkynnt um að Strætó taki undir báðar tillögur nefndarinnar í öryggisátt. Mun Strætó gera áætlun um að framkvæma sérstakt akstursáhættumat á leiðakerfi Strætó út frá sérstökum áhættuforsendum. Markmiðið er að áhættumeta eina til tvær leiðir árlega, allt eftir umfangi hverrar leiðar. Þá hefur Strætó nú þegar framkvæmt mat á núverandi öryggisgleri sem komið var fyrir í vögnunum í COVID-19 faraldrinum og mun Strætó bæta ferli sín varðandi áhættumat á aukahlutum og öðrum þeim búnaði sem komið er fyrir í strætisvögnum. Slíkt áhættumat verður framkvæmt áður en breytingar eru framkvæmdar.
Öryggisúttekt á slysstað
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna að úrbótum til að auka umferðaröryggi við gatnamótin.
Talsverð umferð allra vegfarendahópa er á slysstað vegna nálægðar við skólastofnanir og vinnustaði. Aðstæður eru þröngar fyrir ökumenn stórra ökutækja að taka þessa hægri beygju og verða þeir að huga að mörgum mikilvægum öryggisatriðum í senn.
Biðstöð á Skeiðarvogi, sem þjónar bæði grunn- og framhaldsskóla, er staðsett skammt á undan gatnamótum við Gnoðarvog og innan við 17 metra frá næstu gangbraut yfir sömu gatnamót. Rannsóknir benda til þess að umferðaróhöpp séu líklegri við biðstöðvar sem eru innan við 75 m frá gatnamótum[1], hugsanlega vegna flókinna samskipta milli ökumanna vélknúinna ökutækja og annarra vegfarenda. Rannsóknir sýna einnig að það verða fleiri umferðaróhöpp á vegum þar sem biðstöðvar eru staðsettar fyrir, frekar en eftir, gatnamót.
Staðsetning gangbrautar á Gnoðarvogi er 4 metra frá gatnamótunum. Í leiðbeiningum um gönguþveranir kemur fram að til að auka öryggi á og við gangbrautir við gatnamót ættu þær að vera þétt upp við gatnamót (0,5-2 metra) eða meira en 6 metra frá þeim[2]. Umferðarljós á slysstað eru af eldri gerð þar sem grænt ljós fyrir umferð akandi og gangandi vegfarenda kvikna á sama tíma en á nýrri ljósum er möguleiki að láta grænt ljós kvikna fyrir gangandi lítið eitt á undan, sem er öryggisatriði.
Niðurstaða úr ljósmælingu sem framkvæmd var við gatnamótin var sú að birtan var undir viðmiðum Reykjavíkurborgar við gönguleið þvert á Gnoðarvog, þar sem slysið varð.
[1] Ross O, et al. 2021. „Bus stop design and traffic safety: An explorative analysis“. Accident Analysis and Prevention. 153 (2021)
[2] H. Bjarnason og G. L. Erlendsdóttir, Gönguþveranir, Leiðbeininingar. Reykjavík, Iceland: Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Mannvit og Efla, 2014.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 5. desember 2022 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt um að Reykjavíkurborg taki undir báðar tillögur nefndarinnar í öryggisátt. Telur skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar að skynsamlegt sé að framkvæma öryggisúttekt á gatnamótunum. Einnig að taka saman þær stöðvar innan Reykjavíkur sem hafa svipaðar aðstæður og sú þar sem slysið átti sér stað og í kjölfar þess skoða hvort og þá hvernig bregðast skuli við á umræddum stöðum.
Áhættugreining aðgerða
Tillaga í öryggisátt
Enginn skyldi aka bifreið langar leiðir eftir næturflug til landsins. Vegna þessa slyss beinir Rannsóknarnefnd samgönguslysa þeirri tillögu til Almannavarna að gæta sérstaklega að því að í leiðbeiningum um sóttvarnir sé mælt fyrir um nauðsyn hvíldar áður en lagt er upp í ferðalög á bifreiðum eftir næturflug til landsins. Mikilvægt er að benda á hvíldaraðstöðu eftir flug og kynna vandlega upplýsingar þar um.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað nokkur banaslys undanfarin ár þar sem orsök er rakin til þess að ökumaður fer þreyttur í langferð eftir næturflug. Í þessu slysi komu aðilar með flugi til landsins um nóttina áður en þeir lögðu upp í langt ferðalag vestur á firði. Líklegt er að farþegar sem koma úr næturflugi séu almennt þreyttir og svefnvana. Við rannsókn RNSA á þessu slysi bárust ábendingar um að ferðalöngum sem komu til landsins hafi á þeim tíma verið ráðlagt að fara beint þangað sem þeir hugðust dvelja í skyldubundinni sóttkví.
Við aðstæður eins og komu upp vegna COVID-19 faraldursins þarf sérstaklega að gæta að því að fólki sé ekki gert að aka þreytt heldur sé kynnt aðstaða til hvíldar með aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.
Afgreiðsla
Í svari frá Almannavörnum var RNSA tilkynnt að unnið verði að endurbótum á verkferlum með tilliti til tillögu nefnarinnar.
Fjarlækningar og önnur ráð
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Neyðarlínunnar og Landspítala háskólasjúkrahúss að huga að möguleikum og kostum fjarlækninga til aðstoðar og viðbragða í slysum.
Oft verða slys eða atvik á stöðum á landinu þar sem langt er í allar bjargir. Þetta á við bæði um tíma og vegalengdir. Í slíkum tilvikum þegar skjót viðbrögð eru mikilvæg geta fjarlækningar reynst þarfar, fyrir þá sem koma að slysi sem og viðbragðsaðila, til aðstoðar við fyrstu hjálp og undirbúning viðbragða til bjargar. Ef hægt er að koma læknisfræðilegri þekkingu og ráðgjöf hraðar til aðila á slysstað getur það mögulega eflt fyrstu viðbrögð.
Önnur ráð
Það hefur oft gerst í slysum að fyrir tilviljun hefur komið að fólk sem er með reynslu og eða þekkingu á fyrstu viðbrögðum við slysum eða aðhlynningu slasaðra. Til eru ýmsar aðferðir til þess að tengja saman eða finna aðila í nærumhverfi slyss sem gætu hjálpað í slíkum tilfellum. Dæmi um þetta er smáforritið Good Sam sem er notað til þess að tengja viðbragðsaðila saman þannig að hægt sé að greina með einföldum hætti hvort einhver með mikilvæga þekkingu og reynslu sé í nágrenni þess sem bjargir þarf. Skoða ætti þessa eða sambærilegar lausnir með það að markmiði að auka og bæta fyrstu viðbrögð við slysum.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 16. júní 2022 tilkynnti Landspítalinn RNSA að hafin er vinna við innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu og mun vera eitt af lykilverkefnum spítalans í samvinnu við Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti Landlæknis. Reikna má með að liðið geti 1 til 2 ár áður en þjónustan geti nýst sem eiginleg fjarheilbrigðisþjónusta.
Vegræsi
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að framkvæma öryggisúttekt á frágangi vegræsa og skoða hönnun þeirra m.t.t. umferðaröryggis vegfarenda.
Á slysstað var erfitt að sjá ræsið frá veginum, vegöxlinni eða vegfláanum. Í myrkri og slæmu skyggni var enn erfiðara að greina þetta ræsi. Ræsið var óvarið og ómerkt á slysstaðnum og töluverður hylur í ánni við veginn. Um tveggja metra fall var niður í ræsið og ána sem rennur um það. RNSA beinir því til Vegagerðarinnar að skoða hönnun á svona mannvirkjum eða gera öryggisúttekt á slíkum stöðum. Má teljast víst að ekki hefði orðið alvarlegt slys ef bifreiðin í máli þessu hefði ekki fallið niður í ræsið.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 15. desember 2021 tilkynnti Vegagerðin RNSA um að unnið er að lengja ræsisop á eldri vegum eftir því sem fjárveitingar leyfa. Vegagerðin hefur unnið að því að kortleggja þá staði þar sem ræsisop eru stærri en 1,5 meter að þvermáli á stofn- og tengivegum. Finna má að minnsta kosti 1000 slík ræsi en aðstæður við þau eru mismunandi.
Einnig hefur verið ræddur sá möguleiki á að þétta vegstikur við þá staði þar sem mjög stór ræsisop eru innan öryggisvæði vega þar til hægt sé að fara í framkvæmdir.