Tillögur í öryggisátt Síða 9

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Jökulsárlón

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Skipulag umferðar við Jökulsárlón

Árið 2013 var samþykkt deiliskipulag fyrir Jökulsárlón og var það mat þeirra sem unnu tillöguna (Gláma-Kím Arkitektar) að viðbúnaður vegna móttöku ferðamanna á Breiðamerkursandi væri lítil og ekki í neinu samræmi við gestafjöldann. Sæjust þess merki í umhverfinu, s.s. að akstur utan vega væri stundaður í miklum mæli og augljós skortur væri á skipulögðum bílastæðum og áningarstöðum með merkingum og upplýsingum, snyrtingum og sorpílátum. Er tekið fram að mikil þörf sé á bættri og breyttri aðstöðu til móttöku ferðamanna við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.

Beinir RNSA því til eigenda jarðarinnar Fells og rekstraraðila við lónið að hefja uppbyggingu mannvirkja í samræmi við gildandi deiliskipulag sem bæta  umferðaröryggi og draga þannig úr slysahættu. Umferð gangandi vegfarenda, ökutækja, hjólabáta og þyrla þarf að afmarka betur og merkingar skortir. Svæðið þarf að vera vel skipulagt og skýrt merkt til að tryggja öryggi fólks. Nefndin beinir þessari tillögu einnig til sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 6. september 2017 sem Sveitarfélagið Hornafjörður sendi nefndinni kemur fram að hafin er endurskoðun á gildandi deiluskipulagi. Mun verða horft sérstaklega til umferðaröryggis og öryggis ferðamanna á svæðinu í þeirri vinnu. Sveitarfélagið hafi, og mun áfram beita þrýstingi á að uppbygging verði hafin sem fyrst svo markmiðum um aukið öryggi náist. 

Jökulsárlón (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Öryggisáætlun um akstur og siglingu hjólabátanna

Við rannsókn málsins kom fram að öryggisáætlanir hjólabátanna snúa fyrst og fremst að siglingu þeirra á lóninu. Nauðsynlegt er að öryggisbúnaði bátanna sé ávallt haldið í fullkomnu lagi í samræmi við skráða öryggisáætlun og að til sé varabúnaður sem koma má fyrir ef viðgerð dregst. Að öðrum kosti verði viðkomandi báti lagt þar til öryggisbúnaði hefur verið komið í lag eða aukin gæsla sett í gang. Einnig er til bóta að búa bátana hljóðmerkisbúnaði til aðvörunar þegar þeim er bakkað. Eins er mikilvægt  að aðgreina svæðið þar sem hjólabátar athafna sig og takmarka umferð gangandi vegfarenda kringum bátana þegar þeim er ekið. Að mati RNSA væri heppilegast að aldrei þyrfti að bakka hjólabátunum vegna slæms útsýnis frá þeim á landi.  Öruggast væri að bátarnir ækju hring þannig að ekki þyrfti að bakka þeim í hverri ferð eftir að búið er að sækja farþega við landgang.

RNSA beinir því til rekstraraðila hjólabáta við Jökulsárlón að uppfæra öryggisáætlun hjólabátanna með tilliti til öryggis við akstur þeirra á landi.

Afgreiðsla

Jökulsárlón (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Reglum um hjólabáta er ábótavant

RNSA beinir því til Samgöngustofu að skoða sérstaklega skráningu, kröfur og réttindi til að aka og sigla  hjólabátum. Ekki er nægjanlegt að miða kröfur eingöngu við haffæri þar sem bátunum er einnig ekið með og án farþega á landi. Nefndin bendir sérstaklega á það í ljósi þessa slyss að reglur verði settar um öryggisbúnað slíkra farartækja s.s. með tilliti til þess að útsýn ökumanns við akstur þarf að vera góð og auka þarf öryggi þegar ekið er. Eins þarf hemla-, stýris- og ljósabúnaður að vera í lagi. 

Afgreiðsla

Jökulsárlón (3)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Réttindi til að stjórna hjólabátum

RNSA áréttar að þeir skipstjórar sem ráðnir eru til að stjórna hjólabátum hafi þau réttindi sem krafist er í lögum. Er tillögunni beint til rekstraraðila hjólabáta.

Afgreiðsla

Jökulsárlón (4)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Lendingarstaður fyrir þyrlur

RNSA leggur það til við Samgöngustofu að hún setji leiðbeiningar/verklagsreglur um lendingarstaði fyrir þyrlur í atvinnuskyni sem og í einkaflugi.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Kennsla til meiraprófs

Í gildi eru námskrár bæði fyrir vörubifreiðaréttindi og endurmenntun bílstjóra. Þar er farið yfir þau atriði sem skylt er að gera góð skil við kennslu til aukinna ökuréttinda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að mikilvægt er að ökumenn vörubifreiða sem og þeir sem þá hlaða, hafi þekkingu til að meta heildarþyngd vagnlestar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að yfirfara námskrár fyrir vörubifreiðaréttindi sem og fyrir endurmenntun bílstjóra með þetta atriði til hliðsjónar.

 

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Burðarþol brúa og útboðsgögn

Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að tryggt sé að brýr þoli þann þunga sem leyfður er. Við rannsókn þessa kom einnig í ljós að heilbrigðis- og öryggisáætlun sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits.

Nefndin leggur til við Vegagerðina að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar í ljósi þess að víða eru eldri brýr enn í notkun.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Áhættumat á ökuleiðum - öryggis- og heilbrigðisáætlanir

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggis- og heilbrigðisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn vinnuslysum og óhöppum.  Þá ber nauðsyn til að verktakar og ökumenn gæti að reglum um þyngd ökutækja með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðarmannvirki. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í grein 1.10 í útboðsgögnum vegna verksins var verktaka gert skylt að gera öryggisáætlun vegna framkvæmdanna. Í því felst m.a. gerð áhættumats og fleira. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Öryggis- og heilbrigðisáætlun var skilað inn til verkkaupa, en sú áætlunin var vegna annars verks. Engin áætlun var unnin fyrir þetta tiltekna verk. Samkvæmt áætluninni átti að skipa öryggisfulltrúa, halda kynningarfund í upphafi verks um öryggismál og útbúa forvarnaráætlun. Samkvæmt upplýsingum frá aðalverktaka var það ekki gert.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að gert sé áhættumat á ökuleiðum, m.a. burðarþoli brúa, vegna framkvæmda sem krefjast mikilla farmflutninga og/eða mikils aksturs. Einnig telur nefndin mikilvægt að gerð sé öryggisúttekt á vegum og brúm vegna framkvæmda. Beinir nefndin þessari tillögu til Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Afgreiðsla

Útnesvegur við Hellissand

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
Staða máls: Lokuð
01.09.2016

Tillaga í öryggisátt

Hámarkshraðaskilti

Í 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökuhraði megi ekki vera meiri en 50 km/klst í þéttbýli nema annað sé tekið fram. Ekkert hámarkshraðaskilti er við þéttbýlisskiltið við þjóðveg 574 við eystri mörk Hellissands. Samkvæmt reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995 með síðari breytingum, ber að nota þéttbýlisskilti við akstursleiðir inn á svæði þar sem ákvæði umferðarlaganna um þéttbýli gilda. Því gildir 50 km/klst. hámarkshraði þar sem slysið varð þó svo að ekkert hámarkshraðaskilti gefi það til kynna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa gefur þetta slys tilefni til að yfirfara hraðamerkingar við þéttbýlismörk og samræma því finna má fleiri staði sambærilega þessum á þjóðvegakerfinu.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þessari tillögu til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að táknmyndin á þéttbýlisskiltinu D12.11 sé svipuð og finna má í nokkrum Evrópulöndum, en að auki hefur Vegagerðin sett upp upplýsingamerkið D20.11, hámarkshraðaupplýsingar. Á því skilti er tafla með hámarkhraðaupplýsingum, m.a. hver hámarkshraðinn er í þéttbýli. Vegagerðin telur mikilvægt að ferðamenn séu vel upplýstir um hvaða reglur gilda um hámarkshraða hér á landi og mun benda þeim aðilum, sem hafa umsjón með fræðsluefni sem ferðamönnum er afhent á bílaleigum, á þetta atriði. Vegagerðin mun einnig taka til skoðunar hvort fjölga þurfi upplýsingamerkjum af gerðinni D20.11.

Útnesvegur við Hellissand (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
Staða máls: Lokuð
01.09.2016

Tillaga í öryggisátt

Yfirborðsmerkingar
Í handbók Vegagerðarinnar um yfirborðsmerkingar frá janúar 2006 er þess getið að á vegi með árdagsumferð (ÁDU) 500 til 1000 ökutæki á sólarhring skal haft til viðmiðunar að miðlína sé sprautumössuð einu sinni á ári eða sjaldnar eftir þörfum og kantlína máluð annað hvert ár. Árdagsumferð á Útnesvegi milli Hellissands og Rifs var skv. umferðartölum 2014 709 ökutæki á sólarhring. Í svari veghaldara við fyrirspurn RNSA um viðhald yfirborðsmerkinga á Útnesvegi kom fram að verið var að mála miðlínur sama dag og slysið átti sér stað en kantlínur hafi ekki verið málaðar á þessum stað. Miðlínan var máluð í september 2014.

Rannsóknir sem nefndin hefur kynnt sér benda til þess að öryggisávinningur þess að vera með kantlínu á mjóum vegum sé jákvæður1. Kantlínur auðvelda ökumönnum að átta sig á legu vegar og akreina.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að endurskoða tíðni og framfylgja verklagi yfirborðsmerkinga á Útnesvegi í ljósi sívaxandi umferðar.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 tekur stofnuninn undir með RNSA að kanntlínur auki umferðaröryggi en vegna fjárskorts hefur Vegagerðin ekki getað málað kanntlínur í eins miklu mæli og æskilegt hefði verið. Í sumar hafi þó verið bætt í og nokkrir vegir málaði sem ekki höfðu kanntlínur áður, m.a. Snæfellsnesvegur frá Stykkishólmi vestur fyrir Hellissand. Vegagerðin mun leita allra leiða til að fá aukið fjármagn til yfirborðsmerkinga, þ.m.t. til málunar kantlína.