35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
23-047U009-T01 Forvarnir um svefn og þreytu hjá ökumönnum
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að flýta fyrirhuguðu átaki um forvarnir vegna svefns og þreytu ökumanna.
Samgöngustofa hefur verið með verkefnið „Nap and Go“ þar sem ferðamönnum sem lenda snemma morguns hefur verið boðin gisting á góðum kjörum nálægt Keflavíkurflugvelli. Ferðamenn hafa einnig verið varaðir við hættunni sem getur falist í að keyra eftir lítinn svefn á síðunni safetravel.is og á stýrisspjaldi sem bílaleigur afhenda.
Tímamismunur og næturflug gerir það að verkum að margir farþegar eru þreyttir við komuna til landsins og áfram næstu daga, ef ekki næst nægjanleg hvíld.
Hjá Samgöngustofu er á döfinni að framleiða fræðslumyndband um svefn og þreytu við akstur og til stendur að fara í auglýsingaherferð þar sem fólk er hvatt til að leggja bílum sínum þegar það er þreytt og leggja sig í 15 mínútur áður en lengra er haldið.
Upplýsingar er varða almennt þau áhrif og þær hættur sem þreyttir ökumenn skapa í umferðinni eru mikilvægar og geta um leið sýnt hvernig er hægt að bregðast við slíkri þreytu. Í rannsóknum hefur komið fram að þreyttir ökumenn geta verið jafn hættulegir og ölvaðir ökumenn. Evrópska umferðaröryggisstofnunin hefur sett fram í skýrslu að svefnleysi og þreyta sé veigamikill orsakaþáttur í 15% til 20% af alvarlegum umferðarslysum.[1]
[1] Ingrid van Schagen, 2021, Road Safety Thematic Report – Fatigue, European Road Safety Observatory.
Afgreiðsla
Í svari Samgöngustofu dags. 2 október 2024 kemur fram að svefn og þreyta við akstur verði þema fyrir alþjóðlegan minningardag um fórnarlömb umferðarslysa þessa árs. Einnig kemur fram í svarinu að í upphafi árs 2025 fari Samgöngustofa í herferð sem mun snúast um svefn og þreytu við akstur.
23-043U007T1. Hlífðarbúnaður bifhjólafólks
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að auka fræðslu um hlífðarbúnað bifhjólafólks.
Hjálmar veita vernd og mikilvægt er fyrir bifhjólafólk að vera ávallt með viðurkenndan hjálm á höfði. Ýmiss annar viðurkenndur búnaður veitir bifhjólafólki aukna vernd gegn áverkum í slysum. Hægt er að verða sér út um sérhannaðan hlífðarbúnað, svo sem buxur, jakka, brynjur, hanska og skó. Ef sá hlífðarbúnaður er CE merktur uppfyllir hann að öllu jöfnu staðla um hlífðarbúnað fyrir bifhjólafólk. Mikilvægt er að koma fræðslu á framfæri um slíkan búnað og hvetja enn frekar til notkunar á honum.
Afgreiðsla
Samgöngustofa tekur undir með RNSA um mikilvægi þess að efla fræðslu og hvetja til notkunar rétts öryggis- og hlífðarbúnaðar bifhjólafólks. Á vordögum 2025 verður staðið fyrir fjölmiðlaumfjöllun um öryggisbúnað bifhjólafólks og hefur Samgöngustofa þegar fengið til liðs við sig fyrirmynd í þeim efnum. Þá er ætlunin að koma á framfæri skilaboðum um mikilvægi öryggis- og hlífðarbúnaðar fram að árlegum vorfagnaði bifhjólafólks.
23-043U007T2. Skoðun bifhjóla
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara og vinna umbætur á skoðunarhandbók gagnvart skoðun bifhjóla.
RNSA telur ástæðu til þess að Samgöngustofa endurskoði þann hluta skoðunarhandbókar ökutækja sem snýr að skoðunum bifhjóla. Æskilegt er að bifhjól séu skoðuð með sambærilegum hætti og stór ökutæki þar sem sérþjálfaðir skoðunarmenn framkvæma skoðun með sérhæfðum tækjabúnaði. Slík aðstaða og þekking myndi auðvelda og bæta skoðanir bifhjóla. Nefndin leggur áherslu á að uppfærsla skoðunarhandbókar snúi meðal annars að skoðun á legubúnaði. Einnig að settar verði kröfur um hámarksaldur og lágmarks loftþrýsting hjólbarða bifhjóla. Þá telur nefndin að mikilvægt sé að setja í skoðunarhandbók ramma um breytingar sem gerðar eru á bifhjólum sem og ásetningu aukahluta.
Afgreiðsla
Samgöngustofa tekur undir með Rannsóknarnefnd samgönguslysa mikilvægi þess að yfirfara og vinna umbætur á skoðunarhandbók gagnvart skoðun bifhjóla. Verða skoðaðar breytingar á kröfum um sérhæfðan tækjabúnað til skoðunar bifhjóla og hvort mögulegt sé að setja skilyrði um athugun loftþrýstings. Einnig er ætlunin að skerpa á þeim atriðum í skoðunum sem snúa að breytingum á bifhjólum og ásetningu aukahluta.