35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
Útnesvegur við Hellissand
Tillaga í öryggisátt
Hámarkshraðaskilti
Í 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökuhraði megi ekki vera meiri en 50 km/klst í þéttbýli nema annað sé tekið fram. Ekkert hámarkshraðaskilti er við þéttbýlisskiltið við þjóðveg 574 við eystri mörk Hellissands. Samkvæmt reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995 með síðari breytingum, ber að nota þéttbýlisskilti við akstursleiðir inn á svæði þar sem ákvæði umferðarlaganna um þéttbýli gilda. Því gildir 50 km/klst. hámarkshraði þar sem slysið varð þó svo að ekkert hámarkshraðaskilti gefi það til kynna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa gefur þetta slys tilefni til að yfirfara hraðamerkingar við þéttbýlismörk og samræma því finna má fleiri staði sambærilega þessum á þjóðvegakerfinu.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þessari tillögu til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Afgreiðsla
Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að táknmyndin á þéttbýlisskiltinu D12.11 sé svipuð og finna má í nokkrum Evrópulöndum, en að auki hefur Vegagerðin sett upp upplýsingamerkið D20.11, hámarkshraðaupplýsingar. Á því skilti er tafla með hámarkhraðaupplýsingum, m.a. hver hámarkshraðinn er í þéttbýli. Vegagerðin telur mikilvægt að ferðamenn séu vel upplýstir um hvaða reglur gilda um hámarkshraða hér á landi og mun benda þeim aðilum, sem hafa umsjón með fræðsluefni sem ferðamönnum er afhent á bílaleigum, á þetta atriði. Vegagerðin mun einnig taka til skoðunar hvort fjölga þurfi upplýsingamerkjum af gerðinni D20.11.
Útnesvegur við Hellissand (1)
Tillaga í öryggisátt
Yfirborðsmerkingar
Í handbók Vegagerðarinnar um yfirborðsmerkingar frá janúar 2006 er þess getið að á vegi með árdagsumferð (ÁDU) 500 til 1000 ökutæki á sólarhring skal haft til viðmiðunar að miðlína sé sprautumössuð einu sinni á ári eða sjaldnar eftir þörfum og kantlína máluð annað hvert ár. Árdagsumferð á Útnesvegi milli Hellissands og Rifs var skv. umferðartölum 2014 709 ökutæki á sólarhring. Í svari veghaldara við fyrirspurn RNSA um viðhald yfirborðsmerkinga á Útnesvegi kom fram að verið var að mála miðlínur sama dag og slysið átti sér stað en kantlínur hafi ekki verið málaðar á þessum stað. Miðlínan var máluð í september 2014.
Rannsóknir sem nefndin hefur kynnt sér benda til þess að öryggisávinningur þess að vera með kantlínu á mjóum vegum sé jákvæður1. Kantlínur auðvelda ökumönnum að átta sig á legu vegar og akreina.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að endurskoða tíðni og framfylgja verklagi yfirborðsmerkinga á Útnesvegi í ljósi sívaxandi umferðar.
Afgreiðsla
Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 tekur stofnuninn undir með RNSA að kanntlínur auki umferðaröryggi en vegna fjárskorts hefur Vegagerðin ekki getað málað kanntlínur í eins miklu mæli og æskilegt hefði verið. Í sumar hafi þó verið bætt í og nokkrir vegir málaði sem ekki höfðu kanntlínur áður, m.a. Snæfellsnesvegur frá Stykkishólmi vestur fyrir Hellissand. Vegagerðin mun leita allra leiða til að fá aukið fjármagn til yfirborðsmerkinga, þ.m.t. til málunar kantlína.
Suðurlandsvegur Hólá
Tillaga í öryggisátt
Útrýming einbreiðra brúa á helstu vegum
Margar einbreiðar brýr má finna á íslenska þjóðvegakerfinu. Einbreiðar brýr skapa ávallt hættu, sérstaklega á vegum þar sem hraði er mikill. Einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum en því miður eru nú alls 698 einbreiðar brýr lengri en 4 metrar á þjóðvegum landsins. Þar af eru nokkrir tugir á hringveginum og er meðalaldur þeirra um 50 ár. Í samgönguáætlun 2011 – 2022 er sett það markmið að útrýma einbreiðum brúm á vegum með meðaltalsumferð á dag yfir 200 (ÁDU).
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til innanríkisráðherra að hann beiti sér sérstaklega fyrir því að nægu fé verði veitt til þess að ná markmiðum samgönguáætlunar.
Afgreiðsla
Í svarbréfi Innanríkisráðuneytisins dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að Alþingi hafi samþykkt þann 12. október 2016 tillögu Innanríkisráðherra um aukið fé til breikkunar brúa í samgönguáætlun. Samkvæmt henni mun 1.600 milljónum kr. verða veitt á árunum 2017 og 2018 til þessa verkefnis.
Suðurlandsvegur Hólá (1)
Tillaga í öryggisátt
Betri merkingar við einbreiðar brýr
Þó svo að markvisst verði unnið að því að fækka einbreiðum brúm þá mun verkefnið taka nokkurn tíma. Mikil fjölgun hefur orðið á komum erlendra ferðamanna á undanförnum árum og spár gera ráð fyrir áframhaldandi aukningu ferðamanna. Á örfáum árum hefur umferð yfir brúna yfir Hólá aukist hratt, sennilega mest vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Meðaltalsumferð á sólarhring að vetrarlagi var rétt rúmlega 100 ökutæki árið 2011 en tæplega 300 árið 2015. Meðaltalsumferð að sumarlagi á sólarhring árið 2015 voru tæp 1300 ökutæki. Því er nokkuð ljóst að á komandi árum mun mikill fjöldi ökumanna, sem ekki eru staðkunnugir og hafa jafnvel aldrei áður ekið yfir einbreiðar brýr á þjóðvegum, aka um vegi landsins.
Af þeim sökum er afar mikilvægt að merkja einbreiðar brýr vel, með góðum fyrirvara og jafnvel lækka hámarkshraða. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að yfirfara þessi mál með erlenda ferðamenn í huga.
Afgreiðsla
Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 18. nóvember 2016 kemur fram að nú þegar hefur verið brugðist við með því að bæta við merkingum í 500 metra fjarlægð og blikkljósum fjölgað við einbreiðar brýr. Merkin hafa verið stækkuð, endurskin aukið og yfirborðsmerkingar yfirfarnar. Sérstök áhersla er lögð á brýr á Suðurlandsvegi að Höfn í Hornafirði í ljósi mikillar aukningar á umferð á þeim vegkafla en áfram verður unnið að sambærilegum breitingum víðar á landinu í framhaldinu.
Vestdalseyrarvegur
Tillaga í öryggisátt
Dæming skoðunaratriða og skyldur umráðamanna ökutækja til lagfæringa
Við rannsókn slyssins á Vestdalseyrarvegi kom í ljós að leki var í höggdeyfum bifreiðarinnar. Athugasemdir höfðu verið gerðar við höggdeyfa bifreiðarinnar í aðalskoðun árin 2011, 2013 og 2014 en það ekki verið lagfært. Þegar gerð er svonefnd Athugasemd 1 við ástand bifreiðar í aðalskoðun er ekki gerð krafa um að komið sé með ökutæki í endurskoðun. Þrátt fyrir það ber eiganda/umráðamanni ökutækis að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun, innan mánaðar (reglugerð um skoðun ökutækja nr.8/2009)
Rannsóknarnefnd samgönguslysa brýnir fyrir eigendum ökutækja að virða niðurstöður aðalskoðunar og tryggja þannig að ökutæki séu í sem bestu ásigkomulagi. Einnig beinir nefndin því til Samgöngustofu að kanna hvort breyta þurfi reglugerð um skoðun ökutækja með það fyrir augum að umráðamenn fái ekki skoðun, ef þeir trassa ítrekað að lagfæra niðurstöður dæmingar 1.
Afgreiðsla
Í svarbréfi frá Samgöngustofu sem nefndinni barst 22. mars 2019 er nefndinni tilkynnt að unnið sé að útfærslu til þess að bregðast við því að ökutæki geti komist í gegn um skoðun ár eftir ár með sömu athugasemdina.
Ártúnsbrekka 21.12.2015 (2)
Tillaga í öryggisátt
Aukahlutir í sjónsviði ökumanns út um rúður ökutækja
Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 822 frá 2004 með síðari breytingum er kveðið á um að ökumaður skuli hafa góða útsýn úr sæti sínu fram fyrir ökutækið og til beggja hliða, og samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er óheimilt að hafa hvers konar aukahluti innan á eða innan við framrúðu og fremstu hliðarrúðu sem geta takmarkað útsýn. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til eigenda leigubifreiða að hafa þessar málsgreinar reglugerðarinnar í huga þegar búnaður er settur í ökutækin. Nefndin beinir því einnig til Samgöngustofu að taka þetta atriði upp með fyrirtækjum sem stunda skoðun á ökutækjum.
Afgreiðsla
Í svari sem RNSA barst 22.3.2019 kemur fram að Samgöngustofa hefur bæði fyrir og eftir þetta slys ítrekað við skoðunarstofur að setja út á byrgjandi hluti í sjónsviðið við skoðun ökutækja.
Ólafsvíkurhöfn
Tillaga í öryggisátt
Hafnarkantur og bílastæði
Tilgangur hafnarkanta er að koma í veg fyrir að bifreiðar og önnur tæki geti auðveldlega farið fram af og ofan í sjó. Þeir eiga að þola ákeyrslu og vera málaðir ljósgulum lit til að vara fólk við. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Ólafsvíkurhafnar að varna því að snjór safnist við hafnarkantinn með framangreindum afleiðingum. Beinir nefndin því einnig til Vegagerðarinnar að senda þessa tillögu í öryggisátt til annarra hafna.
Þar sem bílastæði eru skipulögð upp við bryggjukanta eins og gert er á slysstað ætti að mati RNSA að gera ríkari kröfur um varnargildi hafnarkanta. Nefndin beinir því til Vegagerðarinnar að taka þetta atriði til skoðunar.
Afgreiðsla
Í svarbréfi dagsettu 22. júní 2017 kemur fram að Vegagerðin hefur sent tillöguna áfram til Hafnarsambands Íslands. Vegagerðin mun hafa tillöguna til hliðsjónar við mannvirkjagerð á höfnum sem hún hefur aðkomu að.
Þingskálavegur
Tillaga í öryggisátt
Slitlagsskemmdir
Á veginum voru slitlagsskemmdir, bæði holur og eins þar sem reiðvegur liggur þverar veginn um 200 metrum norðan við slysstað. Þar sem reiðvegurinn liggur yfir veginn hafði brotnað talsvert úr slitlaginu.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við veghaldara að gera úttekt á veginum og lagfæra slitlagsskemmdir.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 3. október frá veghaldara kemur fram að viðgerð hafi farið fram á slitlagi Þinskálavegs.
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (1)
Tillaga í öryggisátt
Öryggi vegarins
Veglínan er hættuleg, bæði er brekkan brött og eins er beygjan neðst kröpp og hátt fall fram af veginum. Við rannsókn á slysinu kom fram að reglulega lenda ökumenn í vandræðum í þessari beygju og keyra á vegriðið. Þegar þetta slys varð var vegriðið mikið skemmt eftir fyrri slys.
Vegriðið hefur bjargað mörgum frá því að lenda út af veginum og niður brattan vegfláann þó svo að óvíst sé að óskemmt vegrið hefði haldið þeirri þungu vagnlest sem hér um ræðir. Mörg þessara slysa hafa verið án meiðsla, en í ljósi þeirra og þess slyss sem hér er um fjallað leggur nefndin til við veghaldara að gerðar verði úrbætur á veginum til að auka öryggi vegfarenda.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 27. nóvember frá veghaldara kemur fram að gerð hefur verið tillaga að nýrri veglínu. Einnig kemur fram í bréfinu að í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árið 2015 - 2016 er gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verks á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2023 -2016.
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (2)
Tillaga í öryggisátt
Skoðunarhandbók
Umræddur vagn hafði verið tekinn til skoðunar á skoðunarstöð 12 dögum fyrir slysið. Hlaut hann athugasemdir við alls 8 atriði, þar af 3 við ástand hemla. Að mati nefndarinnar er ekki ásættanlegt að ökutæki, og þá sérstaklega þung ökutæki, séu á vegum landsins með margvíslegar bilanir á öryggisbúnaði sínum.
Að mati RNSA ætti að setja mörk á fjölda atriða sem sett er út á án þess að fá akstursbann. Beinir nefndin þeirri tillögu til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Nefndin telur einnig að rétt sé að skrá hemlun og hemlunargetu (skoðunaratriði nr. 884 og 886) við aðalskoðun ökutækja á skoðunarvottorð líkt og gert er við mengunarmælingar. Beinir nefndin þeirri tillögu einnig til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 16. maí 2018 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið tekur undir tillögu nefndarinnar og hefur beint því til Samgöngustofu að taka tillöguna til skoðunar og mögulegar útfærslur í samráði við hagsmunaaðila.