Tillögur í öryggisátt Síða 11

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Tillaga um breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja

Umferð
Nr. máls: 2018-005U002
Staða máls: Opin
05.02.2020

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að leggja til breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja með það að markmiði að skerpa á kröfum um hjólbarða við vetraraðstæður þannig að krafa um vetrarhjólbarða í vetrarfærð sé skýr.

 

Afgreiðsla

Með bréfi Samgöngustofu dagsettu 9. maí 2020 svaraði Samgöngustofa tillögu nefndarinnar. Samgöngustofa tekur undir það að full tilefni sé til að skoða betur kröfur til vetrarhjólbarða. Fram kemur m.a. framað horfa þurfi til margra atriða áður en endanleg afstaða liggi fyrir auk þess sem aðkoma samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins yrði nauðsynleg við veigamikilar ákvarðanir. Samgöngustofa muni koma afstöðu sinni til RNSA þegar hún liggur endanlega fyrir.

Rannsóknarnefndin fagnar því að Samgöngustofa muni ráðast í frekari skoðun á þessum þáttum reglugerðarinnar.

Þar sem ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða verður tillagan áfram opin.

Reglugerð um frágang farms

Umferð
Nr. máls: 2020-069U006
Staða máls: Opin
29.06.2021

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgönguráðuneytisins að endurskoða reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms með það að markmiði að í reglugerðinni verði sérstaklega tekið til krókheysisgáma og frágangs þeirra.

Rannsókn RNSA bendir til þess að nauðsynlegt sé að skerpa á reglum um notkun á krókheysisgámum en í núverandi reglugerð er ekki gert ráð fyrir þessari gerð farms eða gáma. Nauðsynlegt er að setja viðmið fyrir notendur.

Afgreiðsla

Veðurfréttir

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
Staða máls: Opin
20.03.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til RÚV að yfirfara verklag við gerð veðurkorta.

Við rannsókn málsins kom fram að ökumaðurinn hafði horft á veðurfréttirnar í seinni kvöldfréttatíma á RÚV rétt fyrir slysið. Á veðurkortinu sem sýnt var þar voru gular vindaviðvaranir birtar yfir Suðausturlandi en vindur var birtur sem norðvestan 9 til 10 m/s á hafsvæðinu suður af spásvæðinu. Vindhraðatölur sem birtast á veðurkortinu gefa til kynna spá um vindhraða á þeim stað þar sem þær eru settar. Hins vegar var í vindaspá sem Veðurstofa Íslands gaf út morguninn fyrir slysið fyrir Suðausturland gert ráð fyrir að vindur yrði á bilinu 18 til 25 m/s.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa getur þessi framsetning skapað misskilning hjá áhorfendum.

Afgreiðsla

Stuðningur við innleiðingu nýs vottorðseyðublaðs

Umferð
Nr. máls: 2023-019U005
Staða máls: Opin
16.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til innviðaráðuneytisins að styðja Samgöngustofu við þróun og innleiðingu á nýju eyðublaði um læknisvottorð sem snýr að því mati hvort umsækjendur um ökuskírteini fullnægi III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og kveðið er á um í 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum, og leita í því skyni, ef þörf er á, aðstoðar annarra ráðuneyta og undirstofnana þeirra.

Drög að nýju vottorðseyðublaði vegna læknisskoðunar fyrir veitingu eða endurnýjun ökuréttinda hafa verið í vinnslu hjá Samgöngustofu. Gildandi vottorðseyðublað er áratuga gamalt og þarfnast endurnýjunar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að innviðaráðuneytið styðji Samgöngustofu við þróun og framkvæmd á innleiðingarferli á nýju vottorðseyðublaði og sjái til þess að stofnunin fái þann stuðning sem hún þarf við verkefnið, m.a. frá öðrum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.

Afgreiðsla

23-046U008 T08. Notkun riffla á vegum

Umferð
Nr. máls: 2023-046U008
Staða máls: Opin
13.05.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að fræsa rifflur í yfirborð vega þar sem aðstæður og tegund bundins slitlags býður upp á slíkt.

Þar sem breidd vega og tegund bundins slitlags gefa tækifæri til fræsunar á rifflum telur Rannsóknarnefnd samgönguslysa að það ætti að gera. Umferðarrannsóknir sem snúa að notkun riffla á vegum sýna ávallt jákvæðar niðurstöður gagnvart umferðaröryggi.

Afgreiðsla

23-043U007T1. Hlífðarbúnaður bifhjólafólks

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
Staða máls: Opin
24.09.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að auka fræðslu um hlífðarbúnað bifhjólafólks.

Hjálmar veita vernd og mikilvægt er fyrir bifhjólafólk að vera ávallt með viðurkenndan hjálm á höfði. Ýmiss annar viðurkenndur búnaður veitir bifhjólafólki aukna vernd gegn áverkum í slysum. Hægt er að verða sér út um sérhannaðan hlífðarbúnað, svo sem buxur, jakka, brynjur, hanska og skó. Ef sá hlífðarbúnaður er CE merktur uppfyllir hann að öllu jöfnu staðla um hlífðarbúnað fyrir bifhjólafólk. Mikilvægt er að koma fræðslu á framfæri um slíkan búnað og hvetja enn frekar til notkunar á honum.

Afgreiðsla

23-043U007T2. Skoðun bifhjóla

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
Staða máls: Opin
24.09.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara og vinna umbætur á  skoðunarhandbók  gagnvart skoðun bifhjóla. 

RNSA telur ástæðu til þess að Samgöngustofa endurskoði þann hluta skoðunarhandbókar ökutækja sem snýr að skoðunum bifhjóla. Æskilegt er að bifhjól séu skoðuð með sambærilegum hætti og stór ökutæki þar sem sérþjálfaðir skoðunarmenn framkvæma skoðun með sérhæfðum tækjabúnaði. Slík aðstaða og þekking myndi auðvelda og bæta skoðanir bifhjóla. Nefndin leggur áherslu á að uppfærsla skoðunarhandbókar snúi meðal annars að skoðun á legubúnaði. Einnig að settar verði kröfur um hámarksaldur og lágmarks loftþrýsting hjólbarða bifhjóla. Þá telur nefndin að mikilvægt sé að setja í skoðunarhandbók ramma um breytingar sem gerðar eru á bifhjólum sem og ásetningu aukahluta.

Afgreiðsla

23-043U007T3. Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
Staða máls: Opin
24.09.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytisins að setja í  reglugerð ákvæði um flokkun, gerð og notkun öryggis- og verndarbúnaðar óvarinna vegfarenda sbr. 4. mgr. 79. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum.

Ákvæði 78. og 79. gr. umferðarlaga fjalla takmarkað um öryggis- og verndarbúnað við akstur bifhjóla og torfærutækja. RNSA telur þörf á ítarlegri reglugerðarákvæðum um hlífðarbúnað óvarinna vegfarenda annarra en gangandi.

Afgreiðsla