Tillögur í öryggisátt Síða 7

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Öryggisúttekt

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
Staða máls: Lokuð
22.06.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Reykjavíkurborgar að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna þar að úrbótum til að auka umferðaröryggi á hjóla- og göngustígnum við Sæbraut með áherslu á lýsingu.

Lýsing á slysstað uppfyllti kröfur sem giltu þegar stígurinn var hannaður 1999 en uppfyllir ekki núverandi kröfur. Birtukröfur í stöðlum hafa ekki breyst en þarfir og túlkun þeirra hefur þróast með tilkomu díóðulampa og með aukinni umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

Nefndin leggur til að veghaldari skoði við fyrirhugaðar breytingar á veglýsingu á Sæbraut, díóðulýsingu í stað natríumlýsingar, áhrif þeirra á lýsingu á Mánastíg en tryggja þarf góða birtu og sjónlengdir miðað við umferðarhraða allra vegfarenda.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 12. maí 2023 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að tekið sé undir mikilvægi þess að stofnstígar séu vel upplýstir, og að bætt lýsing sé jákvæð fyrir notkun og öryggi stígsins. Í dag nýtur stígurinn, á þeim stað sem slysið varð, lýsingar frá Sæbraut. Þegar núverandi lýsingu verður skipt út fyrir led-/díóðulýsingu, þá mun lýsing á stígnum versna. Því er gert ráð fyrir að komið verði fyrir sérstakri stíglýsingu. Slík framkvæmd er ekki tímasett en gæti orðið samhliða fyrirhugaðri endurgerð sjóvarnargarða meðfram ströndinni.

Í nóvember 2023 var gefin út skýrsla á vegum Reykjavíkurborgar um umferðaröryggisrýni á slysstað. Helstu niðurstöður voru þær að hjólastígurinn uppfylli viðmið samkvæmt hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar. Lýsing meðfram stígnum uppfyllir hinsvegar ekki núgildandi viðmið Reykjavíkurborgar um stíglýsingu. Rýnar skýrslunnar telja að mikilvægt sé að koma upp sér stígalýsingu þar sem mikill munur var á upplifun á aðstæðum á stígnum í myrkri og birtu.

Forvarnir um svefn og þreytu hjá ökumönnum

Umferð
Nr. máls: 2022-043U006
Staða máls: Lokuð
24.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að leggja áherslu á forvarnir vegna svefns og þreytu ökumanna.

Ökumaður bifreiðarinnar í þessu slysi kom til landsins með flugi aðfararnótt 15. júní og slysið varð um miðjan dag þann 16. júní. Tímamismunur og næturflug gerir það að verkum að margir farþegar eru þreyttir við komuna til landsins og áfram næstu daga, ef ekki næst nægjanleg hvíld.

Upplýsingar er varða almennt um þau áhrif og þær hættur sem þreyttir ökumenn skapa í umferðinni eru mikilvægar og geta um leið sýnt hvernig er hægt að bregðast við slíkri þreytu. Í rannsóknum hefur komið fram að þreyttir ökumenn geta verið jafn hættulegir og ölvaðir ökumenn í umferðinni. Evrópska umferðaröryggisráðið hefur staðfest að svefnleysi og þreyta sé veigamikill orsakaþáttur í minnst fimmta hverju umferðaslysi.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur verið með verkefnið "Nap and Go" þar sem ferðamönnum er boðin gisting á hóteli á góðum kjörum nálægt Keflavíkurflugvelli á milli kl. sex og tólf sama morgun og þeir lenda á Íslandi.

Ferðamenn eru nú einnig varaðir við hættunni sem getur falist í að keyra eftir lítinn svefn á síðunni safetravel.is og á stýrisspjaldi sem bílaleigum er afhent. Mun Samgöngustofa leitast eftir því að undirstika þessa hættu enn frekar á komandi mánuðum.  Þá mun Samgöngustofa framleiða nýja fræðslumynd um svefn og þreytu við akstur og mun samhliða útgáfu hennar halda málþing um málefnið.

Árið 2025 mun Samgöngustofa setja fjármagn í að útbúa nýja auglýsingaherferð sem verður í takti við eldri herferð þar sem fólk er hvatt til að leggja bílnum þegar það er þreytt og leggja sig í 15 mínútur áður en lengra er haldið.

Heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir

Umferð
Nr. máls: 2022-043U006
Staða máls: Lokuð
24.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að vinna að heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir á vegakerfi landsins. Einnig að endurskoða/yfirfara verklag og kostnaðarlíkön við ákvarðanir á gerð slitlags á vegi nr. 1 meðal annars að teknu tilliti til möguleika á fræsun riffla og áhrifa þeirra á umferðaröryggi.

Vegflokkar eru fjórir, stofnvegir, tengivegir, héraðsvegir og landsvegir. Vegtegundir eru A, B, C og D. Á slysstað er vegflokkurinn stofnvegur og hluti hringvegar um landið en breidd slitlags féll undir vegtegund C7 þar sem slitlag var 6 metrar á breidd. Vegtegund C7 skal ekki nota sem stofnvegi en nokkuð er um eldri vegi sem ekki falla að núgildandi hönnunarreglum Vegagerðarinnar. Umferðarrýmd C7 vegtegunda er ÁDU ≤ 500 ökutæki á sólarhring en á hringvegi nr. 1 er ÁDU > 501 ökutæki á sólarhring nema á stöku stað á Austfjörðum. Þar sem klæðning er notuð sem bundið slitlag er ekki hægt að fræsa rifflur í vegi. Síðastliðin 10 ár hefur álagið á stofnvegum landsins aukist talsvert, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna, sem huga þarf að við val á tegund af bundnu slitlagi.

Afgreiðsla

Vegagerðin vinnur nú að heildstæðu umferðaröryggismati á vegakerfinu og gert er ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu árið 2025. Í undirbúningi þess verkefnis hefur verið unnið að kortlagningu á raunverulegri breidd vega sem m.a. liggja til grundvallar varðandi flokkun vega m.t.t. umferðaröryggis. Vegagerðin hefur ákveðið að birta í vegaskrá upplýsingar um raunverulega vegtegund vega. Með því að flokka vegakerfið í heildstæðu umferðaröryggismati og birta upplýsingar um áætlaða vegtegund hvers kafla á vegkerfinu verða til betri upplýsingar um raunverulega stöðu vegakerfisins

Í samræmi við greiningu frá árinu 2010, sem byggði á mati á stofn- og viðhaldskostnaði í tengslum árherslur við val á gerð slitlaga, geti mörkin við malbiksslitlag verið á bilinu 2.000 til 5.000 ökutæki / sólarhring. Vegagerðin stefnir að því að endurskoða þessi viðmið þar sem auk mats á viðhalds- og stofnkostnaði verði horft til kostnaðar vegfarenda og samfélagslegs kostnaðar vegna slysa.

Vegagerðin bendir á að þó að viðmið varðandi gerð slitlaga verði gerð eru það fyrst og fremst fjárveitingar til viðhalds þjóðvega sem hafa áhrif á það hversu hratt gengur en á undanförnum árum hafa fjárveitingar til viðhalds á vegakerfinu verið töluverð innan við viðhaldsþörf.

Áhættumat og öryggisáætlun f. Framhaldsskólann á Laugum

Umferð
Nr. máls: 2022-008U001
Staða máls: Lokuð
28.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn slysum. Beinir nefndin þeirri tillögu til stjórnenda Framhaldsskólans á Laugum að framkvæma áhættumat og öryggisáætlun fyrir starfsemi skólans.

Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað en skólar eru vinnustaðir nemenda samkvæmt lögum um grunn- og framhaldsskóla. Í því felst m.a. gerð áhættumats. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan- eða utanhúss, þar sem starfsmaður/nemandi hefst við eða þarf að fara um. Með áhættumati eru áhættur sem fylgja viðkomandi starfsemi kortlagðar. Framkvæmd er greining og mat á vinnuumhverfinu með tilliti til öryggis, vellíðunar og heilsu starfsmanna/nemenda ásamt samantekt á niðurstöðum áhættumatsins. Áhættuþættir eru dregnir fram og metnar líkur á að starfsmaður/nemandi verði fyrir heilsutjóni eða slysi á vinnustað. Áhættumatið er kerfisbundin greining á öllum þáttum vinnuumhverfisins og flokkun áhættuþátta með tilliti til alvarleika fyrir fólk á vinnustaðnum. Áhættumat leggur þannig grunn að markvissum aðgerðum sem lágmarka áhættur á sem hagkvæmastan hátt. Slíkt áhættumat getur til dæmis snúið að hættum í umhverfi vinnustaða eins og skóla þegar vinnuaðstaða þeirra er einnig utanhúss og snýr að hjólum og snjóþotum á skólalóðinni og hættum sem geta skapast af þeim og nánasta umhverfi þeirra eins og akstri ökutækja í grennd við skóla.

Afgreiðsla

Í svari frá skólastjórnendum Framhaldsskólans á Laugum þann 28. nóvember 2023 kom fram að lokið hefur verið við áætlun skólans um öryggi og heilbrigði í samræmi við tillögu Rannsóknarnefndar.  Þá kom einnig fram að skólastjórnendur eru langt komnir með greiningu á áhættu og áfallaþoli, sem verður skilað að fullu fyrir áramót.

Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga

Umferð
Nr. máls: 2022-008U001
Staða máls: Lokuð
28.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið.

Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið Þingeyjarsveit. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Helstu markmið umferðaröryggisáætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Í umferðaröryggisáætlun geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka (eða hraðaflokka), umferðarmagn, yfirborðsmerkingar, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna[1]. Mörg bæjarfélög hafa unnið markvisst að uppbyggingu 30 km/klst hverfa undanfarin ár í samræmi við umferðaröryggisáætlanir. Lækkun hámarkshraða, meðal annars í nánd við skóla, samræmist gerð umferðaröryggisáætlana sem unnar eru með því markmiði að bæta umferðaröryggi í sveitafélögum.

[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannsvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.

Afgreiðsla

Þingeyjarsveit hefur sett á fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 fjármagn í gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir sveitarfélagið.  Vinna við áætlunina mun hefjast á hausdögum 2024 og verður hún unnin í samræmi við leiðbeiningar um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga frá 2010 sem gefin er út af Vegagerðinni, Samgöngustofu og Mannvit.

Bætt öryggi vegfarenda við listaverk á hafnarsvæði

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
Staða máls: Lokuð
22.02.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að greina og útfæra breytingar til að tryggja öryggi vegfarenda á svæðinu við listaverkið eggin við Víkurland.

Blandað er saman umferð ferðamanna og þungrar atvinnustarfsemi án varanlegrar aðgreiningar með tilliti til umferðaröryggis á svæðinu við listaverkið. Um Víkurland er talsverð umferð, bæði atvinnutækja sem og annarra ökutækja en samkvæmt talningu Vegargerðarinnar var ársdagsumferð á milli hafnarsvæða á Djúpavogi 430 ökutæki árið 2022. Umferð ferðamanna um svæðið hefur aukist mikið undanfarin ár, sérstaklega með komu skemmtiferðaskipa og telur nefndin því mikilvægt að greina og útfæra varanlegar breytingar á svæðinu annars vegar að teknu tilliti til umferðar gangandi vegfarenda og hins vegar að teknu tilliti til umferðar ökutækja.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 24. apríl 2024 er nefndinni tilkynnt að sveitarfélagið Múlaþing hafi þegar brugðist við tillögu nefndarinnar. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við gerð gangstéttar í Gleðivík á vormánuðum 2024 sem munu afmarka á skýran hátt aksturs- og gönguleiðir á svæðinu.  Áætluð verklok eru í október 2024.

Breytingar á skipulagi sveitarfélagsins

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
Staða máls: Lokuð
22.02.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að vinna að breytingum á skipulagi fyrir hafnarsvæðið, þar sem slysið varð, meðal annars til að tryggja umferðaröryggi gangandi vegfarenda.  

Ekki voru gerðar breytingar á skipulagsáætlunum fyrir svæðið þar sem slysið varð áður en listaverk var sett upp, en gera mátti ráð fyrir að listaverkið drægi að sér nokkurn fjölda vegfarenda.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 24. apríl 2024 er nefndinni tilkynnt að sveitarfélagið Múlaþing hafi þegar brugðist við tillögu nefndarinnar. Vinna er hafin við breytingu á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags við Gleðivík.  Skipulags- og matslýsing var kynnt í apríl 2024 og er gert ráð fyrir gildistöku nýs skipulags í upphafi árs 2025.

Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
Staða máls: Lokuð
22.02.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sameinað sveitafélag.

Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir Djúpavog sem þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins Múlaþings. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Helstu ástæður fyrir gerð slíkra áætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Þar geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka, umferðarmagn, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna t.d. þar sem óvarðir vegfarendur fara um[1].

 

[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 24. apríl 2024 er nefndinni tilkynnt að sveitarfélagið Múlaþing hafi þegar brugðist við tillögu nefndarinnar. Samið hafi verið við þekkingarfyrirtæki um að annast framkvæmd umferðaröryggisáætlunar fyrir Djúpavog sem þéttbýlisstaðar innan sveitarfélagsins og skal því verða lokið eigi síðar en 1. nóvember 2024.

22-058U011T1 Bæta merkingar og aðgengi vegf.

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
Staða máls: Lokuð
12.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Akureyrarbæjar að sjá til þess að bætt sé úr merkingum og gönguþverunum við vinnusvæði Hofsbótar 2, þar sem slysið varð, til að auka umferðaröryggi og þar með tryggja öryggi óvarinna vegfarenda um svæðið.

Unnin var áætlun fyrir merkingar vegna framkvæmdanna en í þessari skýrslu koma fram ágallar á merkingum og aðgengi gangandi vegfarenda. Merkingar á vegi sjást t.d. ekki þegar snjóað hefur yfir þær og þurfa því að vera meira afgerandi. Einnig þarf að gæta þess að eldri merkingar á vegstæði séu í samræmi við umferð á framkvæmdatíma.

Afgreiðsla

Þegar skýrsla RNSA lá fyrir voru framkvæmdir á svæðinu langt komnar og hefur
verið unnið að frágangi á svæðinu síðan þá. Við skipulag á frágangi svæðisins hefur
sérstaklega verið horft til aðgerða til að tryggja öryggi óvarinna vegfarenda um svæðið.

22-058U011T2 Öryggisáætlun við framkvæmdir

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
Staða máls: Lokuð
12.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Akureyrarbæjar að þegar framkvæmdir hafa áhrif á umferð gangandi og eða akandi sé fylgt eftir að unnin sé öryggisáætlun og skipaður eftirlitsmaður í samræmi við reglugerð þess efnis.

Fram kemur í reglugerð um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir nr. 492/2009 að veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar og öllum þeim vegmerkingum og útbúnaði sem er til staðar í því vegakerfi sem hann hefur umsjón með og rekur. Þá segir í sömu reglugerð að áður en framkvæmdir hefjast á og við veg skuli verktaki gera ítarlega öryggisáætlun þar sem lýst er nauðsynlegum öryggisráðstöfunum vegna framkvæmdanna. Mikilvægt er að allar breytingar, jafnvel tímabundnar, sem snúa að umferð gangandi eða ökutækja séu í samræmi við gildandi umferðarlög og reglur. Þar komi meðal annars fram hvernig afmarka skuli vinnusvæði, hvernig merkingum á og við svæðið skuli háttað og hvort og hvernig skipuleggja skuli hjáleiðir sem og að koma eigi í veg fyrir að merking vega gefi villandi upplýsingar um ástand vegar og umferð um hann. Þá skal bera öryggisáætlun undir veghaldara til samþykkis og skal samþykkt eintak öryggisáætlunar vera tiltækt á vinnusvæði og hjá lögreglu í viðkomandi lögsagnarumdæmi. Í þessu tilviki var merking á yfirborði vegar röng. Einnig vantaði uppsetningu fleiri gönguþverana og varnir gangandi vegfarenda voru ófullnægjandi.

Afgreiðsla

Í bréfi frá Akureyrarbæ dags. 6. september 2024 kom fram að tekið verði tillit og sett frekari skilyrði við útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa til samræmis við kröfur reglugerðar til samþykktar veghaldara.

Einnig mun Akureyrarbær setja ítarlegri skilyrði en verið hefur gagnvart verktökum við framkvæmdir á verkum, um þætti sem snúa að gangandi eða akandi umferð, sem ekki eru framkvæmdaleyfisskyldar. Jafnframt að framkvæmdaraðili þurfi að tilnefna eftirlitsmann í samræmi við kröfur ofangreindrar reglugerðar.