Tillögur í öryggisátt Síða 6

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Hönnun á umferðarmannvirkjum fyrir alla vegfarendur

Umferð
Nr. máls: 2021-016U005
Staða máls: Lokuð
21.03.2022

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggja sérstaka áherslu á það við hönnun gatnamóta að öryggis og hagsmuna gangandi og hjólandi vegfarenda sé vel gætt.

Það er mat RNSA að nauðsynlegt sé að skoða í öllum tilfellum leiðir annarra vegfarendahópa samhliða hönnun gatnakerfis fyrir götuskráð ökutæki. Gæta ber vel að merkingum göngu- og hjólaleiða, lýsingu við gatnamót og umferðarstýringu. Gangandi vegfarendur eru fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri og með misjafna getu, m.a. barna og annarra sem geta átt erfitt með að átta sig á bestu leið um eða framhjá flóknum og umferðarþungum gatnamótum. 

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 10. mars 2022 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að Garðabær hafi fengið Eflu til að rýna gönguleiðir á svæðinu. Niðurstaðan voru 7 aðgerðir sem miða að því að auka aðgengi og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í og frá Urriðaholti. Meðal annars var mælt með því, í skýrslu Eflu, að koma sem fyrst fyrir kodda við gönguþveranir á gatnamótum Urriðaholtsbrautar og Austurhrauns sem og strætó kodda við gönguþverun yfir hjárein við gatnamót Kaupatúns, Urriðaholtsstrætis og rampa Reykjanesbrautar.

Jökulsárlón

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Skipulag umferðar við Jökulsárlón

Árið 2013 var samþykkt deiliskipulag fyrir Jökulsárlón og var það mat þeirra sem unnu tillöguna (Gláma-Kím Arkitektar) að viðbúnaður vegna móttöku ferðamanna á Breiðamerkursandi væri lítil og ekki í neinu samræmi við gestafjöldann. Sæjust þess merki í umhverfinu, s.s. að akstur utan vega væri stundaður í miklum mæli og augljós skortur væri á skipulögðum bílastæðum og áningarstöðum með merkingum og upplýsingum, snyrtingum og sorpílátum. Er tekið fram að mikil þörf sé á bættri og breyttri aðstöðu til móttöku ferðamanna við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.

Beinir RNSA því til eigenda jarðarinnar Fells og rekstraraðila við lónið að hefja uppbyggingu mannvirkja í samræmi við gildandi deiliskipulag sem bæta  umferðaröryggi og draga þannig úr slysahættu. Umferð gangandi vegfarenda, ökutækja, hjólabáta og þyrla þarf að afmarka betur og merkingar skortir. Svæðið þarf að vera vel skipulagt og skýrt merkt til að tryggja öryggi fólks. Nefndin beinir þessari tillögu einnig til sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 6. september 2017 sem Sveitarfélagið Hornafjörður sendi nefndinni kemur fram að hafin er endurskoðun á gildandi deiluskipulagi. Mun verða horft sérstaklega til umferðaröryggis og öryggis ferðamanna á svæðinu í þeirri vinnu. Sveitarfélagið hafi, og mun áfram beita þrýstingi á að uppbygging verði hafin sem fyrst svo markmiðum um aukið öryggi náist. 

Jökulsárlón (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Öryggisáætlun um akstur og siglingu hjólabátanna

Við rannsókn málsins kom fram að öryggisáætlanir hjólabátanna snúa fyrst og fremst að siglingu þeirra á lóninu. Nauðsynlegt er að öryggisbúnaði bátanna sé ávallt haldið í fullkomnu lagi í samræmi við skráða öryggisáætlun og að til sé varabúnaður sem koma má fyrir ef viðgerð dregst. Að öðrum kosti verði viðkomandi báti lagt þar til öryggisbúnaði hefur verið komið í lag eða aukin gæsla sett í gang. Einnig er til bóta að búa bátana hljóðmerkisbúnaði til aðvörunar þegar þeim er bakkað. Eins er mikilvægt  að aðgreina svæðið þar sem hjólabátar athafna sig og takmarka umferð gangandi vegfarenda kringum bátana þegar þeim er ekið. Að mati RNSA væri heppilegast að aldrei þyrfti að bakka hjólabátunum vegna slæms útsýnis frá þeim á landi.  Öruggast væri að bátarnir ækju hring þannig að ekki þyrfti að bakka þeim í hverri ferð eftir að búið er að sækja farþega við landgang.

RNSA beinir því til rekstraraðila hjólabáta við Jökulsárlón að uppfæra öryggisáætlun hjólabátanna með tilliti til öryggis við akstur þeirra á landi.

Afgreiðsla

Jökulsárlón (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Reglum um hjólabáta er ábótavant

RNSA beinir því til Samgöngustofu að skoða sérstaklega skráningu, kröfur og réttindi til að aka og sigla  hjólabátum. Ekki er nægjanlegt að miða kröfur eingöngu við haffæri þar sem bátunum er einnig ekið með og án farþega á landi. Nefndin bendir sérstaklega á það í ljósi þessa slyss að reglur verði settar um öryggisbúnað slíkra farartækja s.s. með tilliti til þess að útsýn ökumanns við akstur þarf að vera góð og auka þarf öryggi þegar ekið er. Eins þarf hemla-, stýris- og ljósabúnaður að vera í lagi. 

Afgreiðsla

Jökulsárlón (3)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Réttindi til að stjórna hjólabátum

RNSA áréttar að þeir skipstjórar sem ráðnir eru til að stjórna hjólabátum hafi þau réttindi sem krafist er í lögum. Er tillögunni beint til rekstraraðila hjólabáta.

Afgreiðsla

Jökulsárlón (4)

Umferð
Nr. máls: 2015-079U014
Staða máls: Opin
23.06.2017

Tillaga í öryggisátt

Lendingarstaður fyrir þyrlur

RNSA leggur það til við Samgöngustofu að hún setji leiðbeiningar/verklagsreglur um lendingarstaði fyrir þyrlur í atvinnuskyni sem og í einkaflugi.

Afgreiðsla

Kársnesbraut Urðarbraut 8.12.2014

Umferð
Nr. máls: 2014-015-U-015
Staða máls: Lokuð
21.08.2015

Tillaga í öryggisátt

Í 11. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 með áorðnum breytingum, er fjallað um neyðardyr hópbifreiða. Um þær gildir m.a. að ef hægt er að hafa neyðardyr læstar utan frá skal alltaf vera auðvelt að opna þær innan frá. Enn fremur að ef neyðardyr sjást ekki auðveldlega úr sæti ökumanns skuli vera búnaður sem varar ökumann við ef dyrnar eru ekki tryggilega lokaðar. Viðvörunarbúnaðurinn skal stjórnast af læsingunni sjálfri en ekki af hreyfingu hurðarinnar. Í skoðunarhandbók ökutækja er ekki að finna dæmingu á þetta atriði. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við Samgöngustofu að bæta inn í skoðunarhandbók ökutækja dæmingu á ófullnægjandi útbúnaði neyðardyra hópbifreiða. Neyðarútgangur er ætlaður til að rýma ökutæki ef aðaldyr nýtast ekki sem slíkar eða rýming um þær verður ekki nógu hröð. Neyðarútgangur getur verið neyðardyr, neyðargluggi og neyðarlúga á þaki. Útgönguleiðum skal þannig fyrir komið að þær séu því sem næst jafnmargar á báðum hliðum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur eigendur hópbifreiða til að gæta að því sérstaklega hvort neyðardyrabúnaður bifreiða þeirra sé fullnægjandi.

Afgreiðsla

Bætt hefur verið við dæmingunni "Viðvörunarbúnaður um opnar neyðardyr vantar" í skoðunaratriðið 965.

Kársnesbraut Urðarbraut 8.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2014-015-U-015
Staða máls: Opin
21.08.2015

Tillaga í öryggisátt

Skólaakstur – ökumenn sjái um að skólabörn noti öryggisbelti.

Samkvæmt 71. gr. umferðarlaga skal hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti nota beltið þegar bifreiðin er á ferð. Skal ökumaður sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað bifreiðar. Brýnt er að þessum reglum sé fylgt í öllum tilvikum. Öryggisbelti í bifreiðinni sem hér er fjallað um þarf að stilla sérstaklega fyrir hvern farþega. Ef vel á að vera þyrfti að ganga á hvert barn og athuga hvort beltið er spennt og hvort það er rétt stillt. Um skólaakstur er í gildi reglugerð um merki á skólabifreiðum nr. 279/1998 með áorðnum breytingum og reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Ekki er gerð krafa um fylgdarmann með ungum börnum í þessum reglum. Í 3. gr. fyrrnefndrar reglu er sveitastjórnum gert að setja sér reglur um fyrirkomulag skólaaksturs. Kópvogsbær upplýsti Rannsóknarnefnd samgönguslysa þann 17. mars s.l. um að reglur hefðu ekki verið settar í bænum um skólaakstur, en unnið sé að úrbótum þar á. Leggur nefndin til við Innanríkisráðuneytið og Menntamálaráðuneytið að reglur um skólaakstur verði teknar til endurskoðunar.

Afgreiðsla

Í bréfi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsett 9. nóvember 2015 kemur fram að í samráði við Innanríkisráðuneytið hefur verið boðað til endurskoðunar á reglum um skólaakstur. Að lokinni þeirri vinnu verði RNSA upplýst um viðbrögð vegna málsins.

Könnun á styrkleika á stýrisbúnaði

Umferð
Nr. máls: 2016-071U016
Staða máls: Lokuð
02.09.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til framleiðanda að gera viðeigandi ráðstafanir til að rannsaka hvort steypugalli geti verið í stýri sambærilegra bifreiða og grípa til viðeigandi ráðstafana ef sá möguleiki er fyrir hendi.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til umboðsaðila Nissan á Íslandi að upplýsa framleiðanda um tillögur nefndarinnar.

Afgreiðsla

Framleiðandi tók stýrið til rannsóknar og niðurstaða hennar er að dökkir fletir sem greindust í brotinu séu einhverskonar mengun eða aðskotaefni af lífrænum toga en ekki hluti málms með hærra súrefnisinnihaldi. 

Frekari rannsókna yrði þörf til þess að útiloka algjörlega málmsteypugalla.

 

 

 

Malbiksframleiðslan stóðst ekki gæðakröfur

Umferð
Nr. máls: 2020
Staða máls: Lokuð
05.05.2021

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til framleiðanda malbiksins að yfirfara alla verkferla og gæðaeftirlit með malbiksframleiðslu sinni.

Framleiðsla malbikunarstöðvarinnar uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna. Vandamál vegna blæðinga komu jafnframt fram á mánudegi, sex dögum fyrir slysið í öðrum malbikunarframkvæmdum vegna sama útboðs og voru viðvarandi alla vikuna. Að mati RNSA var ekki framkvæmd fullnægjandi greining á orsökum þessara blæðinga í malbikinu þrátt fyrir að vandamálið hafi ítrekað komið upp

Afgreiðsla

Malbiksframleiðandinn tilkynnti RNSA í bréf dagsettu 7.9. 2021 um að gerðar hafi verið endurbætur á verkferlum er varðar malbiksframleiðslu, rannsóknir, samskipti og gæðamál hjá fyrirtækinu.