35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
Úttekt á þjóðveginum skammt frá Höfðabrekku
Tillaga í öryggisátt
Vegagerðin láti framkvæma úttekt á þjóðveginum þar sem hann liggur yfir varnargarð á slysstaðnum í þeim tilgangi að meta hvort hámarkshraði sé að minnsta kosti jafn eða lægri en hönnunarhraði að teknu tilliti til útsýnis fram veginn á þessum stað.
Í framhaldi af úttekt verði gerðar viðeigandi ráðstafanir með merkingum, breytingum á hraða eða leiðbeinandi hraða ef þörf krefur.
Afgreiðsla
Veghaldari hefur tilkynnt RNSA að framkvæmd verði úttekt á slysstað og í framhaldi gerðar ráðstafanir út frá niðurstöðu úttektarinnar. Til viðbótar hefur verið ákveðið að athuga hvort hægt sé að bæta efni utan í veginn, vestan blindhæðarinnar, til þess að auka öryggi á þessum stað.
Útnesvegur við Hellissand (1)
Tillaga í öryggisátt
Yfirborðsmerkingar
Í handbók Vegagerðarinnar um yfirborðsmerkingar frá janúar 2006 er þess getið að á vegi með árdagsumferð (ÁDU) 500 til 1000 ökutæki á sólarhring skal haft til viðmiðunar að miðlína sé sprautumössuð einu sinni á ári eða sjaldnar eftir þörfum og kantlína máluð annað hvert ár. Árdagsumferð á Útnesvegi milli Hellissands og Rifs var skv. umferðartölum 2014 709 ökutæki á sólarhring. Í svari veghaldara við fyrirspurn RNSA um viðhald yfirborðsmerkinga á Útnesvegi kom fram að verið var að mála miðlínur sama dag og slysið átti sér stað en kantlínur hafi ekki verið málaðar á þessum stað. Miðlínan var máluð í september 2014.
Rannsóknir sem nefndin hefur kynnt sér benda til þess að öryggisávinningur þess að vera með kantlínu á mjóum vegum sé jákvæður1. Kantlínur auðvelda ökumönnum að átta sig á legu vegar og akreina.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að endurskoða tíðni og framfylgja verklagi yfirborðsmerkinga á Útnesvegi í ljósi sívaxandi umferðar.
Afgreiðsla
Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 tekur stofnuninn undir með RNSA að kanntlínur auki umferðaröryggi en vegna fjárskorts hefur Vegagerðin ekki getað málað kanntlínur í eins miklu mæli og æskilegt hefði verið. Í sumar hafi þó verið bætt í og nokkrir vegir málaði sem ekki höfðu kanntlínur áður, m.a. Snæfellsnesvegur frá Stykkishólmi vestur fyrir Hellissand. Vegagerðin mun leita allra leiða til að fá aukið fjármagn til yfirborðsmerkinga, þ.m.t. til málunar kantlína.
Útnesvegur við Hellissand
Tillaga í öryggisátt
Hámarkshraðaskilti
Í 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökuhraði megi ekki vera meiri en 50 km/klst í þéttbýli nema annað sé tekið fram. Ekkert hámarkshraðaskilti er við þéttbýlisskiltið við þjóðveg 574 við eystri mörk Hellissands. Samkvæmt reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995 með síðari breytingum, ber að nota þéttbýlisskilti við akstursleiðir inn á svæði þar sem ákvæði umferðarlaganna um þéttbýli gilda. Því gildir 50 km/klst. hámarkshraði þar sem slysið varð þó svo að ekkert hámarkshraðaskilti gefi það til kynna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa gefur þetta slys tilefni til að yfirfara hraðamerkingar við þéttbýlismörk og samræma því finna má fleiri staði sambærilega þessum á þjóðvegakerfinu.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þessari tillögu til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Afgreiðsla
Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að táknmyndin á þéttbýlisskiltinu D12.11 sé svipuð og finna má í nokkrum Evrópulöndum, en að auki hefur Vegagerðin sett upp upplýsingamerkið D20.11, hámarkshraðaupplýsingar. Á því skilti er tafla með hámarkhraðaupplýsingum, m.a. hver hámarkshraðinn er í þéttbýli. Vegagerðin telur mikilvægt að ferðamenn séu vel upplýstir um hvaða reglur gilda um hámarkshraða hér á landi og mun benda þeim aðilum, sem hafa umsjón með fræðsluefni sem ferðamönnum er afhent á bílaleigum, á þetta atriði. Vegagerðin mun einnig taka til skoðunar hvort fjölga þurfi upplýsingamerkjum af gerðinni D20.11.
Útlögn malbiks
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til verktakans að yfirfara verkferla sína og gæðakerfi við malbikunarframkvæmdir.
Í útboðsgögnum kemur fram að ef feitir blettir á yfirborði útlagnar eru samtals stærri en 5 m2 skal verktaki tafarlaust stöðva útlögn. Kanna skal ástæður og gera viðeigandi umbætur áður en áfram er haldið. Ekkert í rannsókn málsins bendir til að þessu ákvæði útboðsins hafi verið fylgt. Gæðastjórnunarkerfi hafa það að markmiði að allar aðgerðir framleiðslunnar séu kerfisbundnar og auðraktar. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði við rannsóknina voru samskipti verktaka og framleiðenda malbiksins um hver rúmþyngdin ætti að vera ekki skráð né voru framkvæmdar mælingar á feitum blettum sem sáust strax eftir útlögn.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 9.9.2021 tilkynnti verktakinn RNSA til hvaða ráðstafanna hafi verið tekið til eftir útgáfu skýrslunnar. M.a. hafa verið settir upp verkferlar sem farið skal eftir ef upp koma frávik er varða blæðingar á malbiki, útbúin hefur verið eftirlitsáætlun sem byggð er á gæðaáætlun verks sem fylgt verður eftir og áhættumat fyrir malbikunarframkvæmdir hefur verið yfirfarið og uppfært. Öll þessi vinna hafi að auki verið kynnt starfsfólki fyrirtækisins sem hefur aðkomu að malbikunarframkvæmdum.
Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga
Tillaga í öryggisátt
Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið.
Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið Þingeyjarsveit. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Helstu markmið umferðaröryggisáætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Í umferðaröryggisáætlun geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka (eða hraðaflokka), umferðarmagn, yfirborðsmerkingar, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna[1]. Mörg bæjarfélög hafa unnið markvisst að uppbyggingu 30 km/klst hverfa undanfarin ár í samræmi við umferðaröryggisáætlanir. Lækkun hámarkshraða, meðal annars í nánd við skóla, samræmist gerð umferðaröryggisáætlana sem unnar eru með því markmiði að bæta umferðaröryggi í sveitafélögum.
[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannsvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.
Afgreiðsla
Þingeyjarsveit hefur sett á fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 fjármagn í gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir sveitarfélagið. Vinna við áætlunina mun hefjast á hausdögum 2024 og verður hún unnin í samræmi við leiðbeiningar um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga frá 2010 sem gefin er út af Vegagerðinni, Samgöngustofu og Mannvit.
Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sameinað sveitafélag.
Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir Djúpavog sem þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins Múlaþings. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Helstu ástæður fyrir gerð slíkra áætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Þar geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka, umferðarmagn, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna t.d. þar sem óvarðir vegfarendur fara um[1].
[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 24. apríl 2024 er nefndinni tilkynnt að sveitarfélagið Múlaþing hafi þegar brugðist við tillögu nefndarinnar. Samið hafi verið við þekkingarfyrirtæki um að annast framkvæmd umferðaröryggisáætlunar fyrir Djúpavog sem þéttbýlisstaðar innan sveitarfélagsins og skal því verða lokið eigi síðar en 1. nóvember 2024.
Tillaga um breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja
Tillaga í öryggisátt
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að leggja til breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja með það að markmiði að skerpa á kröfum um hjólbarða við vetraraðstæður þannig að krafa um vetrarhjólbarða í vetrarfærð sé skýr.
Afgreiðsla
Með bréfi Samgöngustofu dagsettu 9. maí 2020 svaraði Samgöngustofa tillögu nefndarinnar. Samgöngustofa tekur undir það að full tilefni sé til að skoða betur kröfur til vetrarhjólbarða. Fram kemur m.a. framað horfa þurfi til margra atriða áður en endanleg afstaða liggi fyrir auk þess sem aðkoma samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins yrði nauðsynleg við veigamikilar ákvarðanir. Samgöngustofa muni koma afstöðu sinni til RNSA þegar hún liggur endanlega fyrir.
Rannsóknarnefndin fagnar því að Samgöngustofa muni ráðast í frekari skoðun á þessum þáttum reglugerðarinnar.
Þar sem ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða verður tillagan áfram opin.
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (2)
Tillaga í öryggisátt
Skoðunarhandbók
Umræddur vagn hafði verið tekinn til skoðunar á skoðunarstöð 12 dögum fyrir slysið. Hlaut hann athugasemdir við alls 8 atriði, þar af 3 við ástand hemla. Að mati nefndarinnar er ekki ásættanlegt að ökutæki, og þá sérstaklega þung ökutæki, séu á vegum landsins með margvíslegar bilanir á öryggisbúnaði sínum.
Að mati RNSA ætti að setja mörk á fjölda atriða sem sett er út á án þess að fá akstursbann. Beinir nefndin þeirri tillögu til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Nefndin telur einnig að rétt sé að skrá hemlun og hemlunargetu (skoðunaratriði nr. 884 og 886) við aðalskoðun ökutækja á skoðunarvottorð líkt og gert er við mengunarmælingar. Beinir nefndin þeirri tillögu einnig til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 16. maí 2018 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið tekur undir tillögu nefndarinnar og hefur beint því til Samgöngustofu að taka tillöguna til skoðunar og mögulegar útfærslur í samráði við hagsmunaaðila.
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016 (1)
Tillaga í öryggisátt
Öryggi vegarins
Veglínan er hættuleg, bæði er brekkan brött og eins er beygjan neðst kröpp og hátt fall fram af veginum. Við rannsókn á slysinu kom fram að reglulega lenda ökumenn í vandræðum í þessari beygju og keyra á vegriðið. Þegar þetta slys varð var vegriðið mikið skemmt eftir fyrri slys.
Vegriðið hefur bjargað mörgum frá því að lenda út af veginum og niður brattan vegfláann þó svo að óvíst sé að óskemmt vegrið hefði haldið þeirri þungu vagnlest sem hér um ræðir. Mörg þessara slysa hafa verið án meiðsla, en í ljósi þeirra og þess slyss sem hér er um fjallað leggur nefndin til við veghaldara að gerðar verði úrbætur á veginum til að auka öryggi vegfarenda.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 27. nóvember frá veghaldara kemur fram að gerð hefur verið tillaga að nýrri veglínu. Einnig kemur fram í bréfinu að í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árið 2015 - 2016 er gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verks á þriðja tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árunum 2023 -2016.
Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016
Tillaga í öryggisátt
Viðgerðir og viðhald þungra ökutækja
Bíltækniskoðanir ökutækja sem eru þyngri en 3,5 tonn sem RNSA hefur undir höndum, bera þess skýr merki að viðhald, þá sérstaklega á hemlum eftirvagna, sé oft ábótavant. Í október 2007 var farið í sérstakt umferðareftirlit með vörubifreiðum og niðurstöður úr því eftirliti voru að af 10 festi- og tengivögnum voru einungis tveir í fullkomnu lagi, sjö fengu endurskoðun og tveir lagfæringu.
Ummerki voru á vagninum um að reynt hafi verið að gera við hemlana en viðgerðin var ófullnægjandi. Vagninn hafði ekki verið færður til endurskoðunar áður en hann var nýttur til flutnings á þessum þunga farmi. Í 17. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009 með síðari breytingum kemur fram að hafi verið gerð athugasemd í skoðun skal haga notkun þess í samræmi við niðurstöður skoðunar. Nefndin hvetur eigendur þungra ökutækja til að skoða og bæta verklag hjá sér varðandi eftirlit og viðhald ökutækja sinna og sjá til þess að ástand þeirra sé gott til að fyrirbyggja slys og óhöpp.
Nefndin ítrekar tillögu þess efnis að fjölga skuli lögbundnum skoðunum þungra ökutækja, auka vegaeftirlit og taka til skoðunar hvort rétt sé að gera þá kröfu að viðhald öryggisbúnaðar þungra ökutækja sé einungis í höndum fagaðila. Beinir nefndin þessum tillögum til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.
Afgreiðsla
Í bréfi dags. 16. maí 2018 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið hafi leitað umsagnar Samgöngustofu á hvort fjölga skuli lögbundnum skoðunum þungra ökutækja umfram það sem þegar er áskilið. Samgöngustofa metur það svo að ekki sé nauðsynlegt að fjölga skoðunum en bendir á 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem fjallar um ábyrgð eiganda ökutækis á lögmætu ástandi þess. Ráðuneytið féllst á sjónarmið Samgöngustofu.
Í umsögn Samgöngustofu og í sameiginlegri umsögn lögreglustjóranna á Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi um tillöguna er undir það tekið að auka vegeftirlit. Ráðuneytið bendir á að ábyrgð á vegaeftirliti færist til dómsmálaráðuneytisins með frumvarpi til nýrra umferðarlaga.