Tillögur í öryggisátt Síða 7

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Hlífðarbúnaður bifhjólamanna

Umferð
Nr. máls: 2020-080U012
Staða máls: Lokuð
28.06.2021

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að auka fræðslu um hlífðarbúnað bifhjólamanna.

Hlífðarhjálmur bifhjólamannsins sem lést í slysinu var ekki ætlaður til notkunar við akstur bifhjóls. Hjálmar veita ökumönnum vernd og mikilvægt er fyrir bifhjólamenn að vera ávallt með góðan hjálm á höfði. Ýmiss annar viðurkenndur búnaður veitir bifhjólamönnum aukna vernd gegn áverkum í slysum. Hægt er að verða sér út um sérhannaðan hlífðarbúnað fyrir bifhjólafólk, svo sem buxur, jakka, hanska og skó. Er sá hlífðarbúnaður CE eða DOT merktur þ.a. hann uppfyllir staðla um verndarbúnað fyrir bifhjólamenn. Mikilvægt er að fræða bifhjólamenn um slíkan búnað og hvetja enn frekar til notkunar á honum.

Afgreiðsla

Í svarbréfi dagsettu 18. janúar var RNSA tilkynnt um að málið yrði tekið fyrir á fræðslufundi bifhjólamanna vorið 2022.

Hjálmanotkun reiðhjólamanna

Umferð
Nr. máls: 2017-058U004
Staða máls: Opin
11.09.2018

Tillaga í öryggisátt

Um það bil 70 til 75% banaslysa hjólreiðamanna eru af völdum höfuðáverka[1]. Höfuðáverkar eru algeng ástæða fyrir örorku sem leggur mikið á hinn slasaða og hans nánustu sem og samfélagið í heild. Í nýlegri viðamikilli samanburðarrannsókn á niðurstöðum fjölda rannsókna frá mörgum löndum á áhrifum hjálma á höfuðmeiðsli í reiðhjólaslysum kemur í ljós að hlutfall þeirra sem urðu fyrir höfuðmeiðslum var að meðaltali helmingi minna meðal þeirra sem voru með hjálm en hjá þeim sem voru án hjálms. Öryggisáhrif hjálma mælast meiri fyrir alvarleg höfuðmeiðsl. Hlutfall þeirra sem urðu fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum, þ.m.t. banaslysum, var að meðaltali 69% lægra meðal þeirra sem voru með hjálm en þeirra sem ekki voru með hjálm[2]. Í þessu slysi hlaut hjólreiðamaðurinn banvæna höfuðáverka. Hann var ekki með hjálm.

Reiðhjólahjálmar veita vernd gegn höfuðáverkum og hvetur Rannsóknarnefnd samgönguslysa reiðhjólamenn til að nota ávallt viðurkennda reiðhjólahjálma við hjólreiðar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglur með tilliti til hjálmaskyldu fyrir allt hjólreiðafólk.

 

[1] WHO, 2006: „Helmets: A road safety manual for decision-makers and practitioners“ Geneva, Sviss.
NHTSA, 2008: „Traffic Safety Facts: Bicycle Helmet Use Laws“  Washington, D.C., National Highway Traffic Safety Administration, 2008 (DOT HS-810-886W).
[2] Olivier, Creighton, 2017: „Bicycle injuries and helmet use: a systematic review and meta-analysis.“ International Journal of Epidemiology, Volume 46, Issue 1. Oxford University Press.

Afgreiðsla

Hellisheiði 29.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Lokuð
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Yfirborðsmerkingar og viðhald þeirra. Rannsókn slyssins leiddi í ljós að ökumenn sem þarna voru á ferð áttu í erfiðleikum með að átta sig á miðlínu vegarins. Bæði var skafrenningur og snjór á veginum ásamt því að málningin á miðlínu vegarins var orðin máð. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, var miðlínan síðast máluð fyrir slysið í júní 2013, eða um ½ ári áður. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við veghaldara að skoða með hvaða hætti hægt sé að minnka líkur á að ökumenn lendi í þeim aðstæðum að eiga í erfiðleikum með að greina miðlínu vegar.

Afgreiðsla

Í svari veghaldara kemur fram að á umræddum stað séu yfirborðsmerkingar endurnýjaðar á hverju ári. Þær verði fyrir mikilli áraun vegna m.a. umferðar og snjómoksturs en miðað við nútímatækni sé ekki mögulegt að endurnýja þær að vetrarlagi. Veghaldari hafi á undanförnum árum látið fræsa rifflur milli akstursátta á allmörgum stöðum og stefnt sé að slíkri útfærslu á fleiri stöðum eftir því sem aðstæður leyfa.

Hellisheiði 29.12.2014 (1)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Lokuð
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Aðgreining akstusátta. Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss er með umferðarmestu þjóðvegum utan þéttbýlis á Íslandi. Undanfarin ár hafa orðið þarna mörg alvarleg umferðarslys. Veghaldari hefur á síðast liðnum árum unnið að bættu umferðaröryggi á veginum sem hefur skilað sér í fækkun alvarlegra slysa. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut að aðgreina akstursáttir á Suðurlandsvegi til að forða því að ökutæki lendi í hörðum framanákeyrslum eins og í því slysi sem hér er fjallað um. Beinir nefndin því til veghaldara að mikilvægt er að ljúka endurbótum á veginum sem allra fyrst.

Afgreiðsla

Í svarbréfi veghaldara kemur fram að unnið sé að aðgreiningu akstursátta á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfossar og samkvæmt fyrirlyggjandi áætlun er gert rað fyrir að ljúka aðgerðum á vegkaflanum á næstu fjórum árum.

Hellisheiði 29.12.2014

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Opin
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Nálægðarakstur Samkvæmt gögnum umferðargreinisins sem staðsettur er rétt við slysstað, óku 2130 ökutæki yfir heiðina þennan dag milli klukkan 10 og 19. Voru 104 ökutæki innan við sekúndu frá næstu bifreið fyrir framan, eða um 5 % ökutækja. Þegar öll ökutæki voru talin þar sem bil á milli bifreiðavar minna en 3 sekúndur reyndist það eiga við um þriðjung allra ökutækja. Gott er að hafa í huga að viðbragðstími ökumanns í þjóðvegarakstri, þ.e. sá tími sem liður frá því að hætta skapast þar til ökumaður hemlar og/eða beygir frá, er 1 til 2,5 sekúndur. Ökutæki á hraðanum 90 km/klst. fer 25 metra á sekúndu þannig að ökutæki á þeim hraða ekur 25 til 63 metra frá því hætta skapast þar til ökumaður byrjar að bregðast við. Af þessum sökum er mikilvægt að viðhalda góðu bili á milli ökutækja svo hægt sé að bregðast af öryggi við óvæntum hættum. Í ökukennslu er svokölluð þriggja sekúndna regla kennd, þar sem bent er á að hafa a.m.k. þriggja sekúndna bil á milli bíla og lengra ef færð er ekki góð. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að koma þessum skilaboðum á framfæri til ökumanna.

Afgreiðsla

Heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir

Umferð
Nr. máls: 2022-043U006
Staða máls: Lokuð
24.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að vinna að heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir á vegakerfi landsins. Einnig að endurskoða/yfirfara verklag og kostnaðarlíkön við ákvarðanir á gerð slitlags á vegi nr. 1 meðal annars að teknu tilliti til möguleika á fræsun riffla og áhrifa þeirra á umferðaröryggi.

Vegflokkar eru fjórir, stofnvegir, tengivegir, héraðsvegir og landsvegir. Vegtegundir eru A, B, C og D. Á slysstað er vegflokkurinn stofnvegur og hluti hringvegar um landið en breidd slitlags féll undir vegtegund C7 þar sem slitlag var 6 metrar á breidd. Vegtegund C7 skal ekki nota sem stofnvegi en nokkuð er um eldri vegi sem ekki falla að núgildandi hönnunarreglum Vegagerðarinnar. Umferðarrýmd C7 vegtegunda er ÁDU ≤ 500 ökutæki á sólarhring en á hringvegi nr. 1 er ÁDU > 501 ökutæki á sólarhring nema á stöku stað á Austfjörðum. Þar sem klæðning er notuð sem bundið slitlag er ekki hægt að fræsa rifflur í vegi. Síðastliðin 10 ár hefur álagið á stofnvegum landsins aukist talsvert, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna, sem huga þarf að við val á tegund af bundnu slitlagi.

Afgreiðsla

Vegagerðin vinnur nú að heildstæðu umferðaröryggismati á vegakerfinu og gert er ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu árið 2025. Í undirbúningi þess verkefnis hefur verið unnið að kortlagningu á raunverulegri breidd vega sem m.a. liggja til grundvallar varðandi flokkun vega m.t.t. umferðaröryggis. Vegagerðin hefur ákveðið að birta í vegaskrá upplýsingar um raunverulega vegtegund vega. Með því að flokka vegakerfið í heildstæðu umferðaröryggismati og birta upplýsingar um áætlaða vegtegund hvers kafla á vegkerfinu verða til betri upplýsingar um raunverulega stöðu vegakerfisins

Í samræmi við greiningu frá árinu 2010, sem byggði á mati á stofn- og viðhaldskostnaði í tengslum árherslur við val á gerð slitlaga, geti mörkin við malbiksslitlag verið á bilinu 2.000 til 5.000 ökutæki / sólarhring. Vegagerðin stefnir að því að endurskoða þessi viðmið þar sem auk mats á viðhalds- og stofnkostnaði verði horft til kostnaðar vegfarenda og samfélagslegs kostnaðar vegna slysa.

Vegagerðin bendir á að þó að viðmið varðandi gerð slitlaga verði gerð eru það fyrst og fremst fjárveitingar til viðhalds þjóðvega sem hafa áhrif á það hversu hratt gengur en á undanförnum árum hafa fjárveitingar til viðhalds á vegakerfinu verið töluverð innan við viðhaldsþörf.

Hafnarvegur við Stekkakeldu (2)

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Opin
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Meðferð slasaðra eftir háorkuáverka Farþeginn í Toyota sendibifreiðinni var tekinn til skoðunar strax eftir slysið á heilsugæslu og virtist hann ekki mikið slasaður. Fylgst var með honum í nokkurn tíma og fékk hann aðhlynningu. Hann fékk síðan að fara til síns heima en leitaði aftur á heilsugæslu morguninn eftir mikið kvalinn. Við nánari skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að hann hafði hlotið alvarlega áverka sem ekki höfðu verið greindir deginum áður. Áreksturinn fellur samkvæmt skilgreiningu Landlæknis undir háorkuáverka. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa ætti ávalt að flytja slasaða sem falla undir þá skilgreiningu á sjúkrahús þar sem góð greiningar- og meðferðaraðstaða er fyrir hendi til að meðhöndla áverka sem af slíkum slysum geta hlotist. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Landlæknis að þessi vinnuregla sé viðhöfð.

Afgreiðsla

Hafnarvegur við Stekkakeldu (1)

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Lokuð
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Hemlar eftirvagna Í nokkrum slysum sem Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað hefur komið í ljós að hemlar eftirvagna vörubifreiða hafa verið í ólagi. Í október 2007 var farið í sérstakt umferðareftirlit með vörubifreiðum og niðurstöður úr því eftirliti voru að af 10 festi- og tengivögnum voru einungis tveir í fullkomnu lagi, sjö fengu endurskoðun og tveir lagfæringu. Bendir þessi niðurstaða sem og niðurstöður úr rannsóknum banaslysa að viðhaldi og eftirliti sé ábótavant. Í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Eyrarbakkavegi við Kaldaðarnesveg í apríl 2008 birti nefndin ábendingu varðandi þetta atriði og ítrekar nú mikilvægi þess að reglulega sé fylgst með ástandi eftirvagna. Nefndin hvetur eigendur til að skoða verklag hjá sér sem og til þess að vegaeftirlit Lögreglunnar taki þetta atriði til sérstakrar skoðunar.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Lögreglustjóranna á Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Vesturlandi, dagsettu 3. maí 2016, er lagt til að keyptur verði færanlegur rúlluhemlaprófari til notkunar fyrir vegaeftirlit lögreglu. Einnig er lagt til að eigendum stærri ökutækja og bifreiða sem notaðar eru í atvinnuskyni verði gert að færa þær til skoðunar á 40.000 km fresti, eða að lágmarki tvisvar á ári. Útprentun á hemlaprófi verði látið fylgja skoðunarvottorði og fjölga þurfi eftirlitsstöðum vegaeftirlitsins sem og að lagfæra þurfi núverandi staði. 

Hafnarvegur við Stekkakeldu

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Lokuð
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Stöðvun bifreiða á þjóðvegum skapar hættu. Nauðsynlegt getur verið að stöðva ökutæki á þjóðvegum og þurfa allir ökumenn að vera við því búnir að bregðast við ef fyrirstaða er á veginum fyrir framan, t.d. bifreið eða dýr. Hins vegar skapar það hættu að stöðva ökutæki á akbraut og ökumenn ættu ávallt að leggja utan akbrautar. Víða eru þjóðvegir á Íslandi ekki breiðari en svo að ekki er hægt að stöðva ökutæki úti í vegkanti án þess að hluti þeirra standi inn á akbrautinni. Í 27. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökumaður skuli ekki stöðva ökutæki á þeim stað eða þannig að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferð. Þekkt er m.a. að ferðamenn stöðvi bifreiðar sínar á vegum til þess að taka myndir sem getur skapað verulega hættu í umferðinni. Leggur nefndin því til við Samgöngustofu að koma því á framfæri við ökumenn, m.a. erlenda ferðamenn, að alvarleg hætta skapast þegar ökutæki er stöðvað á þjóðvegi.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur í framhaldi af tillögu RNSA sent bréf til allra ökutækjaleiga þar sem m.a. er farið yfir þær upplýsingaskyldur sem þær hafa samkvæmt lögum. Meðfylgjandi bréfinu var spurningalisti þar sem fyrirtækin voru beðin að svara hvernig m.a. upplýsingagjöf er háttað til viðskiptavina og fleira. Samgöngustofa mun svo í framhaldinu vinna úr þeim svörum og meta hvar útbóta er þörf. Í sumar mun Samgöngustofa með ýmsum hætti koma ábendingum á framfæri við ökumenn um þá hættu sem skapast þegar ökutæki er stöðvað á akbraut. 

Grjóthrun og öryggissvæði

Umferð
Nr. máls: 2018-102U016
Staða máls: Lokuð
24.01.2020

Tillaga í öryggisátt

Nefndin beinir því til veghaldara að skoða hvort ekki sé hægt að takmarka frekar þá hættu sem stafar af reglulegu grjóthruni úr hlíðinni fyrir ofan veginn. Í vegstaðli um vegbúnað kemur fram að öryggissvæði, þ.e. svæði meðfram veginum skuli vera 6 metrar fyrir veg eins og þann sem slysið átti sér stað. Grjótið sem bifreiðin lenti á var innan öryggissvæðis vegarins. Mikilvægt er að hættur í nánasta umhverfi vega séu fjarlægðar eða takmarkaðar til þess að vegumhverfið sé eins öruggt og kostur er og auki ekki á alvarleika atvika heldur dragi úr þeim. Í hlíðinni fyrir ofan veginn þar sem slysið varð er leirblandaður jarðvegur sem er laus í sér. Samkvæmt veghaldara er vatnsrásin grjóthreinsuð á hverju vori en ekki var búið að hreinsa rásina þegar slysið varð. Hafði verkið tafist sökum þess að vorið og það sem liðið hafði verið af sumri var votviðrasamt. Grjóthreinsunin var gerð skömmu eftir slysið.  Grjótið sem bifreiðin lenti á hafði nýlega fallið í vegrásina og höfðu verið gerðar ráðstafanir til að það yrði fjarlægt.

Afgreiðsla

Veghaldari greindi RNSA frá í svarbréfi að ávalt sé reynt að hreinsa grjót úr vegrásinni eins fljótt og auðið er. Veghaldari hefur ákveðið að fara kerfisbundið yfir hlíðina ofan vegar á þessum stað og fjarlægja þá steina sem eru lausir og eiga eftir að koma niður.