35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
Vesturlandsvegur sunnan Bifrastar 23.8.2013 (1)
Tillaga í öryggisátt
Merking ferðamannastaða Í rannsókn sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa framkvæmdi á umferðarslysum erlendra ferðamanna á árunum 2006 til 2010 kom í ljós, að önnur algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa þessa hóps var að athygli ökumanns var ekki við aksturinn á eftir of hröðum akstri miðað við aðstæður. Við rannsókn þessa slyss kom í ljós að erlendi ferðamaðurinn var að skoða vegakort undir stýri til að átta sig á hvar afleggjarinn að fossinum Glanna væri. Lítið skilti er við afleggjarann að fossinum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess að ferðamannastaðir séu vel merktir. Beinir nefndin því til Ferðamálastofu og Vegagerðarinnar að taka staði sem sérstaklega eru auglýstir fyrir erlenda ferðamenn til skoðunar hvað þetta atriðið varðar.
Afgreiðsla
Í svari sem barst frá Vegagerðinni kemur fram að merkingar á umræddum stað hafi verið skoðaðar sérstaklega og verið sé að huga að breytingum á þeim. Einnig mun Vegagerðin, í samráði við ferðamálastjóra, taka til athugunar hvort ástæða sé til að skoða merkingar ferðamannastaða sérstaklega.
Skeiðavegur við Brautarholt 25.3.2013
Tillaga í öryggisátt
Akstur vinnuvéla með ámoksturstæki á vegum opnum almennri umferð. Engar öryggisreglur eru í gildi hér á landi um akstur vinnuvéla með áföstum ámoksturstækjum á vegum eða götum opnum fyrir almennri umferð. Áhersla er lögð á öryggismál í hönnun og smíði bifreiða með tilliti til áreksturs, útafaksturs og veltu. Einn mikilvægasti þátturinn í þessum tilvikum er talinn vera að koma í veg fyrir að aflögun verði inn í farþegarými bifreiðanna. Við hönnun bifreiða er gengið út frá því að mesta höggið í árekstrum komi í stuðarahæð sem er að öllu jöfnu bilinu 30 til 60 cm frá jörðu og flestar bifreiðar hannaðar til að taka á móti höggi í þeirri hæð. Til að mynda er skylt að vera með framvörn á vörubifreiðum í að hámarki 400 eða 445 mm frá vegi eftir þyngd bifreiðanna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er það mjög brýnt að settar verði reglur sem varna því að akstur með ámoksturstæki geti valdi slysi sem þessu. Við skoðun varnaðarreglna ber að líta til þess að ámoksturstækin eru augljóslega hættuleg öðrum vegfarendum og að þau skerða útsýn ökumanna vegna umfangs tækjanna. Nefndin beinir þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að vinna að setningu reglna hér að lútandi og beinir því jafnframt til Vinnueftirlitsins að það fjalli sérstaklega um hættu sem öðrum vegfarendum stafar af akstri véla með ámoksturstækjum í kennsluefni á vinnuvélanámskeiðum.
Afgreiðsla
Svar barst frá Vinnueftirlitinu 14. apríl 2014 þar sem Vinnueftirlitið tilkynnir RNSA að kennsluefni í vinnuvélanámskeiðum verði yfirfarið og bætt ef þörf sé á. Í bréfinu er tilgreint að ætíð hafi verið kennt að aka skuli tækjum eins og dráttarvélum eða lyfturum með ámoksturstækjum eða lyftigöflum sem næst jörðu.
Skeiðavegur við Brautarholt 25.3.2013 (2)
Tillaga í öryggisátt
Í Brautarholti er byggðakjarni og sundlaug opin almenningi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að gerð verði séstök öryggisúttekt á gatnamótunum. Árdagsumferð á Skeiðavegi er tæplega 1000 ökutæki og liggur vegurinn jafnframt í beygju sunnan við Brautarholt og er trjálundur rétt rúmlega 10 metra frá veginum austan megin. Vegsýn suður veginn er um 200 metrar frá vegamótunum að Brautarholti vegna trjánna. Að mati nefndarinnar er þörf á að auka umferðaröryggi á þessum stað og beinir nefndin þeirri tillögu til Vegagerðarinnar og Skeiða- og Gnúpverjahrepps að það verði gert. Nefndin leggur til að litið verði sérstaklega til hraðalækkandi aðgerða í þeim efnum.
Afgreiðsla
Svar barst frá Vegagerðinni 4. apríl 2014 þar sem Vegagerðin greinir frá að öryggisúttekt hafi verið framkvæmd á vegamótunum og gerðar verði nokkrar breytingar til að bæta umferðaröryggi á þessum stað.