Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út lokaskýrslu vegna alvarlegs flugatviks er varð á flugvél TF-FGC við Sandskeið þann 13. september 2014. Flugkennari var með flugnema í kynnisflugi í Austursvæði ofan Reykjavíkur. Í klifri í um 2200 feta hæð varð flugkennarinn var við óeðlilegt hljóð frá hreyfli flugvélarinnar. Var þá flugvélin stödd í grennd við Litlu kaffistofuna og stefndi flugkennarinn þá flugvélinni í átt að flugvellinum við Sandskeið. Skammt frá Sandskeiði stöðvaðist hreyfill flugvélarinnar og lýsti flugkennarinn þá yfir neyðarástandi og nauðlenti flugvélinni á flugvellinum við Sandskeið. Leiddi rannsókn RNSA í ljós að málmagnir var að finna í mælistykki í eldsneytiskerfi flugvélarinnar, en hreyfill hennar hafði verið grannskoðaður skömmu áður. Skýrsluna má finna undir eftirfarandi hlekk:
http://www.rnsa.is/media/3799/tf-fgc-vid-sandskeid-lokaskyrsla.pdf